17.1.2008 | 20:01
Af bókstafstrúarmönnum og fundamentalistum
Oft er enska orðið fundamentalist þýtt sem bókstafstrúarmaður. Hinir upprunalegu fundamentalistar voru hins vegar ekki bókstafstrúarmenn. Orðið var fyrst notað sem einskonar heiti eða gælunafn yfir ákveðinn hóp manna á þriðja áratug 20. aldarinnar. Orðið var nánar tiltekið notað um þá höfunda sem komu að útgáfu ritraðar eða bókar í 12. bindum sem hét The Fundamentals. Tilgangur hópsins var að verja klassíkan evangelískan kristindóm gegn frjálslyndari guðfræði stefnum sem þá voru í uppgangi. Þeir vildu verja 5 grundvallar kenningar (ss enska heitið fundamentals).
Þær voru:
1. Biblían er innblásin og villulaus
2. Meyfæðingin
3. Að Jesús hefði dáið fórnardauða fyrir syndir mannanna
4. Líkamleg upprisa Jesú Krists
5. Jesús gerði yfirnáttúruleg kraftaverk í þjónustu sinni
Þrátt fyrir að fundamentalistarnir hafi talið að Biblían væri villulaus, voru þeir ekki þeirra skoðunar að hana ætti alltaf að lesa bókstaflega. T.d. bendir ekkert til þess að neinn af upprunalegu fundamentalistunum hafi aðhyllst ungjarðar sköpunarhyggju. Ritstjórarar The Fundamentals voru þeir R. A. Torrey og A. C. Dixon. Torrey sagði m.a. að sá sem tryði því að jörðin hefði verið sköpuð bókstaflega á sex dögum væri haldinn vonlausir vanþekkingu (hopless ignorance). A. C. Dixon talaði gegn blindri tilviljunarkenndri þróun, en gat samþykkt darwíniska þróun með þeim fyrirvara að Guð hefði stýrt henni, eða svo ég vitni í æfisögu hans:
Dixon upheld the possibility that Darwinian evolution could find a place in the Bible, with God as the Evolver and evolution as his method of creation
Einhvertímann eftir daga Torreys og Dixons urðu arftakar þeirra fyrir áhrfium frá skrifum Aðventista um að jörðin væri ung og sköpunarsaga Biblíunnar bókstafleg sagnfræði ef svo má segja. Rekja má þessar skoðanir Aðventista meðal annars til sýna og vitranna sem Guð á að hafa sýnt Ellen G. White spákonu Aðventista varðandi sköpunarsöguna. Í dag aðhyllast flestir fundamentalistar, sem rekja rætur sínar til hinna upprunalega fundamentalista, ung jarðar sköpunarhyggju, en samkvæmt henni var Jörðin sköpuð á 6 dögum, fyrir innan við 10.000 árum. Þeir hafa gleymt að gömlu hetjurnar þeirra voru ekki sanntrúaðir sköpunarsinnar.
Um þetta allt saman má lesa í 7. kafla í trúvarnarbók sem ég las fyrir tæpum tveimur árum. Kaflinn heitir Genesis Through History, og bókin heitir Reason, Science and Faith. Hægt er að lesa hana á netinu, en hún nýtur sérstakra meðmæla Nicky Gumble, sem skrifaði Alfabækurnar og er höfundur og upphafsmaður Alfa námskeiðanna frægu. Höfundarnir eru í raun að mörgu leyti fundamentalistar af gamla skólanum. Einnig lifa þeir báðir í fullri sátt og friði við bæði 4,5 billjón ára jörð og þróunarkenninguna.
Bókin er hér: http://www.ivycottage.org/group/group.aspx?id=6826
Í dag hlustaði ég á upplestur úr bók eftir áðurnefndan R. A. Torrey á Lindinni. Bókin hefur verið þýdd yfir á íslensku af bókaforlaginu Vakningu og heitir Að biðja sem mér bæri. Hún fjallar einungis um bænina en ekkert um hluti á borð við aldur jarðar. Sumir hlustendur Lindarinnar yrðu eflaust hissa ef þeir vissu hvað Torrey hafði að segja um þá sem trúa á Biblíulega sköpun. Bókaforlagið Vakning sem þýddi bókina hefur gefið út smárit þar sem því er haldið fram að jörðin sé innan við 10.000 ára, sköpuð bókstaflega á sex dögum, og að menn og risaeðlur hafi lifað samtímis. Ef Torrey hafði rétt fyrir sér varðandi sköpun jarðarinnar, eru þeir í Vakningu haldnir vonlausri vanþekkingu.
Trúmál og siðferði | Breytt 18.1.2008 kl. 07:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.1.2008 | 09:20
Sá yðar sem syndlaus er...
Ein al flottasta sagan í Nýja testamenntinu (og Biblíunni í heild), er saga sem birtist í Jóhannesi 7:53-8:11. Þar koma farísearnir og fræðimennirnir með konu til Jesú, sem staðin hafði verið að verki við það að drýgja hór. Þeir spyrja hvort það eigi að grýta hana, eins og lögmálið segi. Þetta er til að leiða Jesú í gildru. Jesús er hins vegar bæði snjall og djúpvitur, og kemst hjá því að þurfa annaðhvort að sýna af sér harðneskjulekt miskunarleysi, eða ella brjóta lögmál Móse. Hann svaraði: Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum." Fræðimennirnir og farísearnir sáu auðvitað í hendi sér að þeir væru ekki syndlausir, og hurfu því á brott einn af öðrum.
Þessi saga, eins og hún er nú góð, var hins vegar nánast alveg örugglega ekki upprunalega í Jóhannesarguðspjalli. Henni var bætt við það einhvertímann talsvert löngu eftir að guðspjallið var komið í almenna umferð. Ástæðurnar eru eftirfarandi:
- - Þessi saga er aldrei í elstu og bestu handritum okkar af Jóhannesarguðspjalli.
- - Sagan er skrifuð á ólíkri grísku, með ólíkum orðaforað, og ólíkum stíl, en annað í Jóhannesargupspjalli.
Þó að sagan sé ekki í neinum af elstu og bestu handritunum byrjar hún að birtast hér og þar eftir að tíminn leið (byrjar að koma inn á miðöldum), en ekki alltaf á sama stað. Stundum var hún t.d. sett á eftir versi 25 í 21. kafla Jóhannesarguðspjalls, og stundum fyrir aftan 38 versið í 21. kafla í Lúkasarguðspjalls.
Erasmus sá um að gefa út fyrsta prentaða eintakið af Nýja testamenntinu á grísku. Hann byggði að mestu á handriti sem hann fann í Basel, og var frá 12. öld. Erasmus virtist ekki hafa vitað að grísk handrit af bókum Nýja testamenntisins eru mjög misjöfn, og það þarf að bera þau vel saman til þess að vega og meta hvað í þeim eru viðbætur og breytingar, og hvað ekki. Aðeins þannig er hægt að komast nálægt því að vita hvað var upprunalega skrifað í bækur Nýja testamenntisins. Það eru til um 5700 grísk handrit af bókum Nýja testamenntisins, og það eru á milli 200.000 - 300.000 tilfelli þar sem þeim greinir á, þó að ágreiningurinn sé næstum alltaf smávægilegur eins og t.d. mismunandi orðaröð. Stundum er þó verulegur munur á innihaldi og merkingu í handritunum.
Handritið sem Erasmus byggði á innihélt ýmislegt sem fræðimenn í dag vita með talsverðri vissu að hafi ekki verið upprunalega í bókum Nýja testamenntisins.
Þegar King James Biblían var gefin út árið 1611, var byggt á gríska textanum hans Erasmus, sem þá hafði verið aðeins lítillega lagaður. Þannig komst meðal annars þessi saga af konunni sem staðin var að verki við að drýgja hór, og ýmis önnur vers sem ekki voru upprunalega í bókum Biblíunnar, inn í King James Biblíuna. King James Biblían hefur síðan haft mikil áhrif á aðrar Biblíu þýðingar. Þó að söguna um konuna sem staðin var að verki við að drýgja hór vanti í elstu og bestu grísku handritin, þá var hún í 12. aldar handritinu hans Erasmus.
Trúmál og siðferði | Breytt 27.1.2008 kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.1.2008 | 14:50
Ó, þú flata jörð!
Ó, þú flata jörð!
Ég ætla hér að fjalla örlítið um heimsmynd Gamla testamentisins, og merkingu tveggja hebreskra orða: rakía (festingin) og tehóm (undirdjúpið). Höfundar Biblíunnar héldu að himininn (rakía) væri gerður úr föstu efni, og væri ofan á flatri jörðinni, eins og skál á hvolfi. Einnig töldu þeir að jörðin væri staðsett ofan á stóru djúpu hafi, sem hét tehóm á hebresku. Ég byggi að miklum hluta á greinum eftir Paul H. Seely sem ég vísa til neðst. Tvær þeirra birtust í hinu fremur íhaldssama kristna guðfræðiriti Westminster Theological Journal. Þessari umfjöllun er ekki ætlað að vera ítarleg eða nákvæm. Einungis er um smá kynningu á heimsmynd Biblíunnar að ræða.
Rakía
Í sköpunarsögu 1. kafla 1. Mósebókar, segir frá sköpun festingarinnar. Í versum 6 og 7 segir:
6Guð sagði: "Verði festing milli vatnanna, og hún greini vötn frá vötnum." 7Þá gjörði Guð festinguna og greindi vötnin, sem voru undir festingunni, frá þeim vötnum, sem voru yfir henni. Og það varð svo.
Og í 8. versi stendur: "Og Guð kallaði festinguna himin".
Hebreska orðið rakía er hér þýtt sem festing. Samkvæmt hebreskum orðabókum er þetta orð notað yfir himin úr föstu efni, sem var talinn vera ofan á jörðinni (sem var flöt) eins og skál á hvolfi sem huldi jörðina eins og stór hvelfing, sem haldið var uppi með stoðum (Job 26:11 nefnir t.d. stoðir himins). Til eru heimildir um vangaveltur gyðinga um það úr hvaða efni himna festingin væri nákvæmlega gerð, og voru þá einkum þrjú efni sem menn nefndu sem möguleg byggingarefni himinsins: kopar, járn eða leir. Hin náskylda sögn raka" er notuð í 2. Mósebók 39:3 um það að berja gull í þunnar plötur, og gefur til kynna að rakía merki eitthvað sem hefur verið mótað og barið til.
E. J. Young, sem var að mörgu leyti framúrskarandi guðfræðingur, og íhaldssamur trúmaður sem taldi Biblíuna óskeikula, skilgreindi rakía svo í bók sinni "Studies in Genesis One": "That which is hammered, beaten out"
Í ljósi þess að við vitum nú hvernig Hebrearnir sáu fyrir sér himininn, er athyglisvert að skoða ýmis vers, og hér nefni ég aðeins örfá af mörgum áhugaverðum:
Í 1. Mósebók 1:14-17 festir Guð stjörnurnar, tunglið og sólina í festinguna (rakía).
Í 1. Mósebók 1:20 sést að fuglarnir fljúga undir himninum. Það ætti að gefa auga leið. Þeir geta auðvitað ekki flogið í himninum sjálfum, þar sem hann er úr föstu efni.
Í 1. Mós 7:11 sést svo hvernig guð opnaði flóðgáttir himinsins, til að vatnið sem var ofan á himninum gæti fallið niður á jörðina í Nóaflóðinu. Hægt er að sjá fyrir sér að hann opni flóðgáttirnar líkt og glugga. Við þurfum svo að muna að samkvæmt 1. Mós 1:7 var mikið vatn ofan á festingunni. Að auki segir Sálmur 148:4: Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum." Í 1. Mós 8:2 er svo flógáttunum lokað, og þá hættir að rigna.
Í Jobsbók 37:18 stendur að himininn sé fastur eins og steyptur spegill.
Í Amos 9:2 segir: þótt þeir stígi upp til himins, þá skal ég steypa þeim ofan þaðan." Hér kemur fram sú hugsun að himininn sé ofan á jörðinni - og hugsanlega geti menn komist þangað upp - það var reyndar trú fólks um allan heim áður en raunvísindin komu mönnum í skilning um hið raunverulega eðli himinsins" að menn gætu klifrað uppá himnahveflinguna. Seely rekur þetta atriði í einni af greinunum sem ég vísa í hér neðst.
Einnig verða vers eins og Jesaja 40:22 skemmtileg þegar maður hefur heimsmynd Hebreanna í huga: Það er hann, sem situr hátt yfir jarðarkringlunni, og þeir, sem á henni búa, eru sem engisprettur. Það er hann, sem þenur út himininn eins og þunna voð og slær honum sundur eins og tjaldi til þess að búa í."
Að lokum skulum við kíkja á Orðskvið 8:27-28, en þar er líka talað um hafdjúpið, sem er viðfangsefni seinni hluta þessa pistils: Þegar hann gjörði himininn, þá var ég þar, þegar hann setti hvelfinguna yfir hafdjúpið, þegar hann festi skýin uppi, þegar uppsprettur hafdjúpsins komust í skorður"
Tehóm
Þá er komið að umfjölluninni um tehóm. Hér byrjum við í 1. Mósebók 1:2, en þar segir: Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum."
Hebreska orðið theóm er hér þýtt sem djúpið". Hebrearnir trúðu því að jörðin (sem var talin flöt) væri staðsett ofan á djúpu hafi, sem var bæði undir henni, og í kringum hana. Hún var svo studd með stöplum til þess að hún sykki ekki. Djúpa hafið undir jörðinni hét tehóm. Nánari vitneskju um orðið er hægt að finna í greininni sem ég vísa til hér að neðan um það efni.
Við skulum bara vinda okkar beint í það hvernig þessi hugmynd birtist víða í Biblíunni.
Í Nóaflóðinu þá opnaði Guð uppsprettur hins mikla undirdjúps (theóm), og flæddi þaðan vatnið upp á jörðina - og ekki hætti flóðið fyrr en Guð hafði lokað uppsprettunum sjá, 1. Mós 7:11 og 8:2.
Í Sálmi 24:1-2 stendur: "Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa. Því að hann hefir grundvallað hana á hafinu og fest hana á vötnunum."
Í Sálmi 136:6 er Guði sem breiddi jörðina út á vötnunum" sungið lof.
Í 1. Mós 49:24-25 stendur: Sá styrkur kom frá Jakobs Volduga, frá Hirðinum, Hellubjargi Ísraels, frá Guði föður þíns, sem mun hjálpa þér, frá Almáttugum Guði, sem mun blessa þig með blessun himinsins að ofan, með blessun djúpsins (tehóm), er undir hvílir, með blessun brjósta og móðurlífs."
5. Mós 33:11: Um Jósef sagði hann: Blessað af Drottni er land hans með himinsins dýrmætustu gjöf, dögginni, og með djúpinu (tehóm), er undir hvílir"
Einhver fleiri dæmi er hægt að týna til, en ég læt þetta duga í bili.
Lokaorð
Margar heimildir sýna að fólk um allan heim taldi himininn vera úr föstu efni, þar til vísindum fór að fleyta fram. Afskekktir þjóðflokkar sem enn eru ekki undir áhrifum nútíma raunvísinda eru enn þessarar skoðunar. Þetta rekur Paul H. Seely ítarlega í greinunum sem ég styðst við.
Hebrear höfðu sömu sín á heiminn og samtímamenn þeirra. Hvernig áttu þeir að vita betur en aðrir? Ekkert bendir til þess að þeir hafi verið afburðamenn í raunvísindum, þó að þeir hafi vissulega verið framúrskarandi bókmenntaþjóð.
Það er í sjálfu sér engin ástæða til að gerast trúleysingi af þeim sökum einum að Biblían segi að jörðin sé flöt, og sé staðsett ofan á djúpu hafi, og himinin sé hvelfing úr föstu efni. Margir mjög trúaðir menn úr röðum gyðinga og kristinna manna, gera sér vel grein fyrir þessu. Það er hins vegar alveg ljóst að Biblíuna ber ekki að nota sem raunvísinda kennslubók. Andstaða við viðteknar staðreyndir á sviðum líffræði og jarðfræði, á grundvelli þess sem Biblían kann að virðast segja um þau mál, er fráleit.
----
Hér er hægt að finna greinarnar, en þar er miklu ítarlegri og betri umfjöllun:
The Geographical meaning of "earth and "seas" in Genesis 1:10 http://faculty.gordon.edu/hu/bi/Ted_Hildebrandt/OTeSources/01-Genesis/Text/Articles-Books/Seely_EarthSeas_WTJ.pdf
The Firmament and the water above http://faculty.gordon.edu/hu/bi/Ted_Hildebrandt/OTeSources/01-Genesis/Text/Articles-Books/Seely-Firmament-WTJ.pdf
The Firmament and the water above part II (Þessi grein fjallar sérstaklega um kenningar sköpunarvísindamanna um þetta efni). http://www.thedivinecouncil.com/seelypt2.pdf
Trúmál og siðferði | Breytt 20.2.2008 kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.1.2008 | 16:28
Lýst er eftir týndum Biblíuversum
Matteus 27:9 segir: Þá rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns: "Þeir tóku silfurpeningana þrjátíu, það verð, sem sá var metinn á, er til verðs var lagður af Ísraels sonum"
- Hvar stendur þetta í spádómsbók Jeremía? Svar: hvergi. Höfundur Matteusarguðspjalls er eitthvað að ruglast. Nánar tiltekið ruglar hann saman Jeremía og Sakaría, þar sem Sakaría 11:12-13 segir eitthvað í líkingu við það sem höfundur Matteusar segir að Jeremía hafi sagt.
Matteus 2:23 segir: Þar settist hann að í borg, sem heitir Nasaret, en það átti að rætast, sem sagt var fyrir munn spámannanna: "Nasarei skal hann kallast."
- Hvar er þennan spádóm spámannanna sem Matteus er að vísa til að finna? Svar: hvergi. Höfundur Matteusarguðspjalls er eitthvað að steypa.
Markús 1:2 segir: "Svo er ritað hjá Jesaja spámanni: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn."
- Hvar stendur þetta hjá Jesaja spámanni? Svar: hvergi. Höfundur Markúsarguðspjalls hefur eitthvað fipast. Hann ruglar saman Jesaja og Malakí, sjá Malkí 3:1
Þetta er eitthvað dularfullt
Höfundar guðspjallanna rugluðust oft þegar þeir vitnuðu í spámennina, fundu stundum upp spádómana jafn óðum og þeir þurftu á þeim að halda, og stundum beittu þeir afar frjálslegri og samhengislausri túlkun, auk þess sem Biblía þeirra var allt öðruvísi en "Gamla testamenntið" okkar.
Sem dæmi um samhengislausa og "frjálsa" túlkun höfundar Matteusarguðspjalls, er þegar hann vísar til spádóms í 7 kafla Jesajabókar um Immanúel, og segir að um sé að ræða spádóm um fæðingu Jesú Krists. Spádómnum er beint til Akasar, þáverandi Júda konungs, og honum sagt að þegar Immanúel fæðist, þá sé það til marks um að bráðum verði lönd tveggja óvina hans að auðn, eða áður en Immanúel yrði nógu gamall til að þekkja muninn á góðu og illu. Akasa óttaðist einmitt innrás þessara tveggja óvina sinna í Jerúsalem. Immanúel hefur ekki mikið með Jesú að gera.
Trúmál og siðferði | Breytt 20.2.2008 kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.1.2008 | 21:20
Skítugu stelpurnar
Samkvæmt 3. Mósebók 12:1-5 verða konur sem fæða börn andlega óhreinar og mega ekki koma í musteri Drottins.
Nýfæddar stúlkur eru augljóslega mun sóðalegri en drengir. Kona sem eignast dreng, telst óhrein í viku, og má ekkert heilagt snerta eða inn í helgidóminn koma fyrr en eftir 33 hreinsunardaga. Kona sem eignast stúlku telst hinsvegar óhrein í hálfan mánuð, og þarf 66 hreinsunardaga.
Svo mörg voru þau orð. Ég skrifa eitthvað meira seinna.
Trúmál og siðferði | Breytt 20.2.2008 kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sindri Guðjónsson
Færsluflokkar
Tenglar
Biblían
Frábær og gagnleg heimasíða. Þarna er hægt að lesa bæði nýju þýðinguna, og hina gömlu góðu 1981 þýðingu.
- Hebrew - English Bible
- Biblían Frábær og gagnleg heimasíða. Þarna er hægt að lesa bæði nýju þýðinguna, og hina gömlu góðu 1981 þýðingu.
Bloggvinir
- lexkg
- andres
- alla
- bjolli
- geiragustsson
- gudnim
- godinn
- hjaltirunar
- jevbmaack
- prakkarinn
- rosaadalsteinsdottir
- sigurgeirorri
- nerdumdigitalis
- truryni
- styrmirh
- svanurmd
- stormsker
- vefritid
- postdoc
- fsfi
- axelpetur
- gattin
- brandarar
- eyglohjaltalin
- hleskogar
- ljonas
- andmenning
- kt
- durban2
- sviss
- hvala
- svenni
- nordurljos1
- vest1
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar