Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Jóni Vali Jenssyni svarað

Þetta er svar við athugasemdum Jóns Vals, vegna færslunnar hér beint fyrir neðan. Þar sem ég er búinn að vera í veseni með að setja inn langar athugasemdir (t.d. vegna þess að ég hef loggast út, áður en ég ýti á "senda" o.fl.) ákvað ég að svara Jóni Vali með því að búa til "nýja færslu".

Jón, ég var í heimsókn hjá foreldrum mínum fyrir sunnan, og fór í býsna margar heimsóknir, og jólaboð, og var auk þess að spila langt fram á nótt, sinnti dætrum mínum þremur, og fleira, þannig að ég hafði hugsað mér að svara þér betur eftir að ég kæmi heim. Sumu af því sem þú skrifaðir hef ég þó svarað (undir tímapressu), og ætla því ekki að svara þeim atriðum aftur hér.

Jón Valur skrifaði: Þetta er afar selektíft hjá þér, sleppt sem mestu jákvæðu úr Biblíunni um réttindi kvenna og virðingu fyrir þeim.

Já, ég veit. Ég er að benda á sum þeirra atriða sem mér finnst neikvæð í garð kvenna. (atriðin eru miklu fleiri). Engin slík atriði ættu að vera í óskeikulu innblásnu orði Guðs. Biblían ætti einungis að vera jákvæð í garð réttinda kvenna, og ávallt bera virðingu fyrir jöfnum rétti þeirra, en ekki stundum og stundum ekki, ef taka ætti hana jafn alvarlega sem innblásinn leiðarvísi frá Guði, eins og t.d. Hvítasunnumenn og sumir Kaþólikkar og fleira trúaðir menn gera.

Mér finnst það skína í gegn hjá Páli, að hann líti á karlmenn sem æðri og betri en konur. Konur eru veikgeðja. Það var konan sem lét tælast, en ekki maðurinn, en konan verður þó hólpin vegna barnburðarins, ef hún uppfyllir vissar kröfur. 1. Tím 2:11-15. Þetta viðhorf erfir Páll kannski að einhverju leyti úr sköpunarsögunni. Ég get hins vegar ekki betur séð, en að bæði karlinn og konan hafi látið tælast, lesi ég hana. Einnig sést þetta viðhorf hjá Páli, þegar hann segir að karlmaðurinn sé ímynd og vegsemd Guðs, en konan sé einungis vegsemd mannsins. Þess vegna þurfi konur að hylja höfuð sitt, en ekki karlmenn. Enda er karlinn ekki kominn af konunni, heldur konan af manninum, og konurnar voru skapaðar fyrir manninn, en ekki öfugt. Maðurinn er auk þess höfuð konunnar, en Kristur er höfuð sérhvers manns. (allt úr 1. Kor 11). Konum er sérstaklega sagt að þær þurfi að læra í kyrrþey og undirgefni, en ekki körlum. Konum er sérstaklega sagt að það sé ósæmilegt að þær tali á safnaðarsamkomum, en körlum er ekki bent á það sama. Það er ósæmilegt fyrir konu að tala á safnaðarasamkomum. (1. Tím 2:11-15). Eðlilegra hefði verið að segja að það sé ósæmilegt að skvaldra og grípa frammí á samkomum, séu þau vandamál fyrir hendi sem þú telur að hafi verið til staðar.

Jón Valur skrifaði: Þar að auki er fráleitt að setja fram hlutina eins og Sindri gerði það – þar sem einna mest áberandi verður, að konurnar skuli vera mönnum sínum undirgefnar – án þess að vekja athygli á því um leið, að þetta á við um bæði kynin,

Hvers vegna þarf Páll að segja konum sjö sinnum að vera undirgefnar, bara í tilvitnuðum versum í færslunni minni, en körlum bara sagt það einu sinni (í mesta lagi), og þá aðeins með þeim hætti að þeir eigi að vera hverjir öðrum undirgefnir? (ekkert sérstak vers í þeim dúr að karlar eigi að vera konum sínum undirgefnir") (Eftir að hafa skoðað 5 kaflann í Efesus, get ég ekki betur séð en að Páll sé einfaldlega að ávarpa kirkjuna sjálfa í 5:21, en ekki endilega karla sem giftir eru konum. Fyrst segir hann kirkjunni að vakna upp frá dauðum, og þá mun kristur lýsa henni, síðan segir hann hafið gát á því hvernig þið breytið, svo segir hann verið ekki óskynsamir, síðan drekkið yður ekki drukna, ávarpið hver annan með sálmum og löfsöng, og loks segir hann verið hverjir öðrum undirgefnir, síðan áréttar hann sérstaklega að eiginkonur eigi að vera eiginmönnum sínum undirgefnar, eins og þeir væru sjálfur Drottinn, því maðurinn er höfuð konunnar, eins og kristur er höfuð kirkjunnar)

Konunni er sérstaklega sagt að hún megi ekki taka sér vald yfir manninum, en ekki öfugt (1. Tím 2:12). Hér er ekki jöfn undirgefni fyrir bæði kynin. Áhersla Páls er a.m.k. afgerandi á undirgefni konunnar, og það þótt Ef 5:21 fjalli um það að hjón eigi að vera undirgefin hvort öðru (ljóst er þó, að sé svo raunin, að þá er Páll kominn í andstöðu við sjálfan sig, því að karlinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, og Kristur á varla að vera kirkjunni undirgefinn, er það?). Auk þess er konum séstaklega sagt að vera undirgefnar mönnum sínum, eins og það væri Drottinn, en karlar fá aldrei slíka hvatningu, auk þess sem konum er sérstaklega sagt að vera undanlátssamara mönnum sínum í öllu. Körlum er aldrei sagt það sama. (Ef 5:22-25)

Eins og kemur fram í 1. Tím 3:2; 8 og Títus 1:6, er aðeins gert ráð fyrir að biskupar, öldungar og djáknar séu karlar. Hvers vegna er konum ekki treystandi fyrir þessum embættum, sökum þess að þær hafi sitt guði gefna kyn? 

Jón Valur skrifaði: Svo gengurðu út frá einu princípi í umræðu um karl og konur, þ.e. að þau séu algerlega jöfn að öllu leyti. Hvaðan kom þér sú opinberun? Biblían talar hins vegar um, að þau séu bæði jöfn ... og ekki jöfn

Ég hef aldrei fengið neina sérstaka opinberun, hvorki um það að karlar og konur séu jöfn, eða ójöfn. Hins vegar finnst mér bersýnilega augljóst að allir einstaklingar eigi að fá sama rétt og sömu tækifæri, meðal annars til að vera leiðtogar og bera ábyrgð, og njóta sömu viðringar og sömu jöfnu stöðu, óháð kynferði. Hvers vegna ætti karl að vera höfuð heimilisins, frekar en að leyfa hjónum að vera "höfuð heimilisins" saman? Hvað ef t.d. konan er miklu greindari en karlinn sem hún er gift, og skynsamari? Petra sér t.d. um fjármál heimilisins, og ég veit yfirleitt ekki hvað við eigum mikið af peningum, eða nákvæmlega hvernig skuldirnar standa. Hún er miklu ábyrgari og duglegri en ég, á sumum sviðum.

Mér finnst alveg hróplega augljóst að líta beri á karla og konur sem jafningja, með jafna stöðu. Páll (eða höfundar/ur bréfana sem sögð eru vera eftir Pál) vill hins vegar ekki að svo sé. Það finnst mér augljóst sbr ástæður sem ég hef áður nefnt hér.(ef þau eru jafningjar, hví er þá maðurinn höfuð konunnar, sem hann væri Drottinn, hún á að læra í kyrrþey, henni er margsagt að vera undirgefin,  jafnvel í öllu, hún má ekki gegna vissum stöðum, má ekki taka sér vald yfir manni sínum, eða kenna honum, en körlum er aldrei sagt neitt slíkt. Það að karlar eigi að elska og passa upp á konur sínar, eins og kristur elskaði krikjuna, er bara enn eitt dæmið um það að karlar eru konum fremri í augum Páls. Engu að  síður er þetta góð hvatning til karla, klárlega. Hún mætti líka vera gagnkvæm, og snúa að konum sömuleiðis.

Jón Valur skrifaði: Já, hver er heildarmyndin? Er það konunni og fjölskyldunum betra, að róið sé öllum árum undir, að konan verði svo sjálfstæð, einþykk og óstýrilát, að hún rífi sig lausa úr hjónabandinu við minni háttar erfiðleika lífsins – eða t.d. af því að hún verði "leið á karlinum" – og taki BÖRNIN með?

Er það fjölskyldunni betra að róði sé öllum árum að því að karlinn verði sjálfstæður, einþykkur og óstýrilátur, og skylji konur sínar eftir? Ég skil ekki alveg hvernig upphaf þessarar málsgreinar ver orð Páls sem ég vísa til, eða réttlætir ójafnstöðu kynjanna. Ég lærði annars Rómarrétt í Háskólanum á Akureyri, hjá þekktum Rómarréttarsérfræðingi, Francesco Milazzo. Það var þannig í Rómarrétti að fjölskyldufaðirinn, Pater Familias, átti bókstaflega börnin og mátti til dæmis taka þau af lífi, sér að refsilausu, þar til þau urðu 12 ára. Það var því engin ástæða fyrir Pál að hafa áhyggjur af óstýrilátum konum, sem tækju börnin á brott frá körlum sínum. Þvert á móti hið gagnstæða. Það voru engin sésrtök rök fyrir undirgefni kvenna á tímum Páls, að hætta væri á því að konur færu burtu með börnin. 

Jón Valur skrifaði: Og er það þín óskahugmynd, að þetta sjálfræði konunnar skuli vera þvílíkt (í upphafi vegna herskárra frekjukerlinga, sem kölluðu sig Rauðsokkur, en síðan vegna undansláttar og svika meirihluta alþingismanna við siðferðið og líf hinna ófæddu) að hér á landi sé það eðlilegt á einum aldarþriðjungi að slátra miskunnarlaust um 25.000 ófæddum börnum?

Samkvæmt könnun sem ég hef séð, eru karlar mun fremur fylgjandi fósturvígum, en konur. Ég vísaði m.a. til þessarar könnunar í "frægri"grein sem ég skrifaði um fóstureyðingar. Það væri því allt eins líklegt, að aukin undirgefni kvenna við eiginmenn sína, yrði þess valdandi, að fósturvíg yrðu fleiri en nú er, frekar en hitt. Ég skil því ekki hvernig þetta kemur umræðunni við, nema frekar til að styðja mál mitt.

Jón Valur skrifaði: "Ólíkt sumum" – hverjum?! Ég veit ekki betur en ég hafi varið þessum dögum með fjölskyldu minni.

Þessum orðum var beint til þín. Ástæðan er sú, að þú varst búinn að skrifa tæp 2000 orð í athugasemdirnar hjá mér, og taldir mig hafa gefist upp á rökræðunum, af því að ég hafði ekki svarað þessu öllu. Ég hafði ómögulega tíma til að svara þessu öllu á gamlárs og nýársdag, enda með fjölskyldunni, eins og ég lýsti hér fyrir ofan. Jafnvel þetta ofur langa svar mitt, sem ég skrifaði nú í "fríi" með lausan tíma, tók mig langan tíma, en er þó ekki nema um 1600 orð, og eru þá tilvitnanir í þig taldar með. Petra þurfti að reka oft á eftir mér, meðan þetta var skrifað. Þetta var ekki illa meint, átti að vera góðlátlegt skot.


Nýjatestamenntið um konur

Eftirfarandi færsla er að miklu leyti beinar tilvitnanir úr Nýja testamenntinu um konur. Ef þér finnst ekki gaman að lesa þessa færslu, þá hefur þú ekki mikið álit á Guði sem rithöfundi, en bækur Bibliunnar eru af sumum taldar vera amk óbeint höfundarverk Guðs. Það litla sem frá mér er komið er sett innan sviga.

En ég vil, að þér vitið, að Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists. 1. Kor 11:3

7Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt, því að hann er ímynd og vegsemd Guðs, en konan er vegsemd mannsins. (Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt. Konur þurfa að hylja höfuð sitt, eins og kemur fram í versunum á undan, því að þær eru ekki ímynd og vegsemd Guðs heldur bara mannsins– Sindri),  8Því ekki er maðurinn af konunni kominn, heldur konan af manninum, 9og ekki var heldur maðurinn skapaður vegna konunnar, heldur konan vegna mannsins. (Konur þið voruð skapaðar fyrir okkur mennina) 1. Kor 11:7-9

Eins og í öllum söfnuðum hinna heilögu 34skulu konur þegja á safnaðarsamkomunum, því að ekki er þeim leyft að tala, heldur skulu þær vera undirgefnar, eins og líka lögmálið segir. 35En ef þær vilja fræðast um eitthvað, þá skulu þær spyrja eiginmenn sína heima. (Konur, ef þið viljið fræðast skulið þið spyrja manninn ykkar heima hjá ykkur, ekki í kirkjunni) Því að það er ósæmilegt fyrir konu að tala á safnaðarsamkomu. 1. Kor 14:33-35

21Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists: 22Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn. 23Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns. 24En eins og kirkjan er undirgefin Kristi, þannig séu og konurnar mönnum sínum undirgefnar í öllu. Efesus 5:21-24

11Konan á að læra í kyrrþey, í allri undirgefni. 12Ekki leyfi ég konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrrlát. 13Því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva. 14Adam lét ekki tælast, heldur lét konan tælast og gjörðist brotleg. 15En hún mun hólpin verða, sakir barnburðarins (Hjúket! Af því að konan er nauðsynleg til að búa til börn, þá getur hún orðið hólpin! – Sindri), ef hún stendur stöðug í trú, kærleika og helgun, samfara hóglæti. 1. Tím 2:11-15

2Biskup á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, bindindissamur, hóglátur, háttprúður, gestrisinn, góður fræðari. 1. Tím 3:2 (Bara karlar geta orðið Biskupar, rétt eins og bara karlar máttu vera prestar undir gamla sáttmálanum. Sama á við um öldunga (Títus 1:6) og djákna (1. Tím 3:8) - Sindri).

3Svo eiga og aldraðar konur að vera í háttalagi sínu eins og heilögum sæmir. Þær skulu ekki vera rógberar og ekki heldur í ánauð ofdrykkjunnar, heldur kenni þær gott frá sér, 4til þess að þær laði hinar ungu til að elska menn sína og börn, 5vera hóglátar, skírlífar, heimilisræknar, góðlátar og eiginmönnum sínum undirgefnar, til þess að orði Guðs verði ekki lastmælt. (Konur eiga að vera undirgefnar elskandi þjónar heimilisins - Sindri) Títus 2:3-5

Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna, þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun. 1. Pet 3:1-2. (Trúaðar eiginkonur eiga að vera undirgefnar vantrúuðum eiginmönnum sínum)

7Og þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina (Vá! Fá konur að erfa náðina með okkur mönnunum? En hvað þær eru heppnar að fá að vera með) og lífið. 1. Pét 3:7

Ég gæti hugsanlega fundið til fleiri svona vers... ég læt þetta duga. Ég bið bara lesandann að spyrja sig: „er þetta virkilega svo sniðugt að það hljóti að vera innblásið af guði?“

Hvað ætli að það sé annars langt þangað til að þýðingarnefnd Þjóðkirkjunnar "lagi" þessi vers?


Ég er frelsaður

When I became convinced that the universe is natural–that all the ghosts and gods are myths, there entered into my brain, into my soul, into every drop of my blood, the sense, the feeling, the joy of freedom.

The walls of my prison crumbled and fell, the dungeon was flooded with light and all the bolts and bars and manacles became dust. I was no longer a servant, a serf or a slave. There was for me no master in all the world–not even infinite space.

I was free–free to think, to express my thoughts–free to live my own ideal–free to live for myself and those I loved–free to use all my faculties, all my senses, free to spread imagination’s wings–free to investigate, to guess and dream and hope–free to judge and determine for myself–free to reject all ignorant and cruel creeds, all the “inspired” books that savages have produced, and all the barbarous legends of the past–free from popes and priests, free from all the “called” and “set apart”–free from sanctified mistakes and “holy” lies–free from the winged monsters of the night–free from devils, ghosts and gods.

Robert G Ingersoll


Hættið nú að argast og sýna stjórnvöldunum mótstöðu.

Hættið nú að argast og sýna stjórnvöldunum mótstöðu. Slíkt er bara alls ekki kristilegt: 

Róm 13:1-2: Hver maður hlýði þeim yfirvöldum sem eru yfir hann sett. Því engin væru yfirvöld ef Guð gæfi þau ekki. Þau sem eru til hefur Guð skipað. Sá sem veitir yfirvöldum mótstöðu veitir skipan Guðs mótstöðu og hlýtur að fá sinn dóm.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipum Guð sem dómara við Hæstarétt.

Guð hefur reynslu af dómstörfum á jörðu niðri. Hann var býsna skeleggur og afgerandi dómari á sínum tíma, annað en þessar gufur sem sitja í Hæstarétti núna. Þörfin til að þyngja refsingar hefur verið í umræðunni. Menn fá allt of væga dóma á Íslandi. Guð hefur sýnt það í verki, að hann dæmir menn af hörku. Hann er sá rétti í starfið, eins og dæmin sanna:

3. Mósebók 24:10-14

Ákæruvaldið gegn syni Selómít Díbrísdóttur

10Sonur ísraelskrar konu gekk út meðal Ísraelsmanna, en faðir hans var egypskur. Lenti þá sonur ísraelsku konunnar í deilu við ísraelskan mann í herbúðunum. 11Og sonur ísraelsku konunnar lastmælti nafninu og formælti. Þeir leiddu hann fyrir Móse. En móðir hans hét Selómít Díbrísdóttir, af ættkvísl Dans. 12Og þeir settu hann í varðhald, til þess að þeim kæmi úrskurður fyrir munn Drottins.  13Og Drottinn talaði við Móse og sagði: 14"Leið þú lastmælandann út fyrir herbúðirnar, og allir þeir, er heyrt hafa, skulu leggja hendur sínar á höfuð honum, og því næst skal allur söfnuðurinn grýta hann.


Orð dagsins: litlir drengir

Í 2 kafla Síðari konungabókar má lesa um það þegar Elía spámaður Drottins var hrifinn upp til himins. Eld vagn og eldhestar skyldu Elía frá lærisveini sínu, Elísa, og Elía fór upp í stormviðri. Elísa leysti Elía síðan af hólmi, og varð spámaður Drottins. Andi Elía var yfir Elísa, í tvöföldum skammti. Elísa spámaður Drottins hóf ferilinn glæsilega. Fyrst gerði hann mengað vatn heilnæmt í nafni Drottins, með því að kasta í það salti, og síðan fór hann til Betel, þaðan til Karmelsfjalls, og síðan aftur til Samaríu. Um það segir í versum 23-25

Þaðan fór hann upp til Betel. Þegar hann var á leið upp eftir komu smástrákar út úr borginni, gerðu gys að honum og kölluðu til hans: „Komdu upp eftir, skalli! Komdu upp eftir, skalli!“ Hann sneri sér við, leit á þá og formælti þeim í nafni Drottins. Þá komu tvær birnur út úr skóginum og rifu sundur fjörutíu og tvo af drengjunum. Þaðan fór hann til Karmelfjalls og síðan aftur til Samaríu.

Orðin sem þýdd eru sem "smástrákar" eru tvö "na'arím ketaním". Þau eru þýdd sem "little children" í hebresku JPS þýðingunni. Orðin eru þýdd ýmist sem "small boys", "little boys", "little children", "little kids", "young lads", "boys" o.s.frv. í enskum þýðingum, nema hvað að New King James þýðingin notar orðið "youths", sem er að mínum dómi hæpið.

"Na'ar" þýðir drengur, og "katón" þýðir lítill. "Na'arím ketaním" eru fleirtölumyndir þessara orða. Litlir drengir. Við lesum um það í þessum versum að spámaður Drottins bölvar littlum drengjum (eða litlum börnum, því að orðið na'arím yrði líka notað um kynjablandaðan barnahóp). Eftir að spámaðurinn hefur bölvað litlu börnunum í nafni Drottins, fyrir það að stríða spámanninum fyrir það að vera sköllóttur, sendir Drottinn kvenkyns bjarndýr sem rifu 42 af börnunum í sundur. Ég er viss um að ef við myndum sjá þessa sögu á myndbandi, þar sem 42 lítil börn væru bókstaflega rifin í sundur af bjarndýrum, myndum við fara að há gráta. (Mér fannst til dæmis virkilega erfitt að sjá á myndbandi árás þriggja ungmenna sem réðust á einn í Njarðvík. Sú árás, eins ljót og alvarleg hún var, er einungis barnaleikur við hliðina á þessari árás). En í frásögninni eru engin merki um að Elísa hafi kyppt sér upp við þetta. Drottinn sendi birni til að rífa börnin í sundur. Höfundur Síðari konungabókar skeytir ekkert meira um þetta og frásögnin af Elísa heldur áfram eins og ekkert hafi gerst. "Þaðan fór hann til Karmelsfjalls og síðan aftur til Samaríu." Foreldrar barnanna ættu aldrei að fyrirgefa Guði þetta. Þetta er ófyrirgefanlegt. Þetta er ógeðslegt. Þetta svívirðilegt. Allir kristnir menn myndu fordæma þessa sögu afdráttarlaust ef að spámaðurinn hefði verið Múhammeð en ekki Elísa. Sem betur fer er þetta skáldsaga. Enginn Guð sendi birni til að rífa í sundur börn.

 


En þetta er "bara" Gamla testamenntið?

Ég las um daginn bloggfærslu um grimmd Gamla testamenntisins. Kristinn maður, sem kallaði sig Jón Bóndi, gerði athugasemd við þessa bloggfærslu og sagði m.a.:

"Sjálfur er ég hættur að taka mikið mark á Gamla testamenntinu (GT), einmitt vegna þess sem þú nefnir og síðan að þetta eru trúarrit gyðinga."

Í athugasemdum á blogginu andmenning.blog.is skrifaði hinn frelsaði Arnar Geir eftirfarandi, í kjölfar þess að Pétur nokkur hafði talið upp einkennilega hluti úr Gamla testamenntinu:

"Pétur, gamla testamenntið er ekki til kristinna manna. Það er spáð fyrir um krist í gamla testamenntinu, en það er fyrst og fremst bók gyðinga."

"Einhver" skrifaði athugasemd við bloggfærslu á blogginu mínu, þar sem ég var að fjalla um eitthvað sem hann kunni ekki að meta úr Gamla testamenntinu. Hann sagði:

"Guð gaf okkur nýtt testament. Það gamla er úr sögunni, svo gleymum því og förum eftir hinu testamennti þar sem Jesús kemur til sögunnar með Guðs náð og miskunn. Er ekki að mestu hér verið að tala um Gamla testamenntið?"

Athugasemdir í þessum dúr má finna víða. Þær lýsa að mínum dómi afar "ókristilegu" viðhorfi til Gamla testamenntisins. Ef til vill ætti ég að segja "hentistefnulegu" viðhorfi. Þetta fólk er fljótt að hafna Gamla testamenntinu, þegar það finnur eitthvað þar sem þeim líkar ekki við. Þegar eitthvað ljótt kemur upp í Gamla testamenntinu, þá er bent á það með hraði, að þetta sé nú trúarbók gyðinga. Þeir sem þetta segja virðast skyndilega gleyma því að "mannakorna öskjurnar" þeirra eru fullar af fallegum versum úr Gamla testamenntinu, sem kristið fólk les sér reglulega til huggunnar og ánægju. (Já, auðvitað eru fullt af fallegum hlutum í Gamla testamenntinu, og að mínum dómi líklega meira af áhugaverðu efni þar en í hinu Nýja testamennti.)

En þeir sem hampa Nýja testamenntinu, en fúlsa við því Gamla, ættu að kynna sér hvað Nýja testamenntið segir um það Gamla.

Bæði Jesús og Postularnir litu á Gamla testamenntið sem innblásið og myndugt orð Guðs:

Matteus 5:17 og 19 - "Ætlið ekki að ég sé kominn ti lað afnema lögmálið eða spámennina". "Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum mun kallast minnstur í himaríki en sá sem heldur þau og kennir mun mikill kallast í himnaríki".

Takið eftir að 19. versið er í framtíð, en ekki fortíð. Þeir sem halda lögmálið og spámennina munu verða miklir í himnaríki.

Matteus 23:2-3 "2„Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear. 3Því skuluð þér gera og halda allt sem þeir segja yður en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara því þeir breyta ekki sem þeir bjóða."

Þegar Jesús gagnrýndi faríseanna og fræðimennina, var hann ekki að gagnrýna kenningar þeirra aðallega, heldur þá staðreynd að þeir voru hræsnarar. Þeir breyttu ekki eins og þeir buðu.

Í Jóhannesi 10:35 segir Jesús um lögmálið: "og ritningin verður ekki felld úr gildi".

Í 2. Tím 3:14-17 segir að Tímóteus hafi frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar, og að sérhver ritingin sé innblásin af Guði, og nytsöm til fræðslu, leiðréttingar og menntunar í réttlæti. Ef að Páll skrifaði Tímóteusarbréf, er ljóst að þegar þessi Tímóteus var barn, var Nýja testamenntið ekki til. Páll væri því að tala um Gamla testamenntið, og að sérhver ritning þess sé heilög og innblásin af Guði.

Það er líka hægt að benda á orðin í 2. Pét. 1:20-21 um Ritninguna.

Jesús hóf feril sinn, predikandi fátækum góðar fréttir, lesandi úr Jesaja spámanni (Lúkas 4:16-19). Bæði Filipus (Post 8:28-35) og Apollos (Post 18:24-28) notuðu Gamla testamenntið til að leiða fólk til trúar á Jesú. Postularnir predikuðu Gamla testamenntið. Höfundar Nýja testamenntisins vísa sirka 1600 sinnum í Gamla testamenntið. Þeir gefa sér að orð þess séu innblásin, og nota þau m.a. til að styðja mál sitt í guðfræðilegum rökræðum. Gamla testamenntið var Biblía frumkirkjunnar.

Oft halda menn að Jesús hafi verið látinn taka afstöðu gegn Gamla testamenntinu t.d. í Fjallræðunni. Það byggist á misskilningi. Höfundur Matteusarguðspjalls var mikill Gamla testamenntismaður (sbr. t.d. versin sem ég vísaði í hér að ofan). Ég vísa hér með í seinni hluta athugasemdar númer 15 sem ég skrifaði við færluna "Nytsöm til fræðslu" varðandi fjallræðuna.

Að lokum vil ég beina sésrtaklega sjónum að því sem "Einhver" skrifði um það að náðin og miskunin kæmu til sögunnar með Jesú í Nýja testamenntinu. Ég er ekki viss um að Gyðingar myndu t.d. finnast orð Nýja testamenntisins um að sá sem ekki trúi á Jesú verið kastað í óslökkvandi eld, þar sem ormarnir deyja ekki, og eldurinn slokknar ekki, sérlega miskunsöm. Staðreyndin er sú að megnið af Gamla testamenntinu virðist ekki gera ráð fyrir helvíti. Fólk sem lést fór allt saman bara í gröfin (Sheol). Af því leytinu til er Gamla testamenntið "betra" og raunsærra en það Nýja. Prédikarinn 9:5 segir:  Því að þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar. Sjá líka t.d. 1. Mós 3:19, Sálmarnir 119:14, Job 34:14, Jer 51:57, og fleiri dæmi.

Eitt af því sem gerir Gamla testamenntið áhugaverðara en það Nýja, fyrir minn smekk, er að trú gyðingana snérist að lang mestu leyti um þennan heim, og guðinn þeirra hafði aðallega áhuga á þessari veröld, og velferð fólks á jörðinni í þessu lífi. Nýja testamenntið snýst að stórum hluta um hjálpræði sem menn hlotnast eftir dauðann, himnaríki eða eilífa refsingu, andaverur himingeimsins, og Krist á himnum. Nýja testamenntið bíður mönnum einkum handanheims verðlaun. Í Gamla testamenntinu tilbáðu menn Guð sem sá fyrst og fremst fyrir þröfum þeirra í þessum heimi. "Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og sýnir aðkomumanninum kærleika og gefur honum fæði og klæði." (5. Mós 10:18) Þar sem þetta líf í þessum heimi er það eina sem við höfum, finnst mér nálgun Gamla testamenntisins áhugaverðari. Gamla testamenntið er "jarðbundnara".

Og eftir öll þessi skrif um Gamla testamenntið, vil ég taka það fram, að mér finnst orðið "Gamla testamenntið" mikið ónefni. Réttara væri að tala um "hebresku Biblíuna". Þegar kristnir menn kalla trúarrit gyðinga "gamla", og sitt trúarrit "nýja", hljóma þeir einum of sjálfumglaðir fyrir minn smekk.

 

 


Veðurguðinn Jahve talar...

Amos 4:6-8

6Ég hélt tönnum yðar hreinum í öllum borgum yðar
og lét brauð skorta í öllum þorpum yðar
en þér sneruð ekki aftur til mín,
segir Drottinn.
7Ég synjaði yður um regn þegar þrír mánuðir voru til uppskeru.
Þá lét ég rigna á eina borg en ekki á aðra,
einn akur var vökvaður regni
en annar, sem ég vökvaði ekki, skrælnaði.

8Fólk eigraði til sömu borgar frá tveimur, þremur öðrum
til að fá vatn að drekka
en fékk ekki nægju sína.
En þér sneruð ekki aftur til mín,
segir Drottinn.

Ef að Amos hefði bara vitað það sem við vitum í dag um skýin og regn, þá hefði hann líklega ekki kennt Guði um þurrkinn. What are clouds and why does it rain? 

Mér fannst vers 9-11 líka áhugaverð í þesum kafla:

9Ég laust yður með korndrepi og gulnun,
ég lét garða yðar og vínekrur þorna,
engisprettur átu fíkjutré yðar og ólífutré
en þér sneruð ekki aftur til mín,
segir Drottinn.
10Ég sendi drepsótt gegn yður eins og í Egyptalandi,
felldi æskumenn yðar með sverði
og hestar yðar urðu herfang.
Ég lét nályktina í herbúðum yðar leggja fyrir vit yðar
en þér sneruð ekki aftur til mín,
segir Drottinn.
11Ég kollvarpaði öllu yðar á meðal
eins og ég kollvarpaði Sódómu og Gómorru.
Þá urðuð þér eins og raftur úr eldi dreginn
en þér sneruð ekki aftur til mín,
segir Drottinn.

Svona reyndu Hebrearnir að útskýra þjáningar sínar. Guð hlaut að vera að refsa þeim. Ég skil ekki nútíma fólk, sem heldur að algóður Guð hagi sér með þessum hætti.

Edit: "því að svo elskaði Guð Ísraelsmenn, að hann gaf þeim hungursneyð og drepsóttir og drap syni þeirra, svo að þeir myndu hætta að syndga."


Guð talar

Dóttir mín, Kristey Sara, 3 ára, fer á miðvikudögum í barnastarf í Hvítasunnukirkjunni. Ég bæði keyri hana uppí kirkju, og sæki. Á meðan starfið fer fram, fer ég í borðtennis. Þegar við vorum að keyra heim eftir starfið í síðustu viku spurði ég hana: "Hvað gerðuð þið í barnastarfinu í dag?". Hún svaraði:"Við lokuðum augunum og hlustuðum á Guð". Ég spurði: "Og sagði Guð eitthvað við þig?". Hún svaraði brosandi:"Já, hann sagði að ég væri kúkalabbi".

Þessi börn!

Smile


Kynmök við engla

Í fyrsta kafla og níunda versi Enoks bókar stendur:

 

And behold! He cometh with ten thousands of His holy ones

To execute judgement upon all,

And to destroy all the ungodly:

 

And to convict all flesh

Of all the works of their ungodliness which they have ungodly committed,

And of all the hard things which ungodly sinners have spoken against Him.

 

Í Júdasarbréfi í Nýja testamenntinu er vitnað í þessi orð Enoksbókar. Í versi 14-15 í Júdasarbréfi stendur: Um þessa menn spáði Enok líka, sjöundi maður frá Adam, er hann segir: „Sjá, Drottinn er kominn með sínum þúsundum heilagra til að halda dóm yfir öllum, og til að sanna alla óguðlega menn seka um öll þau óguðlegu verk sem þeir hafa drýgt og um öll þau hörðu orð sem óguðlegir syndarar hafa talað gegn honum.“

Í 6. kafla 1. Mósebókar, er sagt frá því, er synir Guðs, sem kallaðir voru englar í grískum útfáfum af 1. Mósebók, höfðu samfarir við dætur mannanna, og eignuðust með þeim afkvæmi sem urðu víðfrægar hetjur. (enda ekki ónýtt að vera engill í föðurætt og mennskur í móðurætt)

1Nú tók mönnunum að fjölga á jörðinni og þeim fæddust dætur. 2Þá sáu synir Guðs hve dætur mannanna voru fagrar. Þeir tóku sér þær konur sem þeir lögðu hug á. 3Þá sagði Drottinn: „Andi minn skal ekki búa í manninum að eilífu því að hann er dauðlegur. Ævidagar hans skulu vera hundrað og tuttugu ár.“ 4Á þeim tímum voru risarnir á jörðinni og einnig síðar er synir Guðs höfðu samfarir við dætur mannanna og eignuðust með þeim börn. Það voru hetjurnar sem í fyrndinni voru víðfrægar.

Í grískum þýðingum Gamla testamenntisins, eru "synir Guðs", einfaldlega þýtt sem "englar", eins og áður segir. Höfundar bóka Nýja testamenntisins, töluðu grísku, og vitna yfirleitt alltaf í gríska Gamla testamenntið (Septuagint), þegar þeir á annað borð vitna í Gamla testamenntið.

Áðurnefnd Enoksbók, sem höfundur Júdasarbréfs vitnaði til, lýsir með nákvæmari hætti, að því er virðist, því sem í raun og veru gerðist í 6. kafla fyrstu Mósebókar. Eftirfarandi er úr 6 kafla Enoks bókar, vers 1-3:

1 And it came to pass when the children of men had multiplied that in those days were born unto 2 them beautiful and comely daughters. And the angels, the children of the heaven, saw and lusted after them, and said to one another: 'Come, let us choose us wives from among the children of men 3 and beget us children.' ...

Og vers sex segir að tvö hundruð englar hafi stigið niður af himni á Hemron fjall: And they were in all two hundred; who descended in the days of Jared on the summit of Mount Hermon, and they called it Mount Hermon, because they had sworn

Í þriðja versi sjönda kaflans lesum við um börnin sem englarnir eignuðust með mennsku konunum:  And they 3 became pregnant, and they bare great giants, whose height was three thousand ells

Í nítjánda kafla Enoksbókar segir eftirfarandi um hina gröðu engla, sem höfðu samræði við mennskar konur:  'Here shall stand the angels who have connected themselves with women, and their spirits assuming many different forms are defiling mankind and shall lead them astray into sacrificing to demons as gods, (here shall they stand,) till the day of the great judgement in 2 which they shall be judged till they are made an end of. And the women also of the angels who 3 went astray shall become sirens.'

Júdasarbréf, sem eins og áður segir vitnar í versin í fyrsta kafla Enoksbókar, sem um sannan spádóm sé að ræða, virðist líka minnast á áðurnefnda gröðu engla. Vers 6 í Júdasarbréfi segir: Minnist englanna sem ekki gættu tignar sinnar heldur yfirgáfu eigin bústað. Guð hefur geymt þá í myrkri í ævarandi fjötrum til dómsins á deginum mikla. (endurspeglar að miklu leyti 10 kafla, vers 5-7 í Enoksbók*)

Einnig er mögulegt að skilja 2. Pétursbréf 2:2-4 sem tilvísun í hina gröðu engla.

Nú kunna einhverjir trúmenn (eins og t.d. Mofi) að mótmæla því að 2. Pétursbréf 2:2-4, og Júdasarbréf, vers 6, séu að vísa til umfjöllunar í Enoksbók um þessa gröðu engla sem áttu kynmök við mennskar konur. En því verður hins vegar ekki með góðu móti neytað, að Júdasarbréf, vitnar í Enoksbók 1:9, og gefur sér, að spádómur hennar hafi verið frá Guði kominn, og hafi ræst. Það er því ljóst, að amk höfundur einnar bókar Nýja testamenntisins, hafi verið mikill smekkmaður á bókmenntir. það er ekki ónýtt að vitna í Enoksbók, enda er Enoksbók algjör snilld.

*Enok 10:5-7 cast him into the darkness: and make an opening 5 in the desert, which is in Dudael, and cast him therein. And place upon him rough and jagged rocks, and cover him with darkness, and let him abide there for ever, and cover his face that he may 6,7 not see light. And on the day of the great judgement he shall be cast into the fire.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sindri Guðjónsson

Höfundur

Sindri Guðjónsson
Sindri Guðjónsson

Ég heiti Sindri! Ég er trúlaus, og blogga hér aðallega um Biblíuna. (Ég er að vísu sem betur fer hættur þessu stússi)

 

Þú getur haft samband: sindri79(a)gmail.com

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...itvig
  • ...ysyvq
  • ...100_2438

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 2538

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband