Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Sparðatíningur

Hér eru nokkur ómerkileg dæmi um mótsagnir í Biblíunni, rugl með tölur og þess háttar. Skiptir engu máli, nema fyrir þá sem halda að þeir séu með óskeikult Orð Guðs í höndunum þegar þeir lesa Biblíuna.

 „Ahasía var tuttugu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og ríkti hann eitt ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Atalía, sonardóttir Omrí Ísraelskonungs.“ (2. Konungabók 8:26)

 „Ahasía var fjörutíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Atalía, sonardóttir Omrí.“ (2. Kroníkubók 22:2)

Fleiri mótsagnir í þessum dúr eru t.d. að Salómón átti 40.000 vagnhesta skv. 1.Konungabók 4:26 , en 4.000 þúsund samkvæmt 2. Kron 9:25. Jójakín var 18 ára þegar hann varð konungur skv. 2. Konungabók 24:8, en 8 ára skv. 2. Kron 36:9.

Margar mótsagnirnar eru miklu alvarlegri en þessar. Til að mynda skammar Drottinn Jehú vegna morðanna sem hann framdi í Jesreel í Hósea bók, og segist ætla að vitja blóðskuldarinnar. 2. Konungabók segir hið ganstæða, að Drottinn hafi fyrirskipað morðin í Jesreel, og Drottinn hrósar Jehú fyrir að hafa staðið sig vel,  er hann þurkaði út afkomendur Akabs (m.a. í Jesreel) ,,þú hefur leyst vel af hendi það sem rétt er í mínum augum, og farið alveg mér að skapi með ætt Akabs“, og síðan lofar Guð Jehú að hann og afkomendur hans í 4 ættliði verði konungar yfir Ísrael að launum, sbr færsluna Pólitísk átök í Biblíunni.

Dæmi eru um það að bækur Gamla testamenntisins séu hreinlega skrifaðar til að leiðrétta aðrar bækur þess. T.d virðist Rutarbók skrifuð til að leiðrétta bann Esra og Nehemía gegn blönduðum hjónaböndum gyðinga og útlendinga. Hann mátti ekki vera í söfnuði Drottins að eilífu.


Æskilegt er að flengja börn

Ég las nýlega ræðu mjög vinsæls bandarísks predikara sem ég þekki aðeins til, sem heitir John Piper. Mér brá talsvert þegar ég las ræðuna, þar sem Piper er alls ekki sá furðulegasti í þessum bransa. Ræðan var hins vegar alveg skelfileg, og hét "Myndi Jesú flengja barn?"

Hér eru nokkrar setningar úr ræðunni.

If Jesus were married and had children, I think he would have spanked the children.

God disciplines every son whom he loves, and spanks everyone that he delights in (my paraphrase). And the point there is suffering. God brings sufferings into our lives, and the writer of the Hebrews connects it to the parenting of God of his children.

God uses suffering to discipline his children. So do we.

 Now, you don’t damage a child. You don’t give him a black eye or break his arm. Children have little fat bottoms so that they can be whopped.

Spanking is so clean! It’s so quick! It’s so relieving! A kid feels like he has done atonement and he is out of there and happy…. I just think spanking is really healthy for children.

Piper er hins vegar vorkun. Í Biblíunni, "bók bókanna", eins og börnin syngja í sunnudagaskólanum, eru nefnilega talsvert margar fyrirskipanir um líkamlegar refsingar á börnum. Piper er sannfærður um að Biblían sé orð Guðs, og hví skyldi hann þá vera andvígur smáræði eins og flengingum?

5. Mósebók 21:18-21

Eigi maður þrjóskan son og ódælan sem hvorki vill hlýða föður sínum né móður og hlýðnast þeim ekki heldur þótt þau hirti hann, 19skulu faðir hans og móðir taka hann og færa hann fyrir öldunga borgarinnar á þingstaðinn í borgarhliðinu. 20Þá skulu þau segja við öldunga borgarinnar: „Þessi sonur okkar er þrjóskur og ódæll og hlýðir ekki áminningum okkar. Hann er bæði ónytjungur og svallari.“ 21Þá skulu allir karlmenn í borginni grýta hann til bana.

Orðskviðirnir 23:13-14 segja:

Sparaðu eigi aga við sveininn, því ekki deyr hann þótt þú sláir hann með vendinum. Þú slærð hann að sönnu með vendinum, en þú frelsar líf hans frá Helju.

Orðskviðirnir 20:30 segja:

Blóðugar skrámur hreinsa illmennið og högg, sem duglega svíða. ("rista djúpt" betri þýðing)

Orðskviðirnir 19:18 segja:

Aga þú son þinn, því að enn er von, en farðu eigi svo langt, að þú deyðir hann.


Ég er morðingi og ræningi

Í Jakobsbréfi 2:10 er að finna mjög sérstakt vers. Þar segir: "Þótt einhver héldi allt lögmálið en hrasaði í einu atriði, þá er hann orðinn sekur við öll boðorð þess."

Er þetta réttlátt? Hefur maður sem leggur nafn Drottins við hégóma, þá líka drýgt hór, drepið og stolið?

Hvað myndi fólki finnast um frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum, þess efnis, að hafi menn brotið gegn einhverri grein í lögunum, að þá hafi menn brotið þær allar? Væri sanngjarnt að maður sem gerist bortlegur við 176. gr. og veldur með ólögmætum hætti truflun á rekstri almennra samgöngutækja, væri líka sekur um brot á öllum greinum í 22. kafla laganna um kynferðisbrot?


Þeir rugluðust

Ég ætla rifja upp nokkur dæmi sem ég hef fjallað um áður, um rugling hjá höfundum guðspjallanna. 

Matteus 27:9 segir: „Þá rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns: "Þeir tóku silfurpeningana þrjátíu, það verð, sem sá var metinn á, er til verðs var lagður af Ísraels sonum"

- Hvar stendur þetta í spádómsbók Jeremía? Svar: hvergi. Höfundur Matteusarguðspjalls er eitthvað að ruglast. Nánar tiltekið ruglar hann saman Jeremía og Sakaría, þar sem Sakaría 11:12-13 segir eitthvað í líkingu við það sem höfundur Matteusar segir að Jeremía hafi sagt.

--

Matteus 2:23 segir: „Þar settist hann að í borg, sem heitir Nasaret, en það átti að rætast, sem sagt var fyrir munn spámannanna: "Nasarei skal hann kallast."“

- Hvar er þennan spádóm spámannanna sem Matteus er að vísa til að finna? Svar: hvergi. Höfundur Matteusarguðspjalls er eitthvað að steypa.

--

Markús 1:2 segir: "Svo er ritað hjá Jesaja spámanni: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er  greiða mun veg þinn."

- Hvar stendur þetta hjá Jesaja spámanni? Svar: hvergi. Höfundur Markúsarguðspjalls hefur eitthvað fipast. Hann ruglar saman Jesaja og Malakí, sjá Malakí 3:1

--

Í 2. kafla Markúsarguðspjalls segir meðal annars frá því þegar Jesús og menn hans tíndu kornöx á hvíldardegi. Farísearnir gagnrýndu Jesú fyrir að brjóta hvíldardagsboðorðið, og Jesús svaraði með þessum orðum:

"Hafið þér aldrei lesið, hvað Davíð gjörði, er honum lá á, þegar hann hungraði og menn hans? Hann fór inn í Guðs hús, þegar Abíatar var æðsti prestur, og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum."

Hérna er höfundur Markúsarguðspjalls eitthvað að ruglast. Hann er að vísa til sögu sem er í 21. kafla Samúelsbókar (1. Sam 21:1-10). Í þeirri sögu þáði Davíð skoðunarbrauðin af Ahímelek æðstapresti, er Davíð og menn hans voru á flótta undan Sál. Ahímelek var æðstiprestur, en ekki Abíatar. Hér ruglar höfundur Markúsarguðspjalls saman nöfnum. Abíatar varð æðstiprestur síðar, og Davíð þurfti ekki að þyggja neitt brauð af honum.


2. Mós 4:11

Drottinn svaraði honum: „Hver gefur manninum munn, hver gerir hann mállausan eða heyrnarlausan, sjáandi eða blindan? Er það ekki ég, Drottinn?


Síðasti séns til að kaupa harðfisk

Kristnir næstumþvíbókstafstrúarmenn hafa nú árum saman bent okkur á að heimsendir sé á allra næstu grösum. Til dæmis hafa Hvítasunnumenn frá upphafi lagt áherslu á að síðustu tímar væru runnir upp. Margar keimlíkar trúarhreyfingar segja það sama.

Ég hef oft hlustað á Vörð Leví Traustason, þann ljómandi fína mann, forstöðumann Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu, og föður Hvítasunnuhreyfingarinnar á Íslandi, predika. Í ræðunum hefur komið fram, að þegar hann var barn eða unglingur, hafi mikil áhersla verið á það að Jesús kæmi bráðum aftur í Hvítasunnuhreyfingunni. Burthrifningin væri rétt handan við hornið. Það er ekki langt síðan forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri sagði að menn hefðu 3-5 ár til að gera iðrun og hlýða fagnaðarerindinu. 

Þegar ég byrjaði í "bransanum" árið 1993, töldu menn líklegt að Jesús væri alveg að fara að koma aftur. Ég man reyndar sérstaklega eftir predikunum um það í Krossinum, en líka annarsstaðar. Ég reiknaði t.d. ekki með því að verða nokkurntímann afi. Margir töldu líklegt að Jesús kæmi í kringum árið 2000. Enda skapaði Guð heiminn á 6 dögum, og hvíldi sig sjöunda daginn. Í kringum árið 2000 væru um 6000 ár síðan heimurinn var skapaður, og þúsund ára ríkið yrði hvíldartími, líkt og sjöundi dagurinn, og að þeim tíma liðnum 7000 ár liðin frá sköpun heimsins. (Þeir sem vita ekki hvað "þúsundára ríkið" og Burthrifningin ("rapture" á ensku) eru geta lesið um þessu hugtök í upphafi þessarar færslu hér.)

Endatímapredikanir hafa hljómað alveg síðan Hvítasunnuhreyfingin hófst með vakningunni í Asúsastræti árið 1906. Endirinn hefur verið rétt handan við hornið allar götur síðan. Ég las eitt sinn bók eftir fyrrverandi Hvítasunnupredikara og tónlistarmann (eða "lofgjörðarleiðtoga", til að nota lingó hvítasunnumanna), þar sem hann fjallaði um það hvernig hann horfið á gömul riðguð skilti, þegar hann var yngri, um að Jesús væri alveg að fara koma aftur. 

Bækur á borð við "88 reasons why the rapture will be in 1988" voru metsölubækur sem milljónir hvítasunnumanna keyptu árið 1988. Árið eftir kom út bókin "89 reasons why the rapture will be in 1989". Aftur metsölubók. Endatíma predikarar á borð við Hal Lindsey hafa verið gríðarlega vinsælir, og flestir evangelískir næstumþvíbókstafstrúaðir hafa séð myndirnar "Left Behind", sem fjalla um fólk sem skilið var eftir þegar burthrifningin átti sér, og aðstæðum og atburðum endatímanna, sem voru rétt handan við hornið, lýst, í samræmi við meinta spádóma Biblíunnar. 

Brian D. McLaren, sem er fyrrverandi evangelískur næstumþvíbókstafstrúar predikari, og núverandi ekki bókstafstrúaður frjálslyndur predikari, segir í skemmtilegri bók sinni "Generous Orthodoxy", bls 159-160:

Back in the 1960s, we "knew" the Bible taught that the world would end within about 25 years...oops. We also "knew" from the Bible that it would end through a conflict between the United States/Israel representing God versus the Soviet Union/China representing the devil. Oops again.

Menn hafa ekkert lært af reynslunni. Trúarleiðtogar, og hundruð milljóna sem fylgja þeim, eru þess fullvissir, að núverandi kreppa sé upphafið að endinum. Síðustu tímar eru komir. Aftur.


Á ekki að segja "eitra fyrir honum"?

"Eitri var komið fyrir í fæðubótaefni sem Árni Johnsen þingmaður tók á tímabili og þannig eitrað fyrir hann", stendur í þessari frétt. Á ekki að segja að það hafi verið "eitrað fyrir honum"?

En hvurslags eitur hefur þá virkni, að hendur bólgna upp, og ekkert annað?


mbl.is DV: Eitrað fyrir Árna Johnsen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmisagan um konunginn

Ég var í mörg ár evangelískur, náðargjafarvakningar, næst um því bókstafstrúarmaður, sem þýðir að ég átti mesta samleið með Hvítasunnukirkjum, og söfnuðum á borð við Veginn, Krossinn og Kærleikann (sem var ekki til þegar ég var trúaður). Eftir nokkur ár, var ég kominn með upp í kok af þessari tegund af kristindómi af ýmsum ástæðum. Það var byrjað að fjara undan trú minni, og ég var farinn að leita í bækur eftir kristna hugsuði úr ýmsum kirkjudeildum, til að athuga hvort einhver þeirra gæti höfðað betur til mín, eða hvort eitthvað frá þeim mætti nota til að betrumbæta þann kristindóm sem ég hafði aðhyllst. Kristindómur gekk alls ekki lengur upp í mínum huga. Eitt af hundruðum atriða sem "bögguðu" mig, var að mér fannst hálf sturlað, ef ég hugsaði aðeins út í það, að Guð hafi sent son sinn, sem var sjálfur pabbi sinn, til að deyja, af því að allir voru syndarar, út af því að kona sem var mynduð af rifi manns síns, át ávöxt af einhverskonar töfra tré, og að þeir sem tryðu þessu myndu öðlast eilíft líf, en þeir sem tryðu þessu ekki, myndu öðlast eilífa refsingu. (Ég taldi lengst af, að eilífa refsingin væru eilífar kvalir í helvíti, en beygði út af í þeim efnum eitthvað áður en ég hætti að trúa.) 

Ein al besta tilraunin sem ég fann til að gera kristindóminn sæmilega aðlaðandi, ósturlaðan og sanngjarnan, kom frá manni sem hét Aþanasíus. Hann lifði á 4. öld, og er mjög mikilvægur guðfræðingur í Réttrúnaðarkirkjunni (sbr. Gríska Réttrúnaðarkirkjan, Rússneska Réttrúnaðarkirkjan, o.s.frv.). Hann setti fagnaðarerindið fram með dæmisögu, sem var einhverveginn svona:

"Einu sinni var góður kóngur, sem átti mikið konungdæmi með mörgum borgum. Í fjarlægri borg nýttu þegnarnir sér það frelsi sem konungurinn hafði gefið þeim til að gera það sem var rangt. Eftir nokkurn tíma fóru þeir að hafa áhyggjur af því að konungurinn myndi refsa þeim. Smám saman byrjuðu þeir að hata konunginn. Þeir urðu sannfærðir um að þeir væru betur settir án konungsins, og lýstu yfir sjálfstæði borgarinnar.

Fljótlega var hver farinn að gera það sem honum sýndist. Hver höndin var uppi á móti annarri í borginni. Ofbeldi, hatur, lygar, morð, nauðganir, þrælahald, ótti. Konungurinn hugsaði með sér: "Hvað á ég til bragðs að taka? Ef ég ræðst inn í borgina með hervaldi, mun fólkið berjast gegn mér, og ég mun þurfa að drepa svo marga, og þeir sem munu ganga ríki mínu á hönd, munu einungis gera það sökum þeirrar ógnunar sem stafar af hervaldi mínu. Þegnarnir munu hata mig meir en áður. Hvað stoðar það fólkið, ef ég drep það, eða fangelsa það, eða geri það reitt við mig? En ef ég læt þau eiga sig, munu þau gera útaf hvert við annað. Það hryggir mig að hugsa til þeirra þjáninga sem fólkið er að valda hvort öðru.

Konungurinn ákvað að lokum að gera nokkuð óvænt. Hann fór úr sínum konunglega skrúða, og klæddi sig í tötra. Hann fór til borgarinnar, og settist þar að í auðu húsi, við hliðina á öskuhaug. Hann hóf rekstur. Hann fór að vinna við að gera við ónýt húsgögn og annað sem þurfti að laga. Góðvild og heiðarleiki konungsins var svo mikill að fólk hændist mjög að honum. Menn fóru að deila með konunginum áhyggjum sínum og öðru sem hvíldi á þeim, og biðja um ráðleggingar. Hann sagði þeim að uppreisnarmennirnir hefðu blekkt borgarbúa, og betra væri að lifa eftir boðum konungsins, líkt og hann sjálfur gerði. Smám saman vann hann marga borgarbúa á sitt band. Þeir höfðu svo áhrif á samborgara sína, þar til á endanum öll borgin sá eftir uppreisninni, og vildi snúa aftur undir verndarvæng konungsins. En borgarbúar skömmuðust sín, og þorðu ekki að fara til konungsins, þar sem þeir töldu að hann myndi örugglega refsa þeim. En konungurinn í dulargervinu sagði þeim þá góðu fréttirnar: Hann var sjálfur konungurinn, og elskaði þá. Hann héldi engu gegn þeim, og bauð þá velkomna aftur í konungsríki sitt."  (A Generous Orthodoxy. Brian D. McLaren. Bls 57-58).

(Meðal vandamála við þessa dæmisögu er það, að ýmislegt í henni er ekki sérlega Biblíulegt, þegar betur er að gáð. Sagan er snjöll, engu að síður.)


Englar stunda stundum óleyfilegt kynlíf

Ég var að lesa Júdasarbréf nýlega í nýju þýðingunni. Vers 7 er áhugavert, en þar segir: "Gleymið ekki heldur Sódómu og Gómorru og borgunum umhverfis þær sem drýgt höfðu saurlifnað, á líkan hátt og englarnir, og stunduðu óleyfilegt kynlíf."

Þetta minnti mig á gamalt rifrildi sem ég átti við Mofa, í kjölfarið á færslunni "Goðsögur Biblíunnar". Seinna skrifaði ég svo aðra færslu þar sem ég fór nánar í þetta, í tengslum við Enoks bók. Hún hét "Kymök við engla".


Eru guðspjöllin sagnaritun?

Í síðustu færslu fjallaði ég um hversu ólíkar, og að mínum dómi ósamrýmanlegar, frásögur Lúkasarguðspjalls, og Matteusarguðspjalls, eru um fæðingu Jesú. Ég vil bæta örfáum atriðum við, og eru heimildir mínar einkum Bible Anchor Dictionary.

Jafnvel þó að Jósefus hafi af mikilli nákvæmni fjallað um hrottaverk Heródesar á síðustu árum valdatíðar hans, og gert langan lista yfir hans grimmdar verk, er ekki stafur um það að hann hafi drepið öll sveinbörn í Betlehem og nágreni, tveggja ára og yngri (Matt 2:16). Ekki er heldur neitt að finna um þetta hjá öðrum sagnariturum. 

Ágústus keisari lét aldrei skrásetja alla heimsbyggðina, eins og segir í Lúkasi 2:1, né t.d. alla þegna Rómarríkis. Auk þess væri fáránlegt að senda Jósef til Betlehem til að láta skrásetja sig þar, á þeim forsendum að hann væri afkomandi Davíðs konungs í 42. ættliði aftur í tímann (samkvæmt ættartölu Lúkasarguðspjalls, allaveganna). Venjulega skrásettu stjórnvöld fólk til að taka af því skatta, á grundvelli þess að það ætti land, og ferðuðust þangað sem fólkið átti heima.

Matteus 2:1 segir að Jesús hafi fæðst þegar Heródes var konungur. Kýreníus var landstjóri í Sýrlandi þegar Jesús fæddist, samkvæmt Lúkasi 2:2. Heródes dó árið 4 fyrir okkar tímatal, en Kýreníus varð landstjóri í Sýrlandi árið 6 eftir okkar tímatal, tíu árum eftir að Heródes lést. Það er erfitt að láta það stærðfræðidæmi ganga upp.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sindri Guðjónsson

Höfundur

Sindri Guðjónsson
Sindri Guðjónsson

Ég heiti Sindri! Ég er trúlaus, og blogga hér aðallega um Biblíuna. (Ég er að vísu sem betur fer hættur þessu stússi)

 

Þú getur haft samband: sindri79(a)gmail.com

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...itvig
  • ...ysyvq
  • ...100_2438

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 2701

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband