Hvað hét fósturafi Jesúsar?

Pabbi Jósefs, fóstur föður Jesúsar, hét Elí, skv Lúkasi 3:23. Pabbi sama Jósefs hét Jakob, skv Matteusi 1:16. Heimildum ber því ekki saman um það hver hafi verið fósturafi Jesúsar (sjá viðauka neðst). Ætla ég hafa þetta sem inngangsorð þessarar stuttu umfjöllunar um ættartöluna í Matteusarguðspjalli.

Ættartölurnar í Matteusi og Lúkasi eru í hrópandi mótsögn hvor við aðra. Auk þess stemma þær ekki vel við ættartölurnar í Gamla testamenntinu. Ég braut mikið heilann yfir þessu áður fyrr. Hvernig gat ég látið þetta allt saman ganga upp? Ég man að ég aðhylltist á tímabili kenningu um að göt væru í ættartölunum, sem væru alveg eðlileg miðað við hebreska málnotkun, þar sem ekki hafi verið gerður greinarmunur á föður og forföður. Þegar sagt væri að þessi hafi getið hinn, gat það þýtt að einungis væri um forföður væri að ræða, en ekki endilega beinlínis föður. Með þessu móti var hægt að útskýra muninn á ættartölunum með þeim hætti að höfundar þeirra hefðu kosið að nota mismunandi lista yfir forfeður, en báðar ættartölurnar væru engu að síður réttar. Þessi hæpna kenning er hins vegar byggð á sandi. Matteus segir t.d.

Þannig eru alls fjórtán ættliðir frá Abraham til Davíðs, fjórtán ættliðir frá Davíð fram að útlegðinni í Babýlon og fjórtán ættliðir frá útlegðinni til Krists.

Matteus segir hér í raun berum orðum að það séu ekki göt í ættartölunni hans. Hann nefnir 14 menn frá Abraham til Davíðs, og segir þá vera 14 ættliði, o.s.frv. Auk þess hef ég ekki orðið var við merkileg málfræðileg rök sem styðja það að ef Abía hafi getið Asaf, þá þýði það að mögulega sé hann langa afi hans, eða eitthvað álíka.

Matteus (öllu heldur höfundur Matteusarguðspjalls, sem er nafnlaust Guðspjall) virðist vera að segja að á 14 kynslóða fresti gerist eitthvað mjög markvert í sögu gyðinga. Í fyrsta lagi fæðing Davíðs, merkasta konungs gyðinga, 14 kynslóðum eftir að Abraham fæddist, í öðru lagi herleiðingin, mestu hörmungar gyðinganna, 14 ættliðum síðar, og að lokum fæðing Krists 14 ættliðum frá herleiðingunni. Þetta hljómar eiginlega of gott til að vera satt. Það er eins og Matteus sé að reyna að sanna að eitthvað mjög sögulegt og markvert á borð við fæðingu sonar Guðs, Messíasar gyðininga, hljóti bara að hafa gerst, það hafi verið kominn tími á það.

Matteus þarf að fara út í smá hundakúnstir til að komast að þeirri niðurstöðu að Jesús hafi fæðst 14 ættliðum eftir herleiðinguna. Einnig til að fá það út að 14 ættliðir skilji á milli herleiðingarinnar og Davíðs, og að svo séu 14 ættliðir milli Davíðs og Abrahams. Séu ættartölurnar í hebresku Biblíunni skoðaðar, sést að Matteus hefur þurft að stytta þær og fækka forfeðrunum, til þess að fá akkúrat 14 stykki í hvert af þessum þremur bilum. Sem dæmi tek ég 8 versið í 1. kafla Matteusar. Þar segir að Asaf hafi getið Jósafat, og Jósafat hafi getið Jóram, Jóram getið Ússía og Ússía getið Jótam sem gat Akas. Í 3. kaflaí 1. kroníkubók kemur fram að Asa hafi getið Jósafat, og Jósafat getið Jóram, Jóram getið Ússía, en Ússía var hins vegar langa afi Jótams, sem gat Akas. Matteus kyppti því hér út þremur ættliðum úr ættartölunni, þeim Jóasi, Amasía, og Asaría, til þess að ættliðirnir verði 14 á milli Davíðs konungs og til herleiðingarinnar.

Annað athyglisvert dæmi er að Matteus segir að Jekonja, sonur Jósía, sonur Amosar, sonur Manasse, sonur Esekía, sé forfaðir Jesúsar (óbeint auðvitað í gegnum fósturföðurinn Jósef). Skv Kroníkubók er þesi Jekonja, sonur Jójakíms, sonur Jósía, sonur Amónar sonur Manasse. Einn ættliður (Jójakím) hefur því dottið út hér hjá Matteusi. Það að Matteusi telji að Jekonja sé sonur afa síns, er ekki það sem er merkilegast varðandi veru hans í ættartölunni. Það sem er öllu athyglisverðara er að Jeremía spámaður segir í 22. kafla, versi 30, um Jekonja:

Svo segir Drottinn:
Skráið þennan mann barnlausan,
mann sem ekkert hefur orðið úr
því að engum niðja hans
mun takast að setjast í hásæti Davíðs
og ríkja framar yfir Júda.

Það er hálf sérstakt að þessi maður, skráður sem barnlaus, sem ekki skuli eiga niðja sem setjast munu í hásæti Davíðs, skuli vera talinn upp í hópi forfeðra frelsarans í ættartölu Jesú Krists.

Viðauki.

Matteus 1:16: Jakob gat Jósef mann Maríu.

Lúkas 3:23: Var hann, eftir því sem haldið var, sonur Jósefs, sonar Elí. 

Ættartölurnar í Matteusi og Lúkasi eru meira og minna ger ólíkar, eins og áður segir. Þeim greinir ekki aðeins á um það hver hafi verið faðir Jósefs, heldur líku um það hver hafi verið afi hans, langa afi, langa langa afi, o.s.frv., alveg aftur til Davíðs konungs. Sumir kristnir hafa reynt að útskýra þennan mismun með því að segja að önnur ættartalan, sé ættartala Jesú, í gegnum Jósef, en hin í gegnum Maríu. Það er hins vegar einkennilegt, langsótt, og hæpið, þar sem bæði Lúkas og Matteus segjast vera að rekja ættir Jósefs, sbr Matteus 1:16, og Lúkas 3:23.

Þrátt fyrir að Matteus segi að það séu 14 ættliðir frá herleiðingunni til Krists, nefnir hann einungis 13 (gerir einhver mistök í talningunni).

Ég mun bæta við einu mjög mikilvægu atriði sem tengist ættartölunni í Matteusi í færslu á morgun.


 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er alls ekki svo hæpið og langsótt að Lúkas hafi verið að rekja ættartöluna út frá Maríu. Lúkas var greinilega heillaður af Maríu og leggur mun meiri áherslu á hana en aðrir í sínum guðspjöllum. Hann rétt minnist á Jósef eins og fyrir kurteisissakir en greinir frá allri sögunni frá hlið Maríu, hennar opinberanir o.fl. Matteus afturámóti greinir miklu frekar frá hlið Jósefs á málinu öllu.

Það var ekki hefð fyrir því að rekja ættartölurnar frá konunum í þessu karlasamfélagi og talaði hann því um Jesú son Jósefs og sonar Elí sem var reyndar móðurafi hans. Þess vegna eru ættartölurnar ólíkar.

Heiðrún (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 00:36

2 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Nema að Lúkas segir að Jósef sé sonur Elí, ekki tengdasonur. Hvaðan hefur þú það að Elí hafi verið móður afi Jesúsar? Hvað finnst þér annars um "14" talnaleikinn hans Matteusar?

Sindri Guðjónsson, 9.6.2008 kl. 00:43

3 identicon

Það hefur held ég alltaf verið hin kristna túlkun að Elí hafi verið faðir Maríu. Ættartölurnar eru greinilega að rekja tvær mismunandi ættir niður til Davíðs konungs og ef önnur var að rekja ætt pabba hans þá er bara ein ætt eftir sem kemur til greina er það ekki. Það þótti mikilvægt að hægt væri að rekja ættir Jesú löglega niður í gegnum Jósef fósturföður sinn til að sýna fram á að hann ætti rétt á hásæti Davíðs og svo að sýna fram á að hann væri einnig blóðskyldur Davíð í hinni ættinni.

En þú tekur eftir að í byrjun ættartölu Matteusar þá er kynnt ættartala Jesú Krists, sonar Davíðs, sonar Abrahams og svo byrjar ættartalan á: Abraham gat Ísak o.s.frv. og hún er rakin niður til Jósefs og svo Jesú. Lúkas byrjar á hinum endanum. Þ.e. hann byrjar á Jesú og rekur ættir hans niður til Adams og svo loks til Guðs. Og þar sem ættartölur gera bara ráð fyrir karlmönnum í heiminum þá er Jesú kenndur við föður sinn Jósef í báðum ættartölum sínum, jafnvel móður sinnar megin. Hann er ekki sagður vera sonur Maríu, dóttur Elí, sonar Mattats. Guð minn góður, karlaveldið hefði þá fyrst fengið flog ef konunafni hefið verið bætt inn í hefðbundnar ættartölur. Nei hann var sko sonur Jósefs, sonur Elí ........

Það er athyglisvert sem þú segir um 14 talnaleikinn og spurning hvort einhverju hafi verið fiffað til svo að þetta liti flottara út.

En veistu annars hvort að orðið tengdasonur og tengdadóttir hafi verið notað á þessum árum í Ísrael? Því að jafnvel í nútímanum er það svoleiðis í sumum löndum að þegar þú giftist inn í fjölskyldu verðuru bara sonur en ekki tengdasonur.  Jesú var þá sonur Jósefs, tengdasonar Elí, sonar Mattas. En sem sagt voru börn alltaf kennd fyrst og fremst við föður sinn Sindri sonur Guðjóns, hvað heitir annars mamma þín

Heiðrún (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 01:18

4 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Heiðrún sagði: "Það hefur held ég alltaf verið hin kristna túlkun að Elí hafi verið faðir Maríu."

Hversu langt aftur í tímann er hægt að rekja þessa kristnu túlkun? Kannski síðan menn áttuðu sig á mismuninum og byrjuðu að reyna að samræma? Miðaldarkirkjan? (ég veit það ekki sjálfur, er að spyrja :-) ) Það er annars ekki allt rétt, þótt að það hafi verið hins sögulega kristna túlkun. Það var t.d. alltaf hin kristna túlkun að þeir sem yrðu hólpnir fengju að njóta þess að fylgjast með þeim sem voru í helvíti hveljast á meðan þeir væru sjálfir á himnum, sbr

"In order that the happiness of the saints will be more delightful ...
they are permitted perfectly to behold the sufferings of the damned.
... The saints will rejoice in the punishment of the damned ... which
will fill them with joy."
--St. Thomas Aquinas

Heiðrún sagðir: "Það þótti mikilvægt að hægt væri að rekja ættir Jesú löglega niður í gegnum Jósef fósturföður sinn til að sýna fram á að hann ætti rétt á hásæti Davíðs".

Já, en Jósef er afkomandi Jekonja, og skv Jeremía 30:22 átti enginn af hans afkomendum nokkurntímann rétt á að sitja í hásæti Davíðs. Jesús átti því ekki löglegan rétt á hásæti Davíðs, sé ættartalan í Matteusi rétt. (Svo var Jesús líka Móabíti í gegnum Rut, sbr færslu hér að ofan. Davíð var svo náskyldur Móabíta að hann átti ekki einu sinni rétt á að tilheyra söfnuði Drottins, skv skýrum orðum Guðs eins og haft er eftir honum í þremur bókum Biblíunnar)

Heiðrún sagði: "En þú tekur eftir að í byrjun ættartölu Matteusar þá er kynnt ættartala Jesú Krists, sonar Davíðs, sonar Abrahams og svo byrjar ættartalan á: Abraham gat Ísak o.s.frv. og hún er rakin niður til Jósefs og svo Jesú. Lúkas byrjar á hinum endanum. Þ.e. hann byrjar á Jesú og rekur ættir hans niður til Adams og svo loks til Guðs."

Lúkas rekur ættir Jesúsar alveg niður til Adams og Guðs, af því að hann leggur áherslu á að Jesús sé frelsari heimsins og alls mannkyns. Matteus leggur áherslu á að Jesús sé Messías Gyðinga. Þess vegna rekur hann ættir Jesúsar niður til Abrahams, föður Gyðingana.

Það er mögulegt (en mjög hæpið frá mínum bæjardyrum séð) að munurinn á ættartölunum liggi í því að önnur þeirra rekji ættir Maríu, og hin ættir Jósefs. Það er líklegri skýring að Lúkas og Matteus hafi haft mismunandi heimildir fyrir því hverra manna Jósef var, eða búið til mismunandi ættartölur sjálfir. Mismunurinn liggur ekki bara í hinum mismunandi nöfnum, heldur líka í því að hjá Matteusi eru 27 liðir frá Jesúsi til Davíðs, en hjá Lúkasi eru liðirnir 42! Sé ættartala Lúkasar ættartala Jesú í gegnum Maríu, er ljóst að forfeður Maríu fæddust þegar feður þeirra voru að meðaltali sirka 23 ára, en forfeður Jósefs, þegar feður þeirra vora sirka 37 ára! sem er ótrúlega hátt meðaltal út af fyrir sig, en sérstaklega í ljósi þess að lífs líkur manna á þessum árum voru miklum mun minni en í dag. Það er eitthvað sem er ekki alveg að ganga upp.

Sindri Guðjónsson, 9.6.2008 kl. 02:27

5 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Hversu líklegt er að 27 nýbakaðir feður séu að meðaltali tæplega fertugir?

Sindri Guðjónsson, 9.6.2008 kl. 02:29

6 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Að lokum. Ég veit ekki hvort að orðið tengdasonur og tengdadóttir hafi verið notað í Ísrael á þessum árum. Mér þætti gaman að vita hvort þessi orð hafi verið notuð í grísku. (ég kann næstum ekkert í grísku). Lúkas skrifar á grísku og virðist allir frekar grískur í hugsunarhætti, frekar en hebreskur.

Sindri Guðjónsson, 9.6.2008 kl. 02:31

7 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Já, úps, gleymdi. Mamma mín heitir Margrét!

Sindri Guðjónsson, 9.6.2008 kl. 02:33

8 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Það var ekki hefð fyrir því að rekja ættartölurnar frá konunum í þessu karlasamfélagi og talaði hann því um Jesú son Jósefs og sonar Elí sem var reyndar móðurafi hans. Þess vegna eru ættartölurnar ólíkar.

Í ættartölunni í Mt eru konur nefndar. Þannig að þessi útskýring gengur varla upp.

Það hefur held ég alltaf verið hin kristna túlkun að Elí hafi verið faðir Maríu.

Samkvæmt Wikipedíu, þá kom þessi túlkun fyrst fram á 15. öld, enda stendur Jósef, ekki María, í textanum.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 9.6.2008 kl. 16:00

9 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Hmm...eitthvað klúðruðust tilvitnanirnar prófum að skáletra tilvitnanirnar núna :)

Það var ekki hefð fyrir því að rekja ættartölurnar frá konunum í þessu karlasamfélagi og talaði hann því um Jesú son Jósefs og sonar Elí sem var reyndar móðurafi hans. Þess vegna eru ættartölurnar ólíkar.

Í ættartölunni í Mt eru konur nefndar. Þannig að þessi útskýring gengur varla upp.

Það hefur held ég alltaf verið hin kristna túlkun að Elí hafi verið faðir Maríu.

Samkvæmt Wikipedíu, þá kom þessi túlkun fyrst fram á 15. öld, enda stendur Jósef, ekki María, í textanum.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 9.6.2008 kl. 16:02

10 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Mjög góður punktur hjá Hjalta varðandi að konur séu nefndar í ættartölunni hjá Matteusi. Hví skyldi Lúkas ekki getað hafa gert hið sama? Skil ekki af hverju mér datt ekki í hug að benda á þetta sjálfur  (ég var meira að segja búinn að skrifa færslu um eina af konunum sem nefndar eru hjá Matteusi, Rut)

Athyglisvert að sjá að þessi túlkun kemur fram á 15. öld.

Sindri Guðjónsson, 9.6.2008 kl. 22:04

11 identicon

Sindri og Hjalti.

Mér finnst ykkar túlkun um að ættartölurnar séu bara uppspuni frá rótum vera ótrúlegri en hin burtséð frá trúverðugleika Biblíunnar. Þessir menn voru að reyna að sýna fram á ákveðna hluti með því að hafa þarna ættartölur og þið eruð ekki fyrstu hugsandi mennirnir í 2000 ár. Þannig að þeir hafa a.m.k. reynt að rekja ættir Jesú með sem trúverðugustum hætti en ekki bara bullað upp úr sér einhver nöfn. Það liggur bara í augum uppi að hvert barn hefur tvær ættartölur og þessar bækur koma fram með tvær ættartölur. Þessar bækur voru hafðar þarna af ákveðinni ástæðu. Það er ekki eins og kristnir menn hafi allt í einu fattað það 1500 árum seinna að þarna var um tvær ættartölur að ræða.

En svo er það auðvitað hvers og eins að ákveða með sér hversu trúverðugt þetta allt saman er.

Heiðrún (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 22:25

12 Smámynd: Sindri Guðjónsson

hmm... hver sagði að höfundar Matteusarguðspjalls og Lúkasarguðspjalls hefðu bullað þessar ættartölu upp frá rótum, og sett bara einhver nöfn? Þeir nota Biblíuna til að finna flest nöfnin. Mismunandi munnmælasögur af Jesúsi höfðu gengið í áratugi á mismunandi svæðum áður en þessi guðspjöll eru skrifuð af einhverjum, einhversstaðar, á grísku. Þeir hafa einfalldlega fengið mismunandi útgáfar af því hverra manna Jósef var (vegna mismunandi sagna) upp í hendurnar, og Matteus hefur alveg örugglega fiktað við þá ættartölu sem hann hafði í höndunum.

Fourteen equals two "weeks" of generations, and three two week periods (14 +14+14) equal six 'weeks' of pre-Christian generations in the royal line of Israel; thus, with Jesus begins the seventh, the 'sabbath' week of Jewish monarchical history--the kingdom, restored under Christ. Matthew included a genealogy not because he was really interested in the ancestry of Jesus--presumably he had the wits to grasp the pointlessness of tracing the genealogy of Joseph, who his own narrative denies is Jesus' father--but because he was interested in the pattern, the prophetic fulfillment.

Gospel Fictions, Randel Helms, bls 46-47

Það er engin ástæða til að halda að höfundarnir hafi ekki sett þessar ættartölur fram í góðri trú. Höfundur Lúkasar hefur örugglega talið sig fara rétt með, og Matteus hefur hugsanlega trúað því að ættartala Jesúsar hlyti að tengjast hinni heilögu tölu sjö með þeim hætti sem Helms bendir á, það þarf ekki að vera að Helms hafi rétt fyrir sér að höfundur Matteusar hafi ekki haft áhuga á því hverjir væru forfeður Jesúsar samt sem áður. En það er alveg á kristal tæru að ættartala Matteusar gengur ekki upp nema menn leggi á sig mikla vinnu til að útskýra öll "skringilegheitin". Hún stendur ekki sjálf.

Sindri Guðjónsson, 9.6.2008 kl. 23:28

13 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Guðspjöllin eru nafnlaus. Það kannast engin við að höfundar þeirra séu Matteus, Markús, Lúkas, og Jóhannes svo vitað sé, fyrr en árið 180, þegar Ireníus kirkjufaðir frá Lyon nefnir þá sem höfundana þeirra. Snemma á sömu öld höfðu þau fyrst mögulega verið nefnd í skrifum kirkjufeðra, nánar tiltekið hjá Justin Martyr, og þá kölluð „endurminningar postulanna". Lúkas og Markús voru reyndar ekki postular. Þar af leiðandi er ekki einu sinni víst að Martyr sé að tala um guðspjöllin "okkar". Eins og menn vita voru skrifuð tugir mismunandi guðspjalla á árunum sem „guðspjöllin okkar“ voru skrifuð (Pétursguðspjalls, Tómasarguðspjall og ýmis fleiri). Eusibius (263-339) segir reyndar að Papías kirkjufaðir hafi staðfest að Markús væri höfundur Markúsarguðspjalls í kringum árið 125. Annarsstaðar er það haft eftir Papíasi, að ekki væri hægt að treysta neinum rituðum heimildum um Jesú. Munnmælasögur væru áreiðanlegri en rituð guðspjöll.

Sindri Guðjónsson, 9.6.2008 kl. 23:31

14 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Það var auðvelt á þeim árum sem guðspjöllin voru skrifuð að verða sér út um rangar upplýsingar um Jesú (sbr bara upphafsorð Lúkasarguðspjalls). Þar af leiðandi er ekkert skrítið ef að annað hvor "Matteus" eða "Lúka" hafi haft rangar upplýsingar um ætterni Jesúsar. Margir kristnir söfnuðir Gyðinga töldu að Jesús hefði fæðst um 100 árum fyrr en talið er í dag, og að hann hefði verið krossfestur af Alexander Janneusi (Robert M. Price, The Incredibly Shrinking Son of Man, bls 40.). "Matteus" og "Lúkas" veru með mismunandi upplýsingar um ýmislegt annað, t.d. um það hvar María og Jósef bjuggu þegar Jesús fæddist. Jósef og María bjuggu í Nasaret þegar Jesús fæddist, en komu til Betlehem vegna manntals, og þar fæddu þau Jesú, skv Lúkasi 2:1-7. Jósef og María bjuggu hins vegar í húsi í Betlehem þegar Jesús fæddist, en Þau fluttu til Nasaret, seinna, eftir að þau höfðu flúið til Egyptalands skv Matteusi 2:1-11, 22-23. Matteus hafði aðrar upplýsingar en Lúkas.

Sindri Guðjónsson, 10.6.2008 kl. 03:43

15 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Það var auðvitað ekki rétt hjá þessum kristnu söfnuðum að Jesús hefði fæðst svona snemma, eg nefni það sem dæmi um hversu mismunandi sögurnar af honum voru í upphafi kristninnar.

Sindri Guðjónsson, 10.6.2008 kl. 03:46

16 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Það var auðvelt á þeim árum sem guðspjöllin voru skrifuð að verða sér út um rangar upplýsingar um Jesú (sbr bara upphafsorð Lúkasarguðspjalls).

Áhugaverður punktur, hafði ekki pælt í þessu áður.

Annars í sambandi við þá skýringu að í Lk sé ættartala Maríu, þá á ég ritskýringarrit fyrir Lúkasarguðspjall (New International Greek Testament Commentary eftir I. Howard Marshall), þar stendur á bls 158 (í upptalningu á tilraunum til þess að samræma ættartölurnar) að sú tilgáta hafi fyrst komið fram árið 1490 hjá þessum Anniusui, þannig að hún er líklega ekki frá miðöldunum eins og þú hélst Sindri  En hann bendir á að þessi túlkun passi ekki við Lk 1.27 sem leggur áherslu á að Jósef hafi verið af ætt Davíðs.

Og ég er sammála því að höfundarnir voru ekki bara að skálda út í loftið. Þeir trúðu því örugglega að Jesús hafi í raun og veru verið afkomandi Davíðs og þeir reyndu (eins og allir ættfræðignar) bara að tengja saman punktana sem eins best og þeir gátu.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 10.6.2008 kl. 16:53

17 identicon

Já þetta er allt saman mjög athyglisvert. Mér hefði þótt flottara ef ættartala Maríu hefði fengið að fljóta með.

En hvað segiði um þær heimildir sem til eru um að þegar musteri gyðinga var eyðilagt árið 70 e.k. og landið hreinsað af gyðingum og þeir reknir í burtu hafi ýmislegt verið eyðilagt. Þeim tókst að bjarga eitthvað af handritum og taka með sér m.a. dauðahafshandritin sem fundust um miðja síðustu öld og fleira. En það er einmitt sagt að meðal þeirra hluta sem glötuðust hafi verið ættartölur og skrár. En svoleiðis skrár voru gyðingum hugleiknar vegna smæðar þjóðarinnar og sögu.

Ef það er rétt að þeir hafi verið mjög mikið fyrir það að rekja ættir og skrá niður ættartölur fólks, þá hefur varla verið erfitt að rekja niður fyrstu forfeðurna, a.m.k. pabbann, afann og langafann(munnmælasögur duga ok hér). Þ.e. ef margir samtímamenn sögðu að foreldrar hans hafi verið Jósef og María þá eru líkur á því að svo hafi verið.

Ef þetta með týndu ættartölurnar úr Musterinu er rétt hljóta bækurnar að hafa verið skrifaðar fyrir árið 70, alla vega drög að þeim, ættartölurnar. Nú voru bræður Jesú þekktir og vitað hverjir þeir voru þannig að manni finnst svona að líklega hafi þeir verið með réttan Jósef í huga. Annað hvort voru til ættartölur um manninn eða ekki. Ef ekki þá er þetta skáldskapur. Það sem er einmitt merkilegt við þennan tíma er að þarna var svo mikið að gerast og margir að skrifa um atburðina og það gefur okkur innsýn inn í annan og eldri tíma í mannkynssögunni.

Ég er ekki að vísa í neinar heimildir enda er ég bara að pæla og spjalla. Allar mínar bækur eru í kössum þar sem ég er að flytja.

Heiðrún (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 00:10

18 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Margir samtímamenn guðspjallahöfundana sögðu að Jósef og María hefðu verið foreldrar Jesúsar, en aðrir sögðu t.d. að hann hefði fæðst cirka árið 77 fyrir okkar tímatal, og verið krossfestur af Alexander Janneusi! Mýtur og goðsögur streymdu í bland í allar áttir, og ekki bara um Jesús, heldur líka um Appolóníus frá Tyana, og fleiri og fleiri. Það er annars ekkert í hendi með það að bræður Jesúsar hafi verið þekktir. Þegar N.T. talar um bræður Drottins, gæti það t.d. átt við einhvern söfnuð sem kallaði sig bræður Drottins (kenning sem ég hef heyrt hjá einhverjum N.T. fræðingum, bara spjall, ekkert viss um að hún sé endilega rétt ;-) ). Postulasagan er skrifuð seint, og álitin af fræðimönnum vera skáldsaga. (Þó að Snorri í Betal telja hana skrifaða áður en Pál postuli lést, þar sem ekki er minnst á andlát Páls í postulasögunni). Það er mjög líklegt að kristnar viðbætur hafi verið gerðar á skrifum Jósefusar, sem tengjast Jesúsi, sbr þessa grein í kaþólsku guðfræðiriti. Hafi þessi Guðspjöll verið skrifuð fyrir árið 70, þá virðist þau ekki hafa náð útbreiðslu og viðurkenningu meðal kristinna manna fyrr en löngu seinna. Ég hef annars ekki pælt mjög mikið í kenningum um ritunartíma Guðspjallanna. Ég er í vinnunni, en á eitthvað efni um það heima, t.d. kristilegu trúvarnarbókina Fabricating Jesus, sem ágætlega áreiðanleg hvað varðar allar upplýsingar. Ég hef lært mikið af henni, þó að ég sé ósammála niðurstöðu höfundarins. (Craig A. Evans)

Sindri Guðjónsson, 11.6.2008 kl. 00:53

19 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Það er reyndar öruggt að kristnar viðbætur voru gerðar á skrifum Jósefusar um Jesú. Það er hins vegar deilt um það hvort að kristnir hafa skáldað annan kaflann upp frá rótum, eða báða, eða bara skreytt aðeins það sem Jósefus hafði upprunalega skrifað.

Sindri Guðjónsson, 11.6.2008 kl. 00:55

20 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nenni ekki að lesa þetta trúaleysingjaskrifelsi. En kanntu ekki lengur eignarfallið af nafninu Jesús? Fylgir það trúleysinu að afbaka nafn hans?

Jón Valur Jensson, 20.6.2008 kl. 01:57

21 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Hér er Jesús, um Jesús, frá Jesúsi, til Jesúsar, hljómar eins og mjög íslensk og góð fallbeying í mínum eyrum. (hér er Jóhannes, um Jóhannes, frá Jóhannesi, til Jóhannesar).

Hér er Jesús, um Jesú, frá Jesú, til Jesú, er hins vegar hálf einkennileg fallbeying frá mínum bæjardyrum séð.

Ég hef aldrei tileinkað mér að tala um Jesúm.

Ég efast um að Jesús sé viðkvæmur fyrir því hvernig nafn hans er fallbeygt á íslensku.

Sindri Guðjónsson, 20.6.2008 kl. 02:19

22 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Fallbeyingin átti að vera: Hér er Jesús, um Jesú, frá Jesúsi, til Jesúsari. Einu "s"-i var ofaukið í þolfallinu hjá mér áðan.

Það var annars ekki meiningin að afbaka nafn Jesúsar (afbaka nafn Jesú), og ekki ætlunin að særa eða ergja neinn. Mér finnst þetta bara íslenskari leið til að fallbeygja þetta nafn. Hefði ég notað fyrirsögnina "Hvað hét fósturafi Jesú?", væri ekki eins augljóst að um eignarfall væri að ræða. 

Sindri Guðjónsson, 20.6.2008 kl. 02:28

23 Smámynd: Sindri Guðjónsson

það vantaði líka allstaðar orðið "g" í fallbeyging í síðustu tveimur athugasemdum.

Sindri Guðjónsson, 20.6.2008 kl. 02:55

24 Smámynd: Sindri Guðjónsson

stafinn "g", ekki orðið "g". Ég er alltof þreyttur núna.

Sindri Guðjónsson, 20.6.2008 kl. 02:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sindri Guðjónsson

Höfundur

Sindri Guðjónsson
Sindri Guðjónsson

Ég heiti Sindri! Ég er trúlaus, og blogga hér aðallega um Biblíuna. (Ég er að vísu sem betur fer hættur þessu stússi)

 

Þú getur haft samband: sindri79(a)gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...itvig
  • ...ysyvq
  • ...100_2438

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband