6.6.2008 | 00:15
Hvað hét fósturafi Jesúsar?
Pabbi Jósefs, fóstur föður Jesúsar, hét Elí, skv Lúkasi 3:23. Pabbi sama Jósefs hét Jakob, skv Matteusi 1:16. Heimildum ber því ekki saman um það hver hafi verið fósturafi Jesúsar (sjá viðauka neðst). Ætla ég hafa þetta sem inngangsorð þessarar stuttu umfjöllunar um ættartöluna í Matteusarguðspjalli.
Ættartölurnar í Matteusi og Lúkasi eru í hrópandi mótsögn hvor við aðra. Auk þess stemma þær ekki vel við ættartölurnar í Gamla testamenntinu. Ég braut mikið heilann yfir þessu áður fyrr. Hvernig gat ég látið þetta allt saman ganga upp? Ég man að ég aðhylltist á tímabili kenningu um að göt væru í ættartölunum, sem væru alveg eðlileg miðað við hebreska málnotkun, þar sem ekki hafi verið gerður greinarmunur á föður og forföður. Þegar sagt væri að þessi hafi getið hinn, gat það þýtt að einungis væri um forföður væri að ræða, en ekki endilega beinlínis föður. Með þessu móti var hægt að útskýra muninn á ættartölunum með þeim hætti að höfundar þeirra hefðu kosið að nota mismunandi lista yfir forfeður, en báðar ættartölurnar væru engu að síður réttar. Þessi hæpna kenning er hins vegar byggð á sandi. Matteus segir t.d.
Þannig eru alls fjórtán ættliðir frá Abraham til Davíðs, fjórtán ættliðir frá Davíð fram að útlegðinni í Babýlon og fjórtán ættliðir frá útlegðinni til Krists.
Matteus segir hér í raun berum orðum að það séu ekki göt í ættartölunni hans. Hann nefnir 14 menn frá Abraham til Davíðs, og segir þá vera 14 ættliði, o.s.frv. Auk þess hef ég ekki orðið var við merkileg málfræðileg rök sem styðja það að ef Abía hafi getið Asaf, þá þýði það að mögulega sé hann langa afi hans, eða eitthvað álíka.
Matteus (öllu heldur höfundur Matteusarguðspjalls, sem er nafnlaust Guðspjall) virðist vera að segja að á 14 kynslóða fresti gerist eitthvað mjög markvert í sögu gyðinga. Í fyrsta lagi fæðing Davíðs, merkasta konungs gyðinga, 14 kynslóðum eftir að Abraham fæddist, í öðru lagi herleiðingin, mestu hörmungar gyðinganna, 14 ættliðum síðar, og að lokum fæðing Krists 14 ættliðum frá herleiðingunni. Þetta hljómar eiginlega of gott til að vera satt. Það er eins og Matteus sé að reyna að sanna að eitthvað mjög sögulegt og markvert á borð við fæðingu sonar Guðs, Messíasar gyðininga, hljóti bara að hafa gerst, það hafi verið kominn tími á það.
Matteus þarf að fara út í smá hundakúnstir til að komast að þeirri niðurstöðu að Jesús hafi fæðst 14 ættliðum eftir herleiðinguna. Einnig til að fá það út að 14 ættliðir skilji á milli herleiðingarinnar og Davíðs, og að svo séu 14 ættliðir milli Davíðs og Abrahams. Séu ættartölurnar í hebresku Biblíunni skoðaðar, sést að Matteus hefur þurft að stytta þær og fækka forfeðrunum, til þess að fá akkúrat 14 stykki í hvert af þessum þremur bilum. Sem dæmi tek ég 8 versið í 1. kafla Matteusar. Þar segir að Asaf hafi getið Jósafat, og Jósafat hafi getið Jóram, Jóram getið Ússía og Ússía getið Jótam sem gat Akas. Í 3. kaflaí 1. kroníkubók kemur fram að Asa hafi getið Jósafat, og Jósafat getið Jóram, Jóram getið Ússía, en Ússía var hins vegar langa afi Jótams, sem gat Akas. Matteus kyppti því hér út þremur ættliðum úr ættartölunni, þeim Jóasi, Amasía, og Asaría, til þess að ættliðirnir verði 14 á milli Davíðs konungs og til herleiðingarinnar.
Annað athyglisvert dæmi er að Matteus segir að Jekonja, sonur Jósía, sonur Amosar, sonur Manasse, sonur Esekía, sé forfaðir Jesúsar (óbeint auðvitað í gegnum fósturföðurinn Jósef). Skv Kroníkubók er þesi Jekonja, sonur Jójakíms, sonur Jósía, sonur Amónar sonur Manasse. Einn ættliður (Jójakím) hefur því dottið út hér hjá Matteusi. Það að Matteusi telji að Jekonja sé sonur afa síns, er ekki það sem er merkilegast varðandi veru hans í ættartölunni. Það sem er öllu athyglisverðara er að Jeremía spámaður segir í 22. kafla, versi 30, um Jekonja:
Svo segir Drottinn:
Skráið þennan mann barnlausan,
mann sem ekkert hefur orðið úr
því að engum niðja hans
mun takast að setjast í hásæti Davíðs
og ríkja framar yfir Júda.
Það er hálf sérstakt að þessi maður, skráður sem barnlaus, sem ekki skuli eiga niðja sem setjast munu í hásæti Davíðs, skuli vera talinn upp í hópi forfeðra frelsarans í ættartölu Jesú Krists.
Viðauki.
Matteus 1:16: Jakob gat Jósef mann Maríu.
Lúkas 3:23: Var hann, eftir því sem haldið var, sonur Jósefs, sonar Elí.
Ættartölurnar í Matteusi og Lúkasi eru meira og minna ger ólíkar, eins og áður segir. Þeim greinir ekki aðeins á um það hver hafi verið faðir Jósefs, heldur líku um það hver hafi verið afi hans, langa afi, langa langa afi, o.s.frv., alveg aftur til Davíðs konungs. Sumir kristnir hafa reynt að útskýra þennan mismun með því að segja að önnur ættartalan, sé ættartala Jesú, í gegnum Jósef, en hin í gegnum Maríu. Það er hins vegar einkennilegt, langsótt, og hæpið, þar sem bæði Lúkas og Matteus segjast vera að rekja ættir Jósefs, sbr Matteus 1:16, og Lúkas 3:23.
Þrátt fyrir að Matteus segi að það séu 14 ættliðir frá herleiðingunni til Krists, nefnir hann einungis 13 (gerir einhver mistök í talningunni).
Ég mun bæta við einu mjög mikilvægu atriði sem tengist ættartölunni í Matteusi í færslu á morgun.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
2.5.2008 | 00:20
Uppstigningardagur
Nú er Uppstigningardagur ný liðinn. Það var einmitt á Uppstigningardegi í fyrra sem ég predikaði mína síðustu predikun í Hvítasunnukirkjunni á Akureyri.
Júlíus Sesar steig upp til himna í votta viðurvist eftir dauða sinn, líkt og Jesús. Það mun þó hafa gerst nokkrum árum áður en Jesús steig þangað upp. Júlíus var svo látinn setjast til hægri handar guðunum á himnum. Jesús var látinn setjast til hægri handar Jahve á himnum. (Efesus 3:20). (smá trivial í tilefni gærdagsins)
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 06:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.3.2008 | 11:13
Vantrú í eyðimörkinni
Í 2. Mósebók (og reyndar víðar) segir frá því þegar Guð leiddi Ísraelsmenn út úr Egyptalandi. Við getum vitað hvenær þeir atburðir sem Biblían segir frá, varðandi eyðimerkurgöngu Ísraelsmanna, áttu að eiga sér stað, þar sem Konungabók segir að brottforin hafi verið 480 árum áður en bygging musterisins í Jerúsalem hófst, sem var á 4 ári í tíð Salómóns konungs.
Samkvæmt Biblíunni fæddist ísraelska þjóðin í Egyptalandi ef svo má segja, en Ísraelsmenn voru afkomendur 12 bræðra sem þangað höfðu flutt, og bjó öll þjóðin fyrstu árhundruðin í Egyptalandi. Samt eru hér um bil engin áhrif frá fornu tungumáli og ritmáli Egypta í hebresku. Merkilegt.
Á ákveðnum tímapunkti, eftir 400 ára þrældóm, leiddi Guð Ísraelsmenn út úr Egyptalandi, eftir að hafa sent stórmagnaðar plágur yfir Egypta. Sú síðasta fólst í því að Guð drap alla frumburði Egyptalands. Það sem er einna merkilegast við þá sögu, er sú staðreynd að Faraó var tilbúinn til að leyfa Ísraelsmönnum að fara, en Guð herti hjarta hans, til þess að þessi síðasta plága mætti ganga yfir landið. Ísraelsmenn smurðu dyr sínar blóði páskalambsins, en þetta voru fyrstu páskarnir. Hverju ísraelsku heimili var sagt að fórna lambi í þessum tilgangi, og borða það eftir kúnstarinnar reglum. Þeirra frumburðum var þar með hlíft. Blóð páskalambsins frelsaði þá. (Kristnir menn tala um Jesú sem páskalambið, og að blóðið hans frelsi einnig. Þetta var sem sagt tákn mynd af Nýja sáttmálnum.)
Eftir fyrstu páskana, þegar Egyptaland var í sárum eftir að Guð hafði drepið alla frumburði landsins, leyfði Faraó Ísraelum að fara.
Guð gekk á undan Ísraelum í skýstólpa á daginn, og eldstólpa á næturna. Eldstólpinn og skýstólpinn véku aldrei úr augsýn fólksins. Guð leiddi svo Ísraelsmenn að Sefhafinu/Rauðahafinu, og narraði Faraó til að láta her sinn elta, með því að herða hjarta Faraós enn á ný. Guð opnaði svo Rauðahafið, og gengu Ísraelsmenn yfir það þurrum fótum. Það hefur verið vægt til orða tekið merkileg lífsreynsla, enda tæki það marga daga að ganga yfir Rauðahafið. Skyldu Ísraelsmenn hafa tjaldað á hafsbotni, undir háum vatnsveggjum? Her Faraós var svo drekkt í hafinu, en þannig vildi Guð sýna dýrð sína í verki, eins og segir í bókinni.
Rammt vatn sem Ísraelsmenn ætluðu að drekka, breyttist í ferskt vatn, þegar Móses kastaði tré í það. Er Ísraelsmenn voru á ferð sinni í eyðimörkinni, lét Guð rigna yfir þá mat. Bæði manna og lynghænum. Ísraelsmenn fengu manna af himnum dagalega í 40 ár!
En þrátt fyrir að hafa upplifað plágurnar og fyrstu páskana. Gengið í gegnum Rauðahafið þurrum fótum í marga daga. Horft daglega á skýstólpa og eldstólpa. Fengið daglega lynghænur sem féllu af himni ofan í matinn, drukkið kraftaverkavatn, og upplifað ýmislegt annað sem ætti heima í færslunni "Risi í járnrúmi", þá trúðu Ísraelsmenn ekki, og voru Guði óhlýðnir og uppreisnargjarnir. Það út af fyrir sig, er það ÓTRÚLEGTASTA við þessa frásögn alla. Ísraelsmenn ráfuðu um eyðimörkina í 40 ár, þrátt fyrir að ferðin þyrfti ekki einu sinni að taka einn mánuð. Ástæðan var ekki sú að Guð væri svo slakur leiðsögumaður, heldur vantrú Ísraelsmanna.
Þegar Ísraelsmenn lögðu af stað, voru um 600.000 karlemnn í hópnum, auk kvenna og barna. Því má áætla að ferðalangarnir hafi verið 2 milljónir manna. Ýmsir fornleifafræðingar hafa bent á það hversu einkennilegt það sé, að stór þjóð, sem bjó í lítilli eyðimörk í 40 ár, hafi ekki skilið eftir sig nein ummerki. (kannski enn eitt kraftaverkið?!) Annað kraftaverk er sú staðreynd að Ísraelsmenn urðu aldrei varir við allar egypsku herstöðvarnar og eftirlitsstöðvarnar, sem fornleifafræðingar hafa fundið í eyðimörkinni frá þeim tíma sem um ræðir. Eyðimörkin var þétt setin af Egyptum allan tímann, nema ef fornleifafræðingum skjátlast.
Líklegasta skýringin á því að ferðin hafi tekið 40 ár, en ekki t.d. 28 ár, eða 2 mánuði, er hvorki trúleysi, né slæm farastjórn Guðs, heldur sú að höfundur sögunnar hafi verið talsvert skotinn í tölunni 40. Það sést, sé Biblían skoðuð, að sú tala var í tísku hjá sumum hebreskum rithöfundum: Það ringdi í 40 daga í Nóaflóðinu. Flóðið var í 40 daga. 40 sökklar úr silfri voru undir borðunum í tjaldbúðinni. 40 ára friður ríkti í Ísrael í kjölfar dómaranna sem Guð setti yfir þá. Einn dómarinn átti 40 syni. Guð gaf Ísrael í hendur Fílistum í 40 ár. Ísak var 40 ára þegar hann giftist Rebekku. Móses var í 40 daga á fjallinu með Guði. Njósnararnir sem njósnuðu um fyrirheitnalandið gerðu það í 40 daga. Elí var prestur í 40 ár. Davíð ríki í 40 ár. Sál ríkti í 40 ár. Salómon ríkti í 40 ár. Elí var í 40 daga í eyðimörkinni. Jónas gekk um Nínevu í 40 daga. Musterissalurinn var 40 álnir að lengd, og svo framvegis.
Hinni trúlausu 40 ára kraftaverkagöngu lauk á endanum. Ísraelar komust til fyrirheitnalandins Kanan. Ekki segir reyndar frá þeim ferðalokum í 2. Mósebók, heldur annarsstaðar.
Ísraelsmenn þurftu á leiðarenda að berjast við ýmsar kanverskar þjóðir sem réðu ríkjum í fyrirheitnalandinu áður en þeir gátu sest þar að. Samkvæmt fornleifafræðinni voru það hins vegar Egyptar sem réðu ríkjum í fyrirheitnalandinu góða, en Biblían talar aldrei um bardaga Ísraela við þá. Egypska heimsveldið var gríðarstórt og teygði anga sína víða, og landið helga, var í traustataki Faraós þegar Ísraelsmenn áttu að hafa komið þangað, og í mörg ár á undan og eftir. Fullt af skjölum og göngum og uppgröftum sýna að svo sé. Meintur flótti Ísraelsmanna frá Egyptalandi hefði því einungis leitt þá yfir á annað yfirráðasvæði Egypta. Þeir hefðu aldrei yfirgefið egypska heimsveldið.
Hérna er hægt að horfa á mynd varðandi fornleifafræðina. Það er reyndar fyrst og fremst 2. hluti sem kemur málinu við.
Sagan af eyðimerkurgöngu Ísraelsmanna, og af brottförinni úr Egyptalandi, er stórskemmtileg saga. Þar er að finna frásögnina um gullkálfinn, og boðorðin tíu og margt fleira skemmtilegt, auk þeirra hluta sem áður hafa verið raktir. Það er hins vegar fráleitt að leggja bókstafstrúarskilning á hana.
Trúmál og siðferði | Breytt 30.3.2008 kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
23.3.2008 | 01:33
Biblían um aga
Orðskviðirnir 23:13-14 segja:
Sparaðu eigi aga við sveininn, því ekki deyr hann þótt þú sláir hann með vendinum. Þú slærð hann að sönnu með vendinum, en þú frelsar líf hans frá Helju.
Hér sést að það að aga, innifelur að slá með vendi. Ég vil svo taka það fram að hér er ekki verið að tala um "Helvíti", eins og menn þekkja það hugtak. Það er orðið "Sheol" sem þýtt er hér sem "Helja". Sheol var staður þar sem allir látnir menn fóru. Verið er að tala um að bjarga sveininum frá venjulegum dauða, eða gröfinni.
Orðskviðirnir 20:30 segja:
Blóðugar skrámur hreinsa illmennið og högg, sem duglega svíða. ("rista djúpt" betri þýðing)
Orðskviðirnir 19:18 segja:
Aga þú son þinn, því að enn er von, en farðu eigi svo langt, að þú deyðir hann.
Orðið "agi" יַסֵּר vísar til beitingar á ofbeldi, eins og sést á því að þú mátt ekki aga son þinn svo mikið að hann deyji út af barsmíðunum. (Orðið þýðir líklega bókstaflega að aga með höggum, en ég er ekki með neitt lexicon við höndina til að athuga það.)
Ég verð að segja alveg eins og er, að ég vona að sem fæstir beiti Biblíulegum ögunaraðferðum.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
25.2.2008 | 09:39
Nytsöm til fræðslu
Þegar ég var trúaður var eitt af fjöldamörgum uppáhalds Biblíuversum mínum að finna í öðru Tímóteusarbréfi, 3. kafla, og versi 16. Þar segir að sérhver ritning sé innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, umvöndunar og leiðréttingar og menntunar í réttlæti.
Ég taldi að það sem átt væri við með orðunum "sérhver ritning" væri "öll Biblían". Ég las Biblíuna mikið, og minnti mig stöðugt á það að allt það sem ég var að lesa væri innblásið af Guði, og nytsamt til fræðslu.
Ég velti oft fyrir mér undarlegum köflum í Biblíunni og reyndi, með hjálp Guðs, að draga lærdóm af öllu sem ég las (og næra minn innri mann, 1. Tím 4:6 og Matt 4:4).
En hvaða nytsama lærdóm gat ég dregið t.d. af eftirfarandi ellefu atriðum?
---
1. Guð vitjar misgjörða feðranna á börnunum. (2. Mós 2:20 og 4. Mós 4:18)
2. Ekki skal refsa þrælahaldara sem lemur þræla sínu svo illa að þeir deyji af sárum sínum, nema þeir deyi á aðeins einum eða tveimur dögum. Þrælarnir eru nefnilega eign húsbónda sinna, verði keyptir. (2. Mós 21:20-21)
3. Ef einhver náinn fjölskyldumeðlimur (dóttir, sonur, eiginkona, bróðir...), eða vinur sem þú elskar eins og lífið í brjósti þínu, reynir að fá þig til að trúa á annan Guð en Jahve, þá ber þér persónulega að hefjast handa við að drepa hann, og síðan allur lýðurinn. (5. Mós 13:6-9)
4. Heill þeim sem slær ungbörnum Babýloníumanna við stein. (Sálm137:9)
5. Sá sem lastmælir Drottni skal vægðarlaust grýttur. (3. Mós 24:16)
6. Drottinn skipaði sinni útvöldu þjóð nokkrum sinnum að þurrka út og gereyða öðrum þjóðum. Til dæmis í 1. Sam 15, þar sem útvöldu þjóðinni bar að drepa alla karla, konur, börn og brjóstmylkinga, naut og sauðfé, úlfalda og asna Amalekíta.
7. Að hafa samfarir við konu á blæðingum er dauðasök, bæði fyrir karlinn og konuna. (3. Mós 20:18)
8. Stúlka sem ekki er hrein mey á brúðkaupsnóttinni skal lamin til bana með grjóti við húsdyr föður síns. (5. Mós 22:13-14;20-21)
9. Enginn Ammóníti eða Móabíti má vera í söfnuði Drottins. Jafnvel ekki tíundi maður frá þeim má vera í söfnuði Drottins að eilífu. (5. Mós 23:3). Það kemur líka fram í Nehemía 13:1-3 að enginn Ammóníti eða Móabíti megi vera í söfnuði Drottins að eilífu. Í Ezra, 10 kafla, segir frá því að margir höfðu drýgt þá synd að giftast konum af erlendum uppruna. Þeir ákváðu, samkvæmt fyrirskipun Guðs, að reka þessar konur, og börn sem þeir höfðu eignast með þeim, frá sér. (Þetta er auðvitað allt í hrópandi mótsögn við efni Rutarbókar, sem var reyndar að mati margra beinlínis skirfuð til að leiðrétta þessar kenningar.)
10. Líf karla og drengja er tæplega tvöfallt verðmætara en líf kvenna og stúlkna (3. Mós 27). Sjá einnig þetta hér.
11. Ísraelsmenn máttu kaupa kanversk börn og leggja þau í þrældóm ævilangt. Þrælana mátti svo láta ganga í arf til ísraelskra barna. Bannað var að beita Ísraelsmenn valdi. (3. Mós 25:45-46)
---
Ég dró þann lærdóm af þessum dæmum, og ótal mörgum fleirum, að Biblían innihéli ekki aðeins forna og úrelta (en áhugaverða) heimsmynd, heldur líka siðferðisskoðnir sem væru úreltar (einfaldlega siðferði fornrar þjóðar). Mér þótti afar erfitt að horfast í augu við þessa augljósu staðreynd.
Áherslur Guðs þóttu mér skrítnar þegar ég fór að hugsa málið. Guð átti að hafa gefið gyðingum lögmál með 613 boðorðum (orðið Tóra er reyndar betur þýtt sem "leiðsögn" en "lögmál" að mínu mati). Meðal þeirra voru boð um að ekki megi skaða ávaxtatré með öxi meðan setið er um borgir (5. Mós 21:19), ekki bjóða Ammonítum og Móabítum frið (5. Mós 23:7), alls ekki gleyma hvað Ameliketar voru vondir og grimmir við Ísraelsmenn er þeir voru á leiðinni frá Egyptalandi (5. Mós 25:19), þurrka út afkomendur Amaleks (5. Mós 25:19), eyða hinum sjö kanverku þjóðum (5. Mós 20:17), æðstiprestur má ekki saurga sig með því að dvelja undir sama þaki og lík (3. Mós 21:11), bannað er að lána og fá lánað með vöxtum (3. Mós 25:37 og 5. Mós 23:20), en það má lána útlendingum með vöxtum (5. Mós 23:21), ekki má sjóða kiðling í mjólk móður sinnar (2. Mós 23:19) o.s.frv.
Þrátt fyrir að ég hafði gefið mér það, að öll þessi boðorð væru alveg bráð nauðsynleg, þá skildi ég ekki hvers vegna Guð gat ekki komið nokkrum orðum að ýmsum öðrum lífsreglum sem einhverveginn virtust meira áríðandi. Hvað með t.d. nokkur orð um að ekki megi meiða eða særa börn? Fyrir utan öll skrítnu boðorðin, sá Guð sér fært að eyða plássi til að segja að börn mættu alls ekki veitast að foreldrum sínum, og að grýta ætti óþekka og þrjóska stráka til dauða, ef þeir hlýddu ekki hlýddu mömmu og pabba þrátt fyrir að reynt hafi verið að berja þá til hlýðni (5. Mós 21:18-21), og að drepa ætti alla sem bölva föður sínum eða móður sinni (3. Mós 20:9). Guð vildi heldur ekki eyða púðri í að kenna mannkyni um tjáningar og skoðannafrelsi og annað sem mér virtist örlítið nauðsynlegra en að forðast að sjóða kiðlinga upp úr mjólk móður sinnar, eða að æðstipresturinn mætti ekki undir nokkrum kringumstæðum vera undir sama þaki og lík liðins manns. Var þetta spekin sem skapari himins og jarðar þótti nauðsynlegast að kenna okkur? Mannkynið hafði verið á jörðinni í yfir 100.000 ár án þess að eiga innblásna bók frá Guði. Loksins blés hann mönnum í brjóst að rita skilaboð að ofan, og þetta voru skilaboðin??
Mér varð ljóst að lögmálið innihéldi siðareglur fornrar þjóðar (en ekki stórasannleik að ofan). Flestar siðareglurnar eru góðar og gildar, en aðrar úreltar. Áherslurnar eru skiljanlega ólíkar þeim sem við myndum hafa, þar sem aðstæður, hugmyndir og skoðanir fólksins sem skrifuðu lögmálið voru ólíkar því sem gerist í okkar samtíma.
Maður þarf ekki að setja sig á háan hest og fordæma Biblíuna. Jefta er ein af trúarhetjunum í 11. kafla Hebreabréfsins sem kristnir eiga að hafa til fyrirmyndar. Í 11. kafla Dómarabókar segir frá því þegar Jefta fórnaði dóttur sinni sem brennifórn til þess að bera sigur á Ammónítum. Og Drottinn gaf Ammónítana í hendurnar á hans. Er þetta eitthvað verra en það sem við lesum í grískum sögum á borð við það þegar Agamennon fórnaði dóttur sinni til síns guðs, til þess að vinna að launum sigur yfir borginni Tróju? Svona skrif ættu ekki að koma neinum upplýstum manni á óvart, þar sem þau endurspegla einfaldlega samtíma sinn. Hann var grimmur og harður. Hlutirnir voru öðruvísi. Í Rómarveldi máttu heimilisfeður hafna börnum sínum og láta bera þau út, ef þau þóttu ekki nægilega efnileg til uppeldis. Rómversku 12 töflu lögin lýsa því hvernig aðstandendur barnanna máttu hýða þau, loka þau inni, og jafnvel drepa þau. Samkvæmt Lex Julia de adulteriis mátti faðir drepa gifta dóttur sína, ef hún var staðinn að verki við að drýgja hór. Þegar haft er í huga að forn lög voru oft verulega siðlaus í augum nútímamanna, verður boðorðið um að grýta óþekka syni, eða um að stúlkur sem ekki eru hreinar meyjar eigi að vera grýttar, og ýmis önnur lög í hebresku Biblíunni, ekki eins ill skiljanleg. Boðorðin eru ekki nein eilíf og heilög sannindi. Þau endurspegla fornan hugsunarhátt Hebrea, sem voru ekkert verri en aðrir.
Í Biblíunni (eins og í Hómerskviðum og ýmsu öðru gömlu og góðu) er líka að finna mikla snilld, vísdóm, og góða leiðsögn. Ég neita því ekki. T.d. átti blökkumaðurinn Marteinn Lúter King Jr. ekki í vandræðum með að finna góðan innblástur úr Biblíunni. Það eru mörg góð boðorð í lögmálinu. Svo dæmi sé tekið þá eru býsna góð boðorð um réttarfar og störf dómara meðal hinna 613 boðorða lögmálsins.
Þó að ég taki ekki lengur undir það með 2. Tím 3:16 að Biblían sé innblásin af Guði, þá tel ég að hún sé að mörgu leyti nytsöm til fræðslu. Einnig tel ég að þeir sem hafa verið "Biblíukristnir" lengi, og eru vel læsir, en hafa samt ekki enn lesið Biblíuna frá upphafi til enda, eða einungis fáa valda kafla, hafi sýnt það í verki, að þeir hafa minna álit á Biblíunni en ég. Hvers vegna lesa þeir ekki Biblíuna, ef hún er ómengað og myndugt, lifandi og kröftugt, orð Guðs?
Trúmál og siðferði | Breytt 12.6.2014 kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
16.2.2008 | 21:20
Vitræn hönnun
Eftirfarandi er gestapistill, frá doktor Kristni Kaldasyni (Ph. D. í stjórnmálafræði), talsmanni kenningarinnar um vitræna hönnun.
...
Um 3300 vesputegundir sem nefnast Ichneumonidae fjölga sér með undursamlegum hætti. Kvendýr tegundanna stinga dýr og sprauta inn í þau eggjum sínum. Við þetta lamast dýrið. Vespu lirfurnar klekjast síðan úr eggjunum og borða dýrið innan frá. Til þess að tryggja hámarks gæði næringar sinnar, borða lirfurnar ekki viðkvæmustu líffærin strax. Þau borða fyrst það sem ekki er algerlega lífsnauðsynlegt fyrir bráðina, og enda borðhaldið með því að borða viðkvæmustu líffærin, til að tryggja að bráðin sé á lífi allan tímann meðan hún er étin.
Það er ill útskýranlegt fyrir þróunarsinna að skilja hvernig lirfurnar vita nákvæmlega hvað þær eiga að borða fyrst, og hvaða líffæri þau eigi að geyma þar til síðast, þar sem oft lægi beinast við fyrir lirfurnar vegna staðsetningar viðkvæmustu líffæranna að borða þau á undan. En eitthvað er innbyggt inn í þær, sem segir þeim að geyma þessi líffæri. Með hárnákvæmum hætti tryggja lirfurnar að bráðin fái að kveljast og þjást eins lengi og mikið og unnt er. Það er ekki mögulegt að vespu mömmurnar geti kennt lirfunum hvernig þær eigi að bera sig að. Bæði vespur og lirfur eru mállausar. Lirfurnar vita samt nákvæmlega hvað þær eiga að gera allt frá fæðingu. Þetta hlýtur að vera innprenntað inn í lirfurnar af höfundi lífsins sjálfum. Hvernig gætu þær vitað þetta annars?
Hver gæti hafa hannað þetta annar en undursamlegur, elskandi og almáttugur Guð? Ekki gerist svona lagað vegna náttúruvals og þróunar eingöngu? Þessi aðferð getur ekki hafa þróast með blindu náttúruvali. Sá sem hannaði þessa æxlunar aðferð er einhver sem sér og skilur þarfir og tilfinningar sköpunarverka sinna. Augljóslega á það sem stendur í sjötta kafla og versi 26 í Matteusarguðspjalli ekki einungis við um fugla, heldur vespur líka.
"Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá." - Matt 6:26.
...
Þessi pistill er auðvitað grín, og Kristinn Kaldason, meintur höfundur hans, er ekki til. Ég vil taka það fram að með þessari háðsmynd sem ég hef dregið upp af rökum sköpunarsinna, er ég ekki að saka Guð um grimmd. Þvert á móti tel ég að hann hafi ekki hannað æxlunaraðferðir vespna, og sé þar með saklaus af þeim pyntingarásökunum sem á hann gætu verið bornar, hefði hann haft eitthvað með þennan óskapnað að gera. Ef Guð væri til, þá yrði hann eflaust ósáttur við þá sem segðu hann bera beina ábyrgð á þessu.
Orðalagið í færslunni er sumstaðar stolið frá mjög fínum og góðum manni sem ég þekki eingöngu af góðu. Hann skrifaði pistil sem ég rakst á nýlega á heimasíðu Krossins og heitir Algerlega óhugsandi", þar sem hann færir rök fyrir vitrænni hönnun".
Greinina hans má finna hér.
Trúmál og siðferði | Breytt 17.2.2008 kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
8.2.2008 | 10:59
Biblíuleg stærðfræði og heilagir gamlingjar (ath viðbót)
Sagt er frá fornu fólki í Biblíunni sem varð rosalega langlíft. En það eru ekki margir sem vita að Adam sem varð 930 ára, og Metúsala, sem varð 969 ára, og Enos sem varð 905 ára, o.s.frv. voru ekki einu sinni hálfdrættingar á við meinta forna konunga Súmera (svæði í sunnanverðri Babýlon). Þessir konungar voru upp á árunum fyrir babýlónska alheimsflóðið líkt og Adam og félagar voru uppi á árunum áður en Nóaflóðið skall á. Langlífustu konungarnir voru Enmenluanna sem ríkti í 43200 ár, Alalgar í 36000 ár og Alulim í 28800 ár.
Það var mjög mikilvægt fyrir Súmerana að talan 60 gengi upp í aldur gömlu kónganna. (720*60=43200, 600*60= 36000, 480*60= 28880). Þetta var vegna þess að hjá Babýloníumönnum var 60 heilög tala, og grunn tala í babýlónskri stærðfræði.
Fyrir Hebreanna var talan 12 mjög mikilvæg. Það er sérstaklega áberandi í 1. Mósebók. Kanaan og afkomendur voru 12 í 1. Mós 10:15-18, Nahor eignaðist 12 syni (1. Mós 22:20-24), Ísmael var faðir 12 ættarhöfðingja (1. Mós 25:12-15), Esaú varð faðir 12 höfðingja (1. Mós 36:15-18), og synir Jakobs urðu að 12 ættflokkum Ísraels (1. Mós 49:1-28). Allir vita svo að talan 7 hefur táknrænt gildi í Biblíunni.
Í 5 kafla 1. Mósebókar segir að Adam hafi orðið 930 ára, Set 912 ára, Enos 905 ára, Kenan 910 ára, Mahalalel 895 ára, Jared 962, Enok 365 ára (hann lést reyndar ekki, heldur var numinn upp til himins), Metúsala 969 ára, og Lamek 777 ára. Ég hef séð því haldið fram að líkt og í tilfelli Súmera kónganna, sé ákveðinn talnaleikur í gangi hvað varðar aldur þessara manna sem greint er frá í 5. kafla 1. Mósebókar. Ef að menn taka aldurinn og draga eftir atvikum töluna 7 frá honum, ef það þarf, og margfalda svo með tölunni 12, þá gengur einmitt talan 60 upp í útkomuna! Þetta á við um alla áður nefnda "Biblíu gamlingja" úr 5. kafla 1. Mósebókar, nema þann sem varð elstur. Í tilfelli elsta mannsins, Metúsala, þarf að draga töluna 7 tvisvar sinnum frá aldri hans, áður en margfaldað er með 12 og deilt með 60. Sbr eftirfarandi töflu sem ég bjó til:
Adam 930 ára (930*12= 11160) 11160/60=186
Set 912 ára - 7 (905*12= 10860) 10860/60= 181
Enos 905 ára (905*12= 10860) 10860/60=181
Kenan 910 ára (910*12= 10920) 10920/60= 182
Mahalalel 895 ára (895*12= 10740) 10740/60= 179
Jared 962 ára 7 (955*12= 11460) 11460/60= 191
Enok 365 ára (365*12= 4380) 4380/60= 70
Metúsala 969 ára 7 -7 (955*12= 11460) 11460/60= 191
Lamek 777 ára 7 (770*12= ) 9240/60=154
Tilviljun ein gæti hafa ráðið þessu, þó að það sé vissulega fremur ólíklegt. Ég myndi amk segja að það sé mögulegt að þessi formúla hafi verið höfð í huga þegar að ættartalan í 5 kafla 1. Mósebókar var skrifuð. Það er samt engin ástæða til þess að vera dogmatískur.
EDIT: Ég hefði átt að taka Nóa með, fyrsta son Lameks (sem varð 777 ára). Nói lifði auðvitað bæði fyrir og eftir flóð. Hann varð 950 ára (950*12=11400/60=190), sem gengur alveg upp í formúluna, eins og Hjalti bendir á í athugasemd. Hann væri þá tíundi maðurinn, sem gerir líkurnar enn minni á því að tilviljun ráði hér för. Enok, sem sker sig úr, þar sem hann dó ekki, er lang yngstur, gekk með Guði, og var numinn frá jörðinni (heilagur maður!), er sjöundi af tíu í röðinni.
Í ættartölunni í 5. kafla er sagt frá því hversu gamlir menn voru þegar þeir eignuðust fyrsta son, og hversu lengi þeir lifðu eftir það. 15 af þessum 20 tölum eru margfeldi af tölunni 5 (sem þýðir að þær myndu ganga upp í formúluna sem *12/60). Líkurnar á því að það myndi gerast í náttúrulegri ættartölu eru 1 á móti 6 milljónum. Möguleg skýring er sú að Hebrearnir hafi verið að slumpa á aldur mannanna, en það er háð því að þeir hafi notað tugakerfið. Ekki skiptir minna máli fyrir þessar pælingar hér, að allar þær fimm tölur, sem ekki eru margfeldi af 5 (162, 187, 182, 807, 782) verða margfeldi af 5, ef að við drögum töluna 7 frá! (sem þýðir að þær gengju líka upp í formúluna -7*12/60) Hér er einhver talnaleikur á ferð.
Einfaldara er kannski að segja að í ættartölunni frá Adam til Nóa eru 21 af 30 tölum margfeldi af 5, 8 tölur eru margfeldi af 5, ef við drögum 7 frá, og aðeins þarf einu sinni að draga töluna 14 frá til þess að fá margfeldi af 5. (auðvitað má draga 2 frá í staðinn fyrir 7, og 4 í staðinn fyrir 14)
(10 menn, 30 tölur. - Sagt er hversu gamlir þeir voru þegar þeir eignuðust fyrsta son. Sagt er hversu lengi þeir lifðu eftir það. Sagt er hversu gamlir þeir voru þegar þeir dóu)
Trúmál og siðferði | Breytt 20.2.2008 kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
2.2.2008 | 22:15
Risi í járnrúmi - lítið sýnishorn úr skrítinni veröld.
Heimur Biblíunnar var skemmtilegur og stór undarlegur. Hér er örlítið sýnishorn:
- Guð verður þreyttur og hvílir sig á 7 degi sköpunarsögunnar. Seinna gengur hann um í kvöldsvalanum í aldingarðinum, og leitar að Adam og Evu.
- Höggormur talaði við Evu. (1. Mós 3)
- Guð bölvar höggorminum, og skipar honum að skríða um á maganum og borða mold framvegis.
- Menn urðu allt að tæplega þúsund ára gamlir, og auðveldlega mörg hundruð ára. (1. Mós 5 t.d.)
- Synir Guðs tóku sér fagrar dætur mannanna, höfðu við þær samfarir og eignuðust börn. Börnin urðu risar og hetjur, sem bættust í hóp risa sem voru fyrir á jörðinni. (1. Mós 6)
- Flóð hylur alla jörðina og drepur alla menn og öll dýr, nema þau sem lifa af um borð í stórri tré örk. (1. Mós 7 og 8)
- Guð steig niður af himni til að skoða borg og turn sem mennirnir höfðu gert. Í framhaldinu ruglar Guð tungumálum mannanna og dreifir þeim um jörðina. (1. Mós 11)
- Kona Lots leit um öxl og breyttist í saltstólpa. (1. Mós 19:26)
- Með því að skafa af trjágreinum börkinn, og láta greinarnar svo í vatnsrennur sauðfés, er hægt að láta ær eignast rílótt, sprekklótt og flekkótt lömb. (1. Mós 30:37-19)
- Stafur breytist í eiturslöngu, og svo aftur í staf. (2. Mós 4) Seinna breytast margir stafir í eiturslöngur, en ein þeirra borðaði allar hinar, og breyttist svo aftur í staf. (2. Mós 7:8-13)
- Allar ár og öll vötn í Egyptalandi breyttust í blóð. (2. Mós 7)
- Hérar voru jórturdýr. (3. Mós 6:11)
- Menn færa Guði eldfórnir, sláturfórnir, og brennifórnir. Lyktin stígur upp til Guðs og honum finnst lyktin af fórnunum góð. (Víða í 3. Mós og 4. Mós) Sumstaðar er talað um að menn færi Guði mat. Hvað skyldi Guð þurfa margar hitaeiningar á dag? (3. Mós 21:16-24. " Hafi einhver niðja þinna, nú eða í komandi kynslóðum, lýti á sér, þá skal hann eigi ganga fram til þess að bera fram mat Guðs síns. ... eigi skal hann koma fram til þess að bera fram mat Guðs síns.")
- Ef að karlmenn grunuðu konur sínar um að hafa haldið fram hjá sér, áttu þær að drekka drullumall af gólfinu, blandað vígðu vatni. Guð sá svo til þess að gera þær veikar, ef þær voru sekar. Ef þær voru hins vegar saklausar, varð þeim ekki meint af kokteilnum. Þannig var hægt að eyða óvissu eiginmannsins, og sekar konur fengu sanngjarna refsingu. (4. Mós 5:11-31)
- Jörðin opnaðist og gleypti ákveðið fólk sem var í uppreisn gegn Móse. Fólkið hrapaði lifandi niður til heljar, ásamt öllum sínum eignum og húsum. (4. Mós 16:31)
- Asni talaði við mann sem hét Bíleam og spyr afhverju Bíleam berji sig. Í stað þess að verða forviða af undrun yfir hinum talandi asna, svarar Bíleam spurningu asnans eins og ekkert óðeðlilegt hafi gerst og segir: Þú gerir gys að mér. Hefði ég sverð í hendi mundi ég drepa þig, og asninn svarar auðvitað fyrir sig: Er ég ekki þín asna sem þú hefur riðið alla ævi þar til nú? Hef ég haft það fyrir vana að fara þannig með þig? (4.Mós 22:28-30)
- Konungur nokkur að nafni Óg var risastór, enda kominn af risum. Rúm hans var úr járni, 4,5 metrar að lengd, og tveir metrar að breidd. (5. Mós 3:11)
- Guð kastar sjálfur stórum steinum af himni ofan niður á óvini Hebreanna (Jós 10:11. Þetta sést því miður ekki mjög vel í 1981 þýðingunni, en er skýrt í hebreska textanum, nýju þýðingunni, og þeim erlendu þýðingum sem ég hef skoðað.)
- Sólin stöðvaðist á ferð sinni yfir himininn, og stóð kyrr fyrir ofan stað sem hét Gíbeon, til þess að Hebrear fengju næga birtu til að slátra óvinum sínum. (Jós 10:13 skemmtilegt er að hafa pistilinn minn Ó þú flata jörð í huga varðandi þessar sögur í 10 kafla Jósúabókar.)
- Drottinn var með Júdamönnum og hjálpaði þeim að berjast til sigurs gegn óvinum sínum. Það dugði þó ekki til gegn íbúum sléttlendisins, þar sem þeir áttu járnvagna. (Dóm 1:19)
- Jael, kona Hebers, þreif tjaldhæl og tók hamar í hönd sér og gekk hljóðlega inn til Sísera sem fallinn var í fastasvefn því að hann var þreyttur. Hún rak hælinn gegnum gagnauga hans svo að hann gekk í jörð niður. Varð þetta hans bani. (Dóm 4:17) Eitthvað þekkir maður þennann stíl úr Íslendingasögunum.
- Maður drap þúsund manns með einn asnakjálka (bein) að vopni. (Dóm 15:15-17)
- Guð berst við eldspúandi sæskrímsli (Job 41)
- Maður er gleyptur af stórum fiski, og er í maga hans í þrjá daga og þrjár nætur, en lifir það af, og kemur sprelllifandi og hress úr maganum. (Jónas 2)
- Axarhöfuð flaut á vatni. (1. Kon 6)
- Salómon átti 700 eiginkonur (allar konungbornar), og 300 hjákonur. Ef að konurnar hans Salómons hefðu komið í þáttinn hans Dr. Phil, hefði Phil spurt: Can yall get him to do anything? (1. Kon 11:3)
- Golíat var fjórir metrar að hæð, og hefði smell passað í rúm Ógs frænda síns. (1. Sam 17:4)
- Maður að nafni Absolon var myndarlegasti maður í Ísrael, og lét reglulega raka af sér hárið. Ekki veitti af, því það gat vegið allt að 2,5 kíló og verið honum til trafala. (2. Sam 14:25-26)
- Maðurinn Gat var risastór, og af risa ættum. Hann hafði 12 fingur og tólf tær. (2. Sam 21:20) Bróðir minn fæddist með 11 fingur, þannig að ef ég væri ekki fremur lágvaxinn, myndi ég ætla að ég væri eitthvað skyldur þessum Gat
- Guð, eða Djöfullinn, fær Davíð til að taka manntal. Guð drepur svo 70.000 gyðinga í refsingarskyni fyrir manntalið, þar sem það var synd að telja fólk. Einhverjir myndu halda að Guð hafi með þessu brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna. (2. Sam 24. 1. Kron 21)
- Guð berst við sæskrímsli sem heitir Levjatan. (Sálmur 74:13-14)
- Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna. (Sálmur 82:1)
- Guð blístrar á flugur, og rakar bæði höfuðhár, skaphár og skegg, með leigðum rakhníf. (Jes 7:18,20) - (Þetta er eitthvað táknmál hjá Jesaja spámanni)
- Sólin bakkaði afturábak á ferð sinni yfir himininn. (Jes 38:8)
- Guð banar skrímsli og dreka. (Jesaja 51:9)
- Þegar Guð úthellti sinni brennandi reiði yfir Síon suðu konur sín eigin börn sér til matar. (Harm 4:10-11)
- Guð gaf lýðnum óholl boðorð og lög sem leiddu til ólífis og lét fólk brenna frumburði sína í eldi. Þetta gerði hann til þess að fólki mætti ofbjóða og gera sér grein fyrir því að Guð sé Drottinn. (Es 20:25-26)
- Dalbotn nokkur var þakinn dauðra manna beinum, sem Guð þakti holdi og reisti upp frá dauðum og úr varð geysifjölmennur her. (Es 37:1-10)
- Guð fer í vont skap og segir prestunum að ef þeir hlýði ekki, muni hann strá saur framan í þá, og höggva af þeim höndina. (Mal 2:3) Þetta er kannski ekki svo skrítið. Það er vel þekkt að prestar eru oft til vandræða.
- Stjarna á himnum getur vísað mönnum veginn að ákveðnu þorpi, og leitt menn að ákveðnu húsi. (Jólaguðspajllið)
- Fjöldi löngu dáinna manna reis upp frá dauðum í Jerúsalem, og örkuðu um götur bæjarins og birtust mörgum. (Matt 27:50-53)
Já, veröldin nú orðið er eitthvað hálf lítilfjörleg, grá og hversdagsleg, samanborið við heim Biblíunnar.
Trúmál og siðferði | Breytt 22.3.2008 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
28.1.2008 | 20:42
Snilld í Jobsbók
Mikið er um ljóð í hebresku Biblíunni og ég hef séð því haldið fram að um þriðjungur hennar sé í bundnu máli. Hebresk ljóðagerð var mjög ólík þeirri ljóðagerð sem við þekkjum best í dag. Hebrear beittu t.d. mikið parallellisma", en ég veit ekki hvernig best er að þýða það hugtak yfir á íslensku. Þetta felur í sér að eitthvað er í raun sagt tvisvar. Það sem er sagt er speglað aftur með öðrum orðum, ef svo má segja. Hér kemur dæmi, þar sem speglunin" er höfð skáletruð. Þetta er úr 1. Mósebók 4:23. Nauðsynlegt er að hafa í huga að Ada og Silla voru konur Lameks:
Ada og Silla, heyrið orð mín, konur Lameks, gefið gaum ræðu minni! Mann drep ég fyrir hvert mitt sár og ungmenni fyrir hverja þá skeinu, sem ég fæ."
Hér er annað dæmi úr Orðskvið 3:1 þar sem um augljósa speglun" er að ræða:
Son minn, gleym eigi kenning minni, og hjarta þitt varðveiti boðorð mín,"
Oft fara fín atriði framhjá fólki sem ekki áttar sig á þessari ljóðatækni hebreanna. Skoðum t.d. Sálm 40:9:
Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér"
Hér er um speglun að ræða. Lögmál Guðs er innra með sálmaskáldinu, og þess vegna er það yndi hans að gera vilja Guðs. Þetta er eitt og hið sama. Það að hafa yndi af því að gjöra vilja Guðs og hafa lögmálið innra með sér er sami hluturinn.
En þetta var eiginlega ekki það sem ég ætlaði að tala um í þessari færslu. Mig langaði að benda á afar áhugaverð vers sem eru í Jobsbók. Forn-hebrearnir notuðu ekki rím í ljóðum sínum, en það var ekki þekkt ljóðlistar form á þeirra stað og stund. Höfundur Jobsbókar var frjór og snjall höfundur og honum datt þrátt fyrir allt í hug að nota rím í 10. kafla Jobsbókar. Í Job 10:8-11 stendur eftirfarandi:
Hendur þínar hafa skapað mig og myndað mig, allan í krók og kring, og samt ætlar þú að tortíma mér? Minnstu þó þess, að þú myndaðir mig sem leir, og nú vilt þú aftur gjöra mig að dufti. Hefir þú ekki hellt mér sem mjólk og hleypt mig sem ost? Hörundi og holdi klæddir þú mig og ófst mig saman úr beinum og sinum."
En hvernig skildi þetta hljóma á hebresku? Það er ekki hægt að hljóðrita þetta vel með íslenskum stöfum, en ég myndi slumpa á það einhverveginn svona:
Jadekha ítsvaúní, vajaasúní
Jahad savív, vatevaleeiní
Tsekhor-na kí-khakhómer asítaní
Ve-el afar teshíveiní
Haló khehalav thatíkheiní
Ve khagevínah takpíeiní
Ór úvasar talbísheiní
Úvatsamót vegídím teshókhekheiní
Margt í þessari hljóðritun er ónákvæmt. Einkum kh" hljóðin sem eru borin fram talsvert mikið öðruvísi en íslensku stafirnir gefa til kynna, en mér datt ekkert betra í hug. Þess ber þó að geta að enginn veit nákvæmlega hvernig hebreska var borin fram á þessum tíma. Rímið er hins vegar augljóst samt sem áður! Höfundur Jobsbókar var að mínu mati mikill snillingur og listamaður.
Trúmál og siðferði | Breytt 29.1.2008 kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
23.1.2008 | 08:59
Allir geta gert mannleg mistök
Allir geta gert mannleg mistök. Meira að segja Jesús gat gert þau, ef marka má frásögn Markúsarguðspjalls af lífi hans! Í 2. kafla Markúsarguðspjalls segir meðal annars frá því þegar Jesús og menn hans tíndu kornöx á hvíldardegi. Farísearnir gagnrýndu Jesú fyrir að brjóta hvíldardagsboðorðið, og Jesús svaraði með þessum orðum:
"Hafið þér aldrei lesið, hvað Davíð gjörði, er honum lá á, þegar hann hungraði og menn hans? Hann fór inn í Guðs hús, þegar Abíatar var æðsti prestur, og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum."
Hérna er Jesús (eða öllu heldur höfundur Markúsarguðspjalls) eitthvað að ruglast. Hann er að vísa til sögu sem er í 21. kafla Samúelsbókar (1. Sam 21:1-10). Í þeirri sögu þáði Davíð skoðunarbrauðin af Ahímelek æðstapresti, er Davíð og menn hans voru á flótta undan Sál. Ahímelek var æðstiprestur, en ekki Abíatar. Hér ruglar Jesús (höfundur Markúsarguðspjalls) saman nöfnum. Abíatar varð æðstiprestur síðar, og Davíð þurfti ekki að þyggja neitt brauð af honum. Davíð og menn hans átu engin skoðunarbrauð þegar Abíatar var æðsti prestur.
Þetta eru léttvæg mistök sem skipta engu máli, nema fyrir þá sem vilja halda því fram að Biblían sé óskeikul. Það er auðvelt að sýna fram á að Biblían sé skeikul. Þrátt fyrir það leggur fjöldi kristinna manna á sig ómælt erfiði til þess eins að verja auðhrekjanlega kenningu um að Biblían sé óskeikul.
Ef að ég væri kristinn, og ætlaði að stunda einhverja trúvörn, þá myndi ég nálgast málin öðruvísi. Ég myndi segja að það væri ónauðsynlegt fyrir kristindóm að hafa óskeikul trúarrit, og þanning myndi ég losna undan þeirri byrði að verja ýmsar óverjanlegar dogmatískar kenningar. Ég myndi benda á að frumkirkjan hafði fyrst í stað engar af bókum Nýja testamenntisins en dafnaði væntanlega alveg ágætlega engu að síður. Það skipti hana því varla nokkru máli hvort að bækur Nýja testamenntisins væru óskeikular eða skeikular, þær voru einfaldlega ekki til. Jóhannesarguðspjall varð t.d. ekki til fyrr en kirkjan hafði starfað í marga áratugi. Þetta er sú nálgun sem t.d. Craig A. Evans tekur í trúvarnarbók sinni "Fabricating Jesus".
Í skrifum krikjufeðranna er fyrst mögulega minnst á guðspjöllin á annarri öld, þegar að kirkjufaðirinn Justin Martyr talar um "endurminningar postulanna". Margir telja að hér sé Martyr að tala um guðspjöllin fjögur í Nýja testamenntinu. Það er t.d. fullyrt í hinni frægu bók "Case for Christ" eftir Lee Strobel. Ég er ekki viss um að Martyr sé að tala um hin fjögur guðspjöll sem rötuðu inn í Nýja testamenntið, þar sem t.d. hvorki Lúkas né Markús voru postular. En hver veit? Til eru tilvitnanir í Papías kirkjufaðir og biskup sem sagði í kringum árið 125 að ekki væri alveg hægt að treysta rituðum heimildum um Jesú, betra væri að taka munnmæla sögur trúanlegar. Papías átti ekki eitt einasta guðspjall sjálfur þó að fjórðungur væri liðinn af annarri öld eftir krist. Kenningin um óskeikulleika guðspjallanna (eða annarra bóka Nýja testamenntisins), getur því ekki hafa skipt kirkjuna miklu máli í árdaga. Ef ég væri trúvarnar maður myndi ég benda á þessa staðreynd, og hætta með öllu að reyna að sína fram á óskeikulleika Biblíunnar.
Margir kristnir menn líta Biblíuna raunsærri augum en "óskeikulleikasinnarnir". Þeir segja að hún sé að einhverju leyti innblásinn vitnisburður um Guð og Jesú, o.s.fr.v, en viðurkenna einnig samtímis að hún sé mannleg og skeikul. Menn geta svo deilt um það hvort þeir hafi rétt eða rangt fyrir sér hvað varðar innblásturinn, en þeir hafa amk alveg örugglega rétt fyrir sér hvað varðar síðari þáttinn. Biblían er mannleg og skeikul.
Trúmál og siðferði | Breytt 20.2.2008 kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
Um bloggið
Sindri Guðjónsson
Færsluflokkar
Tenglar
Biblían
Frábær og gagnleg heimasíða. Þarna er hægt að lesa bæði nýju þýðinguna, og hina gömlu góðu 1981 þýðingu.
- Hebrew - English Bible
- Biblían Frábær og gagnleg heimasíða. Þarna er hægt að lesa bæði nýju þýðinguna, og hina gömlu góðu 1981 þýðingu.
Bloggvinir
- lexkg
- andres
- alla
- bjolli
- geiragustsson
- gudnim
- godinn
- hjaltirunar
- jevbmaack
- prakkarinn
- rosaadalsteinsdottir
- sigurgeirorri
- nerdumdigitalis
- truryni
- styrmirh
- svanurmd
- stormsker
- vefritid
- postdoc
- fsfi
- axelpetur
- gattin
- brandarar
- eyglohjaltalin
- hleskogar
- ljonas
- andmenning
- kt
- durban2
- sviss
- hvala
- svenni
- nordurljos1
- vest1
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 2701
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar