Zeitgeist, ein mesta lygasaga allra tíma?

Ein er sú áróðursmynd sem nýtur mikillar hylli á internetinu og heitir Zeitgeist. Fyrsti hluti myndarinnar heitir „The Greatest Story Ever Told“. Í honum er því í stuttu máli haldið farm, að sögurnar um Jesú í guðspjöllunum séu „stolnar“ eða endursagðar sögur um aðra eldri frelsisguði, og byggi á gamalli stjörnufræði/speki.

Skýrasta dæmið um frelsisguð sem á að hafa verið alveg eins og Jesús, er sagt vera forni egypski guðinn Hórus. Því er haldið fram í myndinni að hann hafi fæðst 25. desember, móðir hans hafi verið hrein mey sem hét Isis-Mary. Að stjarna í austri hafi sagt til um fæðingu hans. Þrír konungar hafi verið viðstaddir. Að Hórus hafi verið undravitur 12 ára gamall kennari. 30 ára hafi Hórus verið skírður af Anap, og þá hafið þjónustu sína. Hann hafi átt 12 lærisveina og hafi ferðast um með þeim og læknað sjúka og gengið á vatni og fleira í þeim dúr. Hann hafi verið kallaður Góði hirðirinn, Lamb Guðs, og fleira, líkt og Jesús. Hann hafi verið krossfestur, og risið upp frá dauðum eftir þrjá daga.

Það er hægt að lesa egypsku sögurnar um Hórus á bókasöfnum.  

Oxford alfræðibókin telur upp heimildirnar sem við höfum um Hórus sögur, sem hægt er að nota til að komast að því hvernig sögurnar um hann voru. Þessar heimildir eru (heitin á þeim eru óþýdd):


the Memphite Theology or Shabaqo Stone, sem talinn er vera frá því síðan sirka 1540-1070 fyrir okkar tímatal;
the Mystery Play of the Succession;
the Pyramid Texts, sem taldir eru vera frá því um 2575-2150 fyrir okkar tímatal;
the Coffin Texts, einkum rit sem heitir Spell 148;
the Great Osiris hymn í Louvre safninu;
the Late Egyptian Contendings of Horus and Seth;
the Metternich Stela and other cippus texts;
the Ptolemaic Myth of Horus at Edfu (einnig þekkt sem Triumph of Horus);

Þessar heimildir segja allt aðra sögu um Hórus, en  myndin Zeitgeist.

Isis mamma Hórusar var gift honum Osiris, og var ekki hrein mey eins og Zeitgeist segir. Hórus fæddist í kjölfar þess að faðir hans Osíris hafði verið drepinn (óvinur hans Set drap hann, og setti hann í lík kistu og henti henni í ána Níl). Isis kona Osíris finnur kistuna og líkið. Set bútaði þá Ósíris niður í búta, sem hann dreifði um allt Egyptaland, nema typpinu, sem glataðist. Isis setti Ósíris saman aftur, eftir að hafa fundið bútana eftir mikið erfiði, ásamt systur sinni, og setti gervi typpi á Osíris sem hún bjó til sjálf (því alvöru typpið fannst ekki. Sæskrímsli át það). Osiris lifnaði við, vegna þess að Ísis púslaði honum saman aftur, og öðlaðist eilíft líf. Með gervi typpinu var Hórus Ósírison svo getinn. (Er þetta bara ekki næstum því eins og fæðingasögurnar í Lúkasi og Matteusi? Eh, nei!)

Hvergi kemur fram í neinum heimildum að þrír konungar hafi verið viðstaddir fæðingu Hórusar, eða þrír vitringar boði fæðinguna, eftir að hafa elt stjörnu úr austri, líkt og Zeitgeist hefur mikið fyrir að halda fram, og tengir við einhverja stjörnumerkjafræði. Hvergi kemur fram að Hórus hafi haft 12 lærisveina, eins og Zeitgeist myndin heldur fram. Hins vegar voru samkvæmt sumum sögunum fjórir guðir í slagtogi við hann. Hvergi kemur fram að Hórus hafi gengið á vatni. Hórus var ekki krossfestur. Því síður krossfestur með tveimur þjófum eins og sumir segja. Hann fór aldrei til heljar. Hann reis aldrei upp frá dauðum.

En hvaðan fær Peter Joseph, höfundur Zeitgeist myndarinnar, þá allar þessar upplýsingar? Frá manni sem heitir Gerald Massey, sem hélt öllum þessum hlutum fram. Í myndinni er vitnað í Massey, og hann er titlaður sem „Egyptalandsfræðingur“. Í neðanmálsgreinum sem fylgja handriti myndarinnar er 13 sinnum vísað Gerald Massey sem heimild fyrir fullyrðingum um Hórus. Hann var breskt ljóðskáld sem var uppi á árunum 1828 – 1927. Hann var áhugamaður um Egyptaland, forn Egypta, forn egypsk költ, pýramída, og þess háttar. Massey var í stuttu máli rugludallur, og ekkert authority í Egyptalandsfræðum. Það skiptir engu máli hvað hann segir um líf Hórusar, ef það fær ekki stuðning í frumheimildum um Hórus.

Peter Joseph byggir einnig á bókinni The Christ Conspiracy eftir Acharya, en hún byggir að miklu leyti á „rannsóknum“ James Chruchward. Þessi Chrucward trúði því að mannkynið væri komið af háþróuðum kynstofni af börnum Mu (The Children of Mu). Hann taldi að til hefði verið meginlandið Mu, sem sökk í sjó, og að Jesús kristur hafi verið eitt af börnum Mu, og þess vegna hafi hann haft krafta sem menn almennt hafi ekki (börn Mu gátu greinilega gengið á vatni, læknað sjúka, og risið upp frá dauðum o.þ.h.). Með hjálp stjörnmerkjafræði og sögu, líkt og Peter Joseph notar í Zeitgeist, komst Churchward að því að öll trúarbrögð væru samofin og tengd, og væru öll kominn frá áðurnefndu meginlandi Mu, sem sökk í hafið. Í neðanmálsgreinum er bæði vísað í Acharya og Chruchwald sem heimildir í handritinu af Zeitgeist.

Zeitgeist nefnir svo fjölda annarra fornra frelsisguða, sem áttu að hafa lifað alveg eins lífi og Jesús. Heimildarmennirnir eru af sama toga. Ekki er almennt stuðst við frumheimildir. Míþra er t.d. sagður vera fæddur af hreinni mey. Staðreyndin er hins vegar sú að samkvæmt sögunum um hann, spratt hann fram úr steini. Míþra fæddist ekki 25. desember, eins og haldið er fram. Hann átti ekki 12 lærisveina. Hann reis ekki upp þremur dögum eftir dauða sinn. Ég held að menn séu farnir að átta sig á mynstrinu.

Við þetta er ýmsu að bæta. Sceptic Magazine birti nýlega grein, þar sem farið er nánar í saumana á ýmsu í þessum fyrsta hluta Zeitgeist. Fjallað er þar um margt, sem ég hef ekki skrifað um í þessum pistli. Má þar nefna hina glötuðu hugmynd um að Biblían segi á táknrænan hátt frá því að öld nautsins hafi verið fram að komu Móses, öld hrútsins tekið við, og öld fisksins hafist með komu Jesú, og að á næstu grösum sé öld vatnsberans. Þetta ásamt ýmsu öðru í Zeitgeist stenst alls ekki skoðun.

Til að finna greinina þarf að opna þennan link, og skrolla aðeins niður. Greinin heitir „The Greatest Story Ever Garbled“ og er eftir Tim Callahan.

Það sorglega við myndina er að ýmislegt í fyrsta hlutanum er satt og áhugavert. Það hefði verið hægt að setja það fram á athyglisverðan hátt. Þar má nefna að Nóaflóðssagan í Biblíunni á sér marga forvera sem eru keimlíkar sögur, og sagan um Móse er býsna lík sögunni um Sargon, sem er miklu eldri saga. Hægt er að nefna fleiri atriði. Jesús á t.d. einhver atriði sameiginleg með einhverjum af þeim frelsisguðum sem nefndir eru í myndinni. Þann samanburð er hins vegar búið að skemma með endalausum ýkjum og bulli. Zeitgeist er afleit mynd. Hún er kannski ekki mesta lygasaga allra tíma, en lygasaga er hún.

Munnurinn er sláturhús. Maginn er gröf

"If such a God did exist, he could not be a beneficient God, such as the Christians posit. What effrontery is it that talks about the mercy and goodness of a nature in which all animals devour animals, in which every mouth is a slaughter-house and every stomach a tomb!" E.M. McDonald, "Design Argument Fallacies" An Anthology of Atheism and Rationalism (ed. Gordon Stein, Buffalo, NY: Prometheus, 1980), p. 90.

Mágskyldan - Berfótaætt

Í 1. Mós 25:5-10 segir frá Mágskyldunni

Mágskyldan

5Þegar bræður búa saman og annar þeirra deyr án þess að hafa eignast son skal ekkja hins látna ekki giftast neinum utan fjölskyldunnar heldur skal mágur hennar ganga inn til hennar, taka hana sér fyrir konu og gegna mágskyldunni við hana. 6Fyrsti sonurinn, sem hún fæðir, skal bera nafn hins látna svo að nafn hans afmáist ekki úr Ísrael. Fyrsti sonur hjúskaparins með máginum telst vera eins konar staðgengill hins látna eiginmanns. 7Vilji maðurinn ekki kvænast mágkonu sinni skal hún ganga til öldunganna á þingstaðnum í borgarhliðinu og segja: „Mágur minn hefur neitað að halda við nafni bróður síns í Ísrael. Hann vill ekki gegna mágskyldunni við mig.“ 8Þá skulu öldungar í borg hans kalla hann fyrir sig og tala við hann. Reynist hann ósveigjanlegur og segi: „Ég vil ekki kvænast henni,“ 9skal mágkona hans ganga til hans frammi fyrir öldungunum, draga skóinn af fæti hans, hrækja framan í hann, taka til máls og segja: „Þannig skal farið með hvern þann sem ekki vill reisa við ætt bróður síns. 10Hvarvetna í Ísrael skal ætt hans nefnd Berfótarætt.“

Ég verð að segja, að ég vorkenni mönnum sem höfðu ekki geð í sér til að "leggjast með" ekkju bróður síns. Hvað ef hún var forljót, leiðinleg, illa lyktandi, og andstyggileg? Wink 

En svona spauglaust, þá er Guð almáttugur, skapari himins og jarðar, með skrítinn smekk fyrir reglum. Það er eitthvað ekki í lagi við að þvinga fólk til kynferðislegs samræðis gegn vilja sínum.

Hér er skemmtileg saga sem tengist mágskyldunni

1. Mós 38:7-10

En Ger, frumgetinn sonur Júda, vakti andúð Drottins svo að Drottinn lét hann deyja. 8Þá mælti Júda við Ónan: „Gakktu inn til konu bróður þíns og gegndu mágskyldunni við hana að þú megir afla bróður þínum afkvæmis.“ 9Sökum þess að Ónan vissi að afkvæmið skyldi eigi verða hans þá lét hann sæðið spillast á jörðu í hvert sinn er hann gekk inn til konu bróður síns, til þess að komast hjá því að afla bróður sínum afkvæmis. 10Með þessu vakti hann andúð Drottins sem lét hann einnig deyja."

En er Guð hættur að drepa í dag, eins og hann gerir í þessari sögu? 

"B-I-B-L-Í-A, er bókin bókanna..."

 


Sunnudagaskólinn

"How many times have you heard that Christ died for you for your sins? This is a heavy responsibility, especially for children. The guilty induction can vary in intensity, depending how the message is presented, but the bottom line is that the Son of God had to come to Earth and die a horrible death because of our failings." Marlene Winell, Leaving the Fold (Oakland, CA: New Harbinger, 1993), p. 69.

"The most serious demand for unquestioned belief is, of course, the atonement. First the believer is to suspend familiar notions of justice, such as punishment for the guilty as opposed to an innocent party. You are then expected to accept the necessity of blood sacrifice for sin; that wrongdoing must be paid for, and not necessarily in proportion to the crime. A father's sacrifice of his innocent son is supposed to be not only just but generous and wonderful. Then the temporary three-day death of this one person is supposed to wipe out all the wrongdoing and ineptitude of a species. And finally, you should believe that all you need do to erase responsibility for your actions and enter a haven of eternal reward is to believe. It's no wonder that once a convert has wrapped his or her mind around this story, anything can be accepted as truth. The rest of fundamentalist doctrine can be easily swallowed, including Jonah." [Marlene Winell, Leaving the Fold, p. 75.]

Sparðatíningur

Hér eru nokkur ómerkileg dæmi um mótsagnir í Biblíunni, rugl með tölur og þess háttar. Skiptir engu máli, nema fyrir þá sem halda að þeir séu með óskeikult Orð Guðs í höndunum þegar þeir lesa Biblíuna.

 „Ahasía var tuttugu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og ríkti hann eitt ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Atalía, sonardóttir Omrí Ísraelskonungs.“ (2. Konungabók 8:26)

 „Ahasía var fjörutíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Atalía, sonardóttir Omrí.“ (2. Kroníkubók 22:2)

Fleiri mótsagnir í þessum dúr eru t.d. að Salómón átti 40.000 vagnhesta skv. 1.Konungabók 4:26 , en 4.000 þúsund samkvæmt 2. Kron 9:25. Jójakín var 18 ára þegar hann varð konungur skv. 2. Konungabók 24:8, en 8 ára skv. 2. Kron 36:9.

Margar mótsagnirnar eru miklu alvarlegri en þessar. Til að mynda skammar Drottinn Jehú vegna morðanna sem hann framdi í Jesreel í Hósea bók, og segist ætla að vitja blóðskuldarinnar. 2. Konungabók segir hið ganstæða, að Drottinn hafi fyrirskipað morðin í Jesreel, og Drottinn hrósar Jehú fyrir að hafa staðið sig vel,  er hann þurkaði út afkomendur Akabs (m.a. í Jesreel) ,,þú hefur leyst vel af hendi það sem rétt er í mínum augum, og farið alveg mér að skapi með ætt Akabs“, og síðan lofar Guð Jehú að hann og afkomendur hans í 4 ættliði verði konungar yfir Ísrael að launum, sbr færsluna Pólitísk átök í Biblíunni.

Dæmi eru um það að bækur Gamla testamenntisins séu hreinlega skrifaðar til að leiðrétta aðrar bækur þess. T.d virðist Rutarbók skrifuð til að leiðrétta bann Esra og Nehemía gegn blönduðum hjónaböndum gyðinga og útlendinga. Hann mátti ekki vera í söfnuði Drottins að eilífu.


Æskilegt er að flengja börn

Ég las nýlega ræðu mjög vinsæls bandarísks predikara sem ég þekki aðeins til, sem heitir John Piper. Mér brá talsvert þegar ég las ræðuna, þar sem Piper er alls ekki sá furðulegasti í þessum bransa. Ræðan var hins vegar alveg skelfileg, og hét "Myndi Jesú flengja barn?"

Hér eru nokkrar setningar úr ræðunni.

If Jesus were married and had children, I think he would have spanked the children.

God disciplines every son whom he loves, and spanks everyone that he delights in (my paraphrase). And the point there is suffering. God brings sufferings into our lives, and the writer of the Hebrews connects it to the parenting of God of his children.

God uses suffering to discipline his children. So do we.

 Now, you don’t damage a child. You don’t give him a black eye or break his arm. Children have little fat bottoms so that they can be whopped.

Spanking is so clean! It’s so quick! It’s so relieving! A kid feels like he has done atonement and he is out of there and happy…. I just think spanking is really healthy for children.

Piper er hins vegar vorkun. Í Biblíunni, "bók bókanna", eins og börnin syngja í sunnudagaskólanum, eru nefnilega talsvert margar fyrirskipanir um líkamlegar refsingar á börnum. Piper er sannfærður um að Biblían sé orð Guðs, og hví skyldi hann þá vera andvígur smáræði eins og flengingum?

5. Mósebók 21:18-21

Eigi maður þrjóskan son og ódælan sem hvorki vill hlýða föður sínum né móður og hlýðnast þeim ekki heldur þótt þau hirti hann, 19skulu faðir hans og móðir taka hann og færa hann fyrir öldunga borgarinnar á þingstaðinn í borgarhliðinu. 20Þá skulu þau segja við öldunga borgarinnar: „Þessi sonur okkar er þrjóskur og ódæll og hlýðir ekki áminningum okkar. Hann er bæði ónytjungur og svallari.“ 21Þá skulu allir karlmenn í borginni grýta hann til bana.

Orðskviðirnir 23:13-14 segja:

Sparaðu eigi aga við sveininn, því ekki deyr hann þótt þú sláir hann með vendinum. Þú slærð hann að sönnu með vendinum, en þú frelsar líf hans frá Helju.

Orðskviðirnir 20:30 segja:

Blóðugar skrámur hreinsa illmennið og högg, sem duglega svíða. ("rista djúpt" betri þýðing)

Orðskviðirnir 19:18 segja:

Aga þú son þinn, því að enn er von, en farðu eigi svo langt, að þú deyðir hann.


Ég var grunaður um morðtilræði árið 1998. (Fúlasta alvara)

Ég var í Frakklandi sumarið 1998 í tungumálaskóla. Þetta sumar var haldið heimsmeistarmót í fótbolta í Frakklandi eins og margir vita. Eftir einn leikinn réðust þýskar fótboltabullur á franskan lögreglumann og lömdu hann í plokkfisk. Lögreglumaðurinn féll í dá, og fékk varanlegann heilaskaða. Leitað var af þessum sökum af óþekktum þýskum manni, sem var með rauðbirkið hár, örlítið þybbinn, og fremur lávaxinn, eða um 170 cm á hæð. Það er skemmst frá því að segja, að ég smell passaði við þessa lýsingu, og var með rauðbirknara hár þá en nú. Ég reyndar vissi ekkert af þessu, þar sem ég fylgdist ekki með fréttum meðan ég var úti.

Einn daginn var ég á röltinu með Markúsi, þýskum vini mínum. Kemur þá lögreglubíll að okkur, og út úr bílnum koma tveir lögregluþjónar. Annar þeirra gengur til mín og spyr um þjóðerni mitt. Því næst var ég beðinn um skilríki. Ég var ekki með nein skilríki. Þá biðja þeir vin minn um skilríki. Viti menn, hann var auðvitað með þýskt ökuskírteini í veskinu. Þá byrjuðu þeir að spyrja mig hastir af hverju í andskotanum ég væri ekki með skilríki og fleira í þeim dúr. Urðu þeir nokkuð ágengir, og voru t.a.m. byrjaðir að þúa mig í pirringi, en ég man ekki lengur nákvæmlega út af hverju sá pirringur reis. Þýski vinur minn, og annar franskur, sem hafði komið að okkur örlítið síðar, urðu alveg brjálaðir yfir því að lögreglumennirnir væru að þúa mig, en lögreglumenn í Frakklandi eiga að þéra borgarana þegar þeir sinna skyldustörfum. Þeir voru að því komnir að biðja mig að setjast inn í bílinn og færa mig til rannsóknardómara, en okkur tókst á endanum að gera þá vissa um að ég væri íslenskur, og gæti ekki verið sá eftirlýsti.

Einn Þjóðverji var fundinn sekur um morðtilræði út af þessu máli, og fjórir voru fundnir sekir um alvarlega líkamsárás. Ég eignaðist skemmtilega sögu til að segja :-)

Það er minnst á þetta mál í þessari wikipediu grein.


Ég er morðingi og ræningi

Í Jakobsbréfi 2:10 er að finna mjög sérstakt vers. Þar segir: "Þótt einhver héldi allt lögmálið en hrasaði í einu atriði, þá er hann orðinn sekur við öll boðorð þess."

Er þetta réttlátt? Hefur maður sem leggur nafn Drottins við hégóma, þá líka drýgt hór, drepið og stolið?

Hvað myndi fólki finnast um frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum, þess efnis, að hafi menn brotið gegn einhverri grein í lögunum, að þá hafi menn brotið þær allar? Væri sanngjarnt að maður sem gerist bortlegur við 176. gr. og veldur með ólögmætum hætti truflun á rekstri almennra samgöngutækja, væri líka sekur um brot á öllum greinum í 22. kafla laganna um kynferðisbrot?


Þeir rugluðust

Ég ætla rifja upp nokkur dæmi sem ég hef fjallað um áður, um rugling hjá höfundum guðspjallanna. 

Matteus 27:9 segir: „Þá rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns: "Þeir tóku silfurpeningana þrjátíu, það verð, sem sá var metinn á, er til verðs var lagður af Ísraels sonum"

- Hvar stendur þetta í spádómsbók Jeremía? Svar: hvergi. Höfundur Matteusarguðspjalls er eitthvað að ruglast. Nánar tiltekið ruglar hann saman Jeremía og Sakaría, þar sem Sakaría 11:12-13 segir eitthvað í líkingu við það sem höfundur Matteusar segir að Jeremía hafi sagt.

--

Matteus 2:23 segir: „Þar settist hann að í borg, sem heitir Nasaret, en það átti að rætast, sem sagt var fyrir munn spámannanna: "Nasarei skal hann kallast."“

- Hvar er þennan spádóm spámannanna sem Matteus er að vísa til að finna? Svar: hvergi. Höfundur Matteusarguðspjalls er eitthvað að steypa.

--

Markús 1:2 segir: "Svo er ritað hjá Jesaja spámanni: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er  greiða mun veg þinn."

- Hvar stendur þetta hjá Jesaja spámanni? Svar: hvergi. Höfundur Markúsarguðspjalls hefur eitthvað fipast. Hann ruglar saman Jesaja og Malakí, sjá Malakí 3:1

--

Í 2. kafla Markúsarguðspjalls segir meðal annars frá því þegar Jesús og menn hans tíndu kornöx á hvíldardegi. Farísearnir gagnrýndu Jesú fyrir að brjóta hvíldardagsboðorðið, og Jesús svaraði með þessum orðum:

"Hafið þér aldrei lesið, hvað Davíð gjörði, er honum lá á, þegar hann hungraði og menn hans? Hann fór inn í Guðs hús, þegar Abíatar var æðsti prestur, og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum."

Hérna er höfundur Markúsarguðspjalls eitthvað að ruglast. Hann er að vísa til sögu sem er í 21. kafla Samúelsbókar (1. Sam 21:1-10). Í þeirri sögu þáði Davíð skoðunarbrauðin af Ahímelek æðstapresti, er Davíð og menn hans voru á flótta undan Sál. Ahímelek var æðstiprestur, en ekki Abíatar. Hér ruglar höfundur Markúsarguðspjalls saman nöfnum. Abíatar varð æðstiprestur síðar, og Davíð þurfti ekki að þyggja neitt brauð af honum.


Réttindi verkafólks í landbúnaði

Réttindi vinnuhjúa í sveitum eru varin af miklum myndarskap í Hjúlögum nr. 22/1928, sem enn eru í fullu gildi.

Samkvæmt 7. gr. laganna eiga vinnuhjú rétt á að fá hreint handklæði einu sinni í viku, fyrir utan að fá hreint lak á rúmið einu sinni í mánuði. Einnig er kveðið á um að í frístundum á vetrum, megi hjúið dvelja í viðunanlega hlýju herbergi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sindri Guðjónsson

Höfundur

Sindri Guðjónsson
Sindri Guðjónsson

Ég heiti Sindri! Ég er trúlaus, og blogga hér aðallega um Biblíuna. (Ég er að vísu sem betur fer hættur þessu stússi)

 

Þú getur haft samband: sindri79(a)gmail.com

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...itvig
  • ...ysyvq
  • ...100_2438

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband