Sá yðar sem syndlaus er...

Þessi færsla var upprunalega birt þann 12. janúar 2008: 

Ein al flottasta sagan í Nýja testamenntinu (og Biblíunni í heild), er saga sem birtist í Jóhannesi 7:53-8:11. Þar koma farísearnir og fræðimennirnir með konu til Jesú, sem staðin hafði verið að verki við það að drýgja hór. Þeir spyrja hvort það eigi að grýta hana, eins og lögmálið segi. Þetta er til að leiða Jesú í gildru. Jesús er hins vegar bæði snjall og djúpvitur, og kemst hjá því að þurfa annaðhvort að sýna af sér harðneskjulekt miskunarleysi, eða ella brjóta lögmál Móse. Hann svaraði: „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum." Fræðimennirnir og farísearnir sáu auðvitað í hendi sér að þeir væru ekki syndlausir, og hurfu því á brott einn af öðrum.

Þessi saga, eins og hún er nú góð, var hins vegar nánast alveg örugglega ekki upprunalega í Jóhannesarguðspjalli. Henni var bætt við það einhvertímann talsvert löngu eftir að guðspjallið var komið í almenna umferð. Ástæðurnar eru eftirfarandi:

  • - Þessi saga er aldrei í elstu og bestu handritum okkar af Jóhannesarguðspjalli.
  • - Sagan er skrifuð á ólíkri grísku, með ólíkum orðaforað, og ólíkum stíl, en annað í Jóhannesargupspjalli.

Þó að sagan sé ekki í neinum af elstu og bestu handritunum byrjar hún að birtast hér og þar eftir að tíminn leið (byrjar að koma inn á miðöldum), en ekki alltaf á sama stað. Stundum var hún t.d. sett á eftir versi 25 í 21. kafla Jóhannesarguðspjalls, og stundum fyrir aftan 38 versið í 21. kafla í Lúkasarguðspjalls.

Erasmus sá um að gefa út fyrsta prentaða eintakið af Nýja testamenntinu á grísku. Hann byggði að mestu á handriti sem hann fann í Basel, og var frá 12. öld. Erasmus virtist ekki hafa vitað að grísk handrit af bókum Nýja testamenntisins eru mjög misjöfn, og það þarf að bera þau vel saman til þess að vega og meta hvað í þeim eru viðbætur og breytingar, og hvað ekki. Aðeins þannig er hægt að komast nálægt því að vita hvað var upprunalega skrifað í bækur Nýja testamenntisins. Það eru til um 5700 grísk handrit af bókum Nýja testamenntisins, og það eru á milli 200.000 - 300.000 tilfelli þar sem þeim greinir á, þó að ágreiningurinn sé næstum alltaf smávægilegur eins og t.d. mismunandi orðaröð. Stundum er þó verulegur munur á innihaldi og merkingu í handritunum.

Handritið sem Erasmus byggði á innihélt ýmislegt sem fræðimenn í dag vita með talsverðri vissu að hafi ekki verið upprunalega í bókum Nýja testamenntisins.

Þegar King James Biblían var gefin út árið 1611, var byggt á gríska textanum hans Erasmus, sem þá hafði verið aðeins lítillega lagaður. Þannig komst meðal annars þessi saga af konunni sem staðin var að verki við að drýgja hór, og ýmis önnur vers sem ekki voru upprunalega í bókum Biblíunnar, inn í King James Biblíuna. King James Biblían hefur síðan haft mikil áhrif á aðrar Biblíu þýðingar.  Þó að söguna um konuna sem staðin var að verki við að drýgja hór vanti í elstu og bestu grísku handritin, þá var hún í 12. aldar handritinu hans Erasmus.  

Byggir á "Misquoting Jesus", eftir Bart D. Ehrman. sérstaklega bls 63-65, og kafla sem byrjar á bls. 78 í trúvarnarbókinni "Fabricating Jesus", eftir Craig A. Evans, bls 29-30.


Um "utanþings" ráðherra

Vitnað var í ummæli Baldurs Þórhallssonar, stjórnmálafræðings, á forsíðu Fréttablaðsins í dag, um skipun utanþings ráðherra í nýrri ríkisstjórn. Þar sagði hann þessar skipanir ekki lýðræðislegar, þar sem þessir nýju ráðherrar hefðu ekki verið kosnir til þings. Þessi ummæli hans vekja furðu mína.

Á Íslandi er þingræði. Við kjósum þingmenn, ekki stjórnir. Ríkisstjórnir sitja svo í umboði Alþingis, og eiga að svara þingmönnunum.

Þróunin hefur hins vegar verið sú, að leiðtogar þingsins, eru ríkisstjórnin (framkvæmdavaldið). Þingið verður þá eins og lítill ketlingur í höndunum á ríkisstjórninni, og sömu menn eru í raun æðstu handahafar framkvæmdavalds og löggjafarvalds samtímis. (og velja svo dómarana í ofanálagt)

Ég vil hafa utanþingsstjórnir.


Skák er erfið...

Þeir sem ekki æfa og keppa reglulega í skák eiga örugglega erfitt með að ímynda sér hversu erfiðar alvöru kappskákir í alvöru mótum, gegn vel æfðum andstæðingi, eru.

Ég er að keppa á Skákþingi Akureyrar, og þriðja umferð fór fram í gær. Skákin tók rúmlega þrjá og hálfan klukkutíma. Á þessum tíma þurfti ég að reikna hundruð leikjaraða langt fram í tímann, og velta hinu og þessu fyrir mér. Taugarnar voru gersamlega þandar á meðan. Hjartað barðist. Ég mátti alls ekki tapa fyrir aðila með 200 elóstigum minna en ég. Maður verður að vera gersamlega á tánum allan tímann. Einbeitingarskortur í eitt augnablik getur eyðilagt alla skákina. Ég man enn eftir skák á Íslandsmóti skákfélaga, þar sem ég hafði með mikilli elju byggt upp unna stöðu á þremur klukkutímum, þrátt fyrir að andstæðingurinn hafði ekki gert nein afgerandi mistök. Frábær taflmenska af minni hálfu. Eitt augnablik leyfði ég mér að leika eftir litla umhugsun. Leikurinn leit vel út á yfirborðinu, en í kjölfar hans gat andstæðingurinn gert glæsilegan leik, sem færði honum betri stöðu á silfur fati. Öll vinnan var farinn fyrir bý. Ég tapaði. Keyrði heim dapur. Sem betur fer hélt ég haus í gær.

Ég hef æft ýmsar íþróttir, t.d. fótbolta og körfubolta. Ég hætti í fótbolta í 2. flokki, en ég man vel hvernig manni leið eftir 90. mín. leik á stórum velli á Íslandsmóti. Maður varð þreyttur. En þreytan jafnaðist ekki á bensínleysið og þreytuna eftir erfiða kappskák.  Höfuðið er gersamlega soðið. Fremstu skákmenn heims, sem flestir eru talsvert yngri en ég, leggja yfirleitt mikla áherslu á líkamlega þol þjálfun. Það hjálpar höfðinu að höndla kappskákirnar. Þetta atriði hef ég vanrækt.

Þegar ég kom heim í gær var höfuðið algerlega útbrunnið. Petra sagði: "Sindri, farðu út í búð og kauptu kók og rauðkál". Mitt steikta höfuðið heyrði hins vegar þessi orð hér: "Sindri, farðu út í búð og kauptu kók og rautt kók". Ég fór út í búð og keypti Coca Cola Light, og venjulegt Coca Cola. Þegar ég kom heim bar Petra matinn á borðið og spurði: "Hvar er rauðkálið?". "Ha!? Átti ég að kaupa rauðkál?", svaraði ég.

Eftir matinn ákvað ég að fara og setja bensín á bílinn. Bensínljósið var búið að loga lengi. Ég keyrði niður í Olís, og lagði bílnum í bílastæði fyrir utan benstínstöðina, og gekk inn. Þegar inn var komið, áttaði minn hægi haus sig á því, að ég var hingað kominn til að taka bensín, en ekki til að kaupa pylsu, enda var ég ekkert svangur. Ég fer því aftur út, og tek minn litla, sparneyttna, fólksbíl, og legg honum við hliðina á bensíndælu 2. Þegar ég var búinn að dæla fyrir 2500 kall, þá nennti ég ekki að dæla meira. Ég fer inn til að borga, og segi við afgreiðslu stúlkuna. "Gott kvöld, ég var að taka bensín á dælu tvö". Afgreiðslu stúlkan svaraði: "Nei, þú varst að taka dísel".


Risi í járnrúmi - lítið sýnishorn úr skrítinni veröld.

Eftirfarandi færslu hef ég birt áður, þann 2. febrúar 2008. Ég ætlaði alltaf að uppfæra færsluna með nokkrum fyndnum dæmum í viðbót, þar sem af nógu er að taka. Ég áttaði mig hins vegar á því að færslan yrði ekkert skemmtilegri þó hún yrði lengri. Þetta er nóg. Ég lét nægja að bæta við einni setningu. Sá sem fyrstur bendir á hana í athugasemd, fær ókeypis möndlu.

---

Heimur Biblíunnar var skemmtilegur og stór undarlegur. Hér er örlítið sýnishorn:

- Guð verður þreyttur og hvílir sig á 7 degi sköpunarsögunnar. Seinna gengur hann um í kvöldsvalanum í aldingarðinum, og leitar að Adam og Evu.

- Höggormur talaði við Evu. (1. Mós 3)

- Guð bölvar höggorminum, og skipar honum að skríða um á maganum og borða mold framvegis.  

- Menn urðu allt að tæplega þúsund ára gamlir, og auðveldlega mörg hundruð ára. (1. Mós 5 t.d.)

- Synir Guðs tóku sér fagrar dætur mannanna, höfðu við þær samfarir og eignuðust börn. Börnin urðu risar og hetjur, sem bættust í hóp risa sem voru fyrir á jörðinni. (1. Mós 6)

- Flóð hylur alla jörðina og drepur alla menn og öll dýr, nema þau sem lifa af um borð í stórri tré örk. (1. Mós 7 og 8)

- Guð steig niður af himni til að skoða borg og turn sem mennirnir höfðu gert. Í framhaldinu ruglar Guð tungumálum mannanna og dreifir þeim um jörðina. (1. Mós 11)

- Kona Lots leit um öxl og breyttist í saltstólpa. (1. Mós 19:26)

- Með því að skafa af trjágreinum börkinn, og láta greinarnar svo í vatnsrennur sauðfés, er hægt að láta ær eignast rílótt, sprekklótt og flekkótt lömb. (1. Mós 30:37-19)

- Stafur breytist í eiturslöngu, og svo aftur í staf. (2. Mós 4) Seinna breytast margir stafir í eiturslöngur, en ein þeirra borðaði allar hinar, og breyttist svo aftur í staf. (2. Mós 7:8-13)

- Allar ár og öll vötn í Egyptalandi breyttust í blóð. (2. Mós 7)

- Hérar voru jórturdýr. (3. Mós 6:11)

- Menn færa Guði eldfórnir, sláturfórnir, og brennifórnir. Lyktin stígur upp til Guðs og honum finnst lyktin af fórnunum góð. (Víða í 3. Mós og 4. Mós) Sumstaðar er talað um að menn færi Guði mat. Hvað skyldi Guð þurfa margar hitaeiningar á dag? (3. Mós 21:16-24. " Hafi einhver niðja þinna, nú eða í komandi kynslóðum, lýti á sér, þá skal hann eigi ganga fram til þess að bera fram mat Guðs síns. ...  eigi skal hann koma fram til þess að bera fram mat Guðs síns.")

- Ef að karlmenn grunuðu konur sínar um að hafa haldið fram hjá sér, áttu þær að drekka drullumall af gólfinu, blandað vígðu vatni. Guð sá svo til þess að gera þær veikar, ef þær voru sekar. Ef þær voru hins vegar saklausar, varð þeim ekki meint af kokteilnum. Þannig var hægt að eyða óvissu eiginmannsins, og sekar konur fengu sanngjarna refsingu. (4. Mós 5:11-31)

- Jörðin opnaðist og gleypti ákveðið fólk sem var í uppreisn gegn Móse. Fólkið hrapaði lifandi niður til heljar, ásamt öllum sínum eignum og húsum. (4. Mós 16:31)

- Asni talaði við mann sem hét Bíleam og spyr afhverju Bíleam berji sig. Í stað þess að verða forviða af undrun yfir hinum talandi asna, svarar Bíleam spurningu asnans eins og ekkert óðeðlilegt hafi gerst og segir: „Þú gerir gys að mér. Hefði ég sverð í hendi mundi ég drepa þig“, og asninn svarar auðvitað fyrir sig: „Er ég ekki þín asna sem þú hefur riðið alla ævi þar til nú? Hef ég haft það fyrir vana að fara þannig með þig?“ (4.Mós 22:28-30)

- Konungur nokkur að nafni Óg var risastór, enda kominn af risum. Rúm hans var úr járni, 4,5 metrar að lengd, og tveir metrar að breidd. (5. Mós 3:11)

- Guð kastar sjálfur stórum steinum af himni ofan niður á óvini Hebreanna (Jós 10:11. Þetta sést því miður ekki mjög vel í 1981 þýðingunni, en er skýrt í hebreska textanum, nýju þýðingunni, og þeim erlendu þýðingum sem ég hef skoðað.)

- Sólin stöðvaðist á ferð sinni yfir himininn, og stóð kyrr fyrir ofan stað sem hét Gíbeon, til þess að Hebrear fengju næga birtu til að slátra óvinum sínum. (Jós 10:13 – skemmtilegt er að hafa pistilinn minn „Ó þú flata jörð“ í huga varðandi þessar sögur í 10 kafla Jósúabókar.)

- Drottinn var með Júdamönnum og hjálpaði þeim að berjast til sigurs gegn óvinum sínum. Það dugði þó ekki til gegn íbúum sléttlendisins, þar sem þeir áttu járnvagna. (Dóm 1:19)

- „Jael, kona Hebers, þreif tjaldhæl og tók hamar í hönd sér og gekk hljóðlega inn til Sísera sem fallinn var í fastasvefn því að hann var þreyttur. Hún rak hælinn gegnum gagnauga hans svo að hann gekk í jörð niður. Varð þetta hans bani.“ (Dóm 4:17) Eitthvað þekkir maður þennann stíl úr Íslendingasögunum.

- Maður drap þúsund manns með einn asnakjálka (bein) að vopni. (Dóm 15:15-17)

- Guð berst við eldspúandi sæskrímsli (Job 41)

- Maður er gleyptur af stórum fiski, og er í maga hans í þrjá daga og þrjár nætur, en lifir það af, og kemur sprelllifandi og hress úr maganum. (Jónas 2)

- Axarhöfuð flaut á vatni. (1. Kon 6)

- Salómon átti 700 eiginkonur (allar konungbornar), og 300 hjákonur. Ef að konurnar hans Salómons hefðu komið í þáttinn hans Dr. Phil, hefði Phil spurt: „Can y‘all get him to do anything?“ (1. Kon 11:3)

- Golíat var fjórir metrar að hæð, og hefði smell passað í rúm Ógs frænda síns. (1. Sam 17:4)

- Maður að nafni Absolon var myndarlegasti maður í Ísrael, og lét reglulega raka af sér hárið. Ekki veitti af, því það gat vegið allt að 2,5 kíló og verið honum til trafala. (2. Sam 14:25-26)

- Maðurinn Gat var risastór, og af risa ættum. Hann hafði 12 fingur og tólf tær. (2. Sam 21:20) Bróðir minn fæddist með 11 fingur, þannig að ef ég væri ekki fremur lágvaxinn, myndi ég ætla að ég væri eitthvað skyldur þessum Gat   Smile 

- Guð, eða Djöfullinn, fær Davíð til að taka manntal. Guð drepur svo 70.000 gyðinga í refsingarskyni fyrir manntalið, þar sem það var synd að telja fólk. Einhverjir myndu halda að Guð hafi með þessu brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna. (2. Sam 24. 1. Kron 21)

- Guð berst við sæskrímsli sem heitir Levjatan. (Sálmur 74:13-14)

- Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna. (Sálmur 82:1) 

- Guð blístrar á flugur, og rakar bæði höfuðhár, skaphár og skegg, með leigðum rakhníf. (Jes 7:18,20) - (Þetta er eitthvað táknmál hjá Jesaja spámanni)

- Sólin bakkaði afturábak á ferð sinni yfir himininn. (Jes 38:8)

- Guð banar skrímsli og dreka. (Jesaja 51:9)

- Þegar Guð úthellti sinni brennandi reiði yfir Síon suðu konur sín eigin börn sér til matar. (Harm 4:10-11)

- Guð gaf lýðnum óholl boðorð og lög sem leiddu til ólífis og lét fólk brenna frumburði sína í eldi. Þetta gerði hann til þess að fólki mætti ofbjóða og gera sér grein fyrir því að Guð sé Drottinn. (Es 20:25-26)

- Dalbotn nokkur var þakinn dauðra manna beinum, sem Guð þakti holdi og reisti upp frá dauðum og úr varð geysifjölmennur her. (Es 37:1-10)

- Guð fer í vont skap og segir prestunum að ef þeir hlýði ekki, muni hann strá saur framan í þá, og höggva af þeim höndina. (Mal 2:3) Þetta er kannski ekki svo skrítið. Það er vel þekkt að prestar eru oft til vandræða.

- Stjarna á himnum getur vísað mönnum veginn að ákveðnu þorpi, og leitt menn að ákveðnu húsi. (Jólaguðspajllið)

- Fjöldi löngu dáinna manna reis upp frá dauðum í Jerúsalem, og örkuðu um götur bæjarins og birtust mörgum. Þeim Markúsi, Lúkasi og Jóhannesi fannst þessi sérstaki atburður ekki í frásögur færandi.  (Matt 27:50-53) 

Já, veröldin nú orðið er eitthvað hálf lítilfjörleg, grá og hversdagsleg, samanborið við heim Biblíunnar. Wink 

 


Vantrú hinna kristnu

Það hefur oft gerst hér á blogginu, að kristnir lesendur láti í ljós vantrú sína á trúleysi mínu. Þeir virðast ekki getað trúað því að ég trúi ekki lengur á Guð. Hér eru dæmi, en ég gæti fundið fleiri.

Ef þetta er dæmigerður Biblíu skilningur hjá þér, sem hefir stúderað hana í fjölda ára, þá er ég ekki hissa á því að þú þykist vera trúklaus. (leturbreyting mín)

Högni V.G. (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 14:23

---

Hættu svo að segja að þú trúir ekki á Jesú!!

Aðalbjörn Leifsson, 23.1.2009 kl. 12:27

---

Sæll Sindri.

Það sorglegt að sjá hvað þú hefur farið mis við kristna trú. Það er þó bót í máli að þú skulir þó lesa í Biblíunni. Ég trúi því ekki að þú sért trúlaus...

Stefán Ingi Guðjónsson, 19.8.2008 kl. 23:23

 Já, lítil er trú ykkar!

Grin

 


Úr tímaglósum í erfðarétti...

Hvað gerist við andlát?

-Persónuleg réttindi falla niður, t.d. ökuréttindi


Gengur þér illa að finna maka?

Gengur þér illa að finna maka? Þá er Biblían með svarið fyrir þig. Nauðgun! 5. Mós 22:28-29:

"Ef maður hittir óspjallaða stúlku sem ekki er föstnuð, tekur hana með valdi og leggst með henni (möo nauðgar henni) og komið er að þeim skal maðurinn, sem lagðist með stúlkunni, greiða föður hennar fimmtíu sikla silfurs. Hún skal verða eiginkona hans sakir þess að hann spjallaði hana og honum skal ekki heimilt að skilja við hana alla ævi sína."

(Þetta virkar víst ekki í vestrænum réttarríkjum, en í guðræðisríki Jahve giltu ekki lög manna, heldur lög sem komu beint frá Guði)

Ég vil einnig benda giftum og trúlofuðum konum á það, að verði ykkur nauðgað, ber ykkur siðferðisleg skylda til að kalla á hjálp, því annars á samkvæmt lögmálinu sem Guð gaf Móse, að grýta ykkur til dauða. 5. Mós 22:23-24

 


Vitræn hönnun

Tekið úr Guardian 

"Sir David Attenborough has revealed that he receives hate mail from viewers for failing to credit God in his documentaries. In an interview with this week's Radio Times about his latest documentary, on Charles Darwin and natural selection, the broadcaster said: "They tell me to burn in hell and good riddance."

Telling the magazine that he was asked why he did not give "credit" to God, Attenborough added: "They always mean beautiful things like hummingbirds. I always reply by saying that I think of a little child in east Africa with a worm burrowing through his eyeball. The worm cannot live in any other way, except by burrowing through eyeballs. I find that hard to reconcile with the notion of a divine and benevolent creator.""

http://www.guardian.co.uk/world/2009/jan/27/david-attenborough-science

Attenborough er hér að tala um orma tegund, sem getur ekki lifað öðruvísi, en með því að éta sig eða bora sig hægt og rólega í gegnum augu, sem veldur auðvitað dásamlegum þjáningum hjá eigendum augnanna, sem ormurinn býr í. Lífverurnar eru undursamlega hannaðar! Errm


Guðs réttlæti

32Þegar Ísraelsmenn voru í eyðimörkinni stóðu þeir einhverju sinni mann að því að safna viði á hvíldardegi. 33Þeir sem stóðu hann að verki leiddu hann fyrir Móse, Aron og allan söfnuðinn. 34Þeir settu hann í varðhald því að enn hafði ekki verið ákveðið hvað gera skyldi við hann.
35Þá sagði Drottinn við Móse:
„Þennan mann verður að lífláta, allur söfnuðurinn skal grýta hann utan við herbúðirnar.“ 36Allur söfnuðurinn fór þá með hann út fyrir herbúðirnar og grýtti hann til bana eins og Drottinn hafði boðið Móse.

4. Mósebók 15:32-36

Ég bið fólk um að horfa á þetta jútjúb myndband:

http://www.youtube.com/watch?v=v3JL3uMUd74&feature=related

Ég klökknaði þegar ég sá síðustu myndirnar frá mín 2:46 og áfram, og mér líður enn illa.

Siðferðisáherslur "Guðs" í lögmálinu, eru fáránlegar. Ég skora á einhvern að reyna að finna ákvæði í lögmálinu, sem er sérstaklega hannað til að vernda börn gegn kynferðislegri misnotkun. Eða ákvæði þar sem ofbeldi gegn börnum er sérstaklega fordæmt. Ég meina, það eru þarna auðvitað bráðnauðsynleg ákvæði á borð við þau að ekki megi krúnuraka sig (3. Mós19:27), að ekki megi skaða ávaxtatré með öxi meðan setið er um borgir (5. Mós 21:19), að æðstiprestur megi ekki saurga sig með því að dvelja undir sama þaki og lík (3. Mós 21:11), ekki megi sjóða kiðling í mjólk móður sinnar (2. Mós 23:19), ekki skuli refsa þrælahaldara þó að hann lemji þræla sína (2. Mós 21:20-21), að dauðasök sé að hafa samfarir við konu sem er á blæðingum (3. Mós 20:18), og þegar þú kaupir börn sem þræla, fyrir alla muni, láttu það vera útlensk börn, en ekki ísraelsk (3. Mós 25:45-46), þetta er aðeins brota brot af þeim fjölmörgu fjölbreyttu boðum sem var örugglega alveg lífsnauðsynlegt að Ísraelar héldu í heiðri.

Guð sá sér fært að eyða plássi til að segja að börn mættu alls ekki veitast að foreldrum sínum, og að grýta ætti óþekka og þrjóska stráka til dauða, ef þeir hlýddu ekki mömmu og pabba þrátt fyrir að reynt hafi verið að berja þá til hlýðni (5. Mós 21:18-21), og að drepa ætti alla sem bölva föður sínum eða móður sinni (3. Mós 20:9). Hér er verið að tala um að grýta, lemja og drepa börn.

Bendi svo á færslunarnar "En þetta er bara Gamla testamenntið" og "Nytsöm til fræðslu"


Hið ósýnilega

"The invisible and the nonexistent look very much alike." - [Delos McKown]

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sindri Guðjónsson

Höfundur

Sindri Guðjónsson
Sindri Guðjónsson

Ég heiti Sindri! Ég er trúlaus, og blogga hér aðallega um Biblíuna. (Ég er að vísu sem betur fer hættur þessu stússi)

 

Þú getur haft samband: sindri79(a)gmail.com

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...itvig
  • ...ysyvq
  • ...100_2438

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 2701

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband