Hann mátti ekki vera í söfnuði Drottins að eilfíu

Í síðustu færslu talaði ég aðeins um ættartölu Jesúsar í Matteusarguðspjalli. Hér ætla ég að bæta einu atriði við þá umfjöllun. Skv. ættartölu Matteusar, voru Jesús (óbeint í gegnum Jósef), og Davíð konungur, afkomendur Rutar. Matteus 1:5-6 segir:

Salómon gat Bóas við Rahab og Bóas gat Óbeð við Rut. Óbeð gat Ísaí og Ísaí gat Davíð konung

Rut var Móabíti, sbr Rutarbók 1:4. 5. Mósebók, 23:3 segir: "Enginn Ammóníti eða Móabíti má vera í söfnuði Drottins. Jafnvel ekki tíundi maður frá þeim má vera í söfnuði Drottins að eilífu". Það kemur líka fram í Nehemía 13:1-3 að enginn Ammóníti eða Móabíti megi vera í söfnuði Drottins að eilífu. Í Esra, 10 kafla, er sagt frá því að Ísraelar hafi drýgt þá synd að giftast konum af framandi þjóðerni.  Samkvæmt fyrirskipun Drottins áttu þeir því að senda þessar konur og börn sem þeir höfðu eignast með þeim frá sér, þar sem þau væru blendingjar.

Það er því óneitanlega einkennilegt, að í Rutarbók þyki það hið besta mál, þegar ísraelskur maður tekur sér hina móabísku Rut fyrir konu. Það sem meira er, skv ættartölunni í Matteusarguðspjalli, þá eignast hann með henni soninn Óbeð, sem gat soninn Ísaí, sem gat Davíð konung. Óhætt er að segja að Davíð hafi verið í söfnuði Drottins, ekki satt? (sbr t.d. Davíðssálmana og fleira). Samt segir í 5. Mósebók að enginn Móabíti, jafnvel ekki tíundi maður frá Móabíta, megi vera í söfnuði Drottins að eilífu! Þetta er staðfest bæði í Nehemía, og Esra.

Ég var einu sinni í söfnuði sem hét Orð Lífsins. Forstöðumaður þess safnaðar hét Ásmundur Magnússon. Hann sagði oft í ræðum sínum: "Guð meinar það sem hann segir, og segir það sem hann meinar". Það er hins vegar erfitt að sjá að svo sé í þessu tilfelli. Davíð, konungur gyðingana, átti langa ömmu, og langa langa afa, sem voru Móabítar (ef marka má ættartölu Matteusarguðspjalls), en enginn slíkur átti að mega tilheyra Ísraelsþjóðinni, söfnuði Drottins, skv skýrum og afdráttarlausum orðum Guðs. Enginn, að eilífu! Samt var það Guð sjálfur sem valdi Davíð til að vera konungur yfir Ísraelsþjóðinni. Guð braut því orð sín.  

Ég á annars erfitt með að skilja hvernig maður, sem er afkomandi Móabíta í 10. lið, geti verið útilokaður frá söfnuði Drottins að eilífu, fyrir þær einar sakir að langa, langa, langa, langa, langa, langa, langa, langa afi hans var Móabíti. Þetta eru ósanngjörn boð. Enda segja sumir guðfræðingar að Rutarbók hafi einmitt verið skrifuð til að leiðrétta rasískar kenningar sumra bóka Biblíunnar, um að bannað sé að giftast konum af erlendum uppruna, að bannað sé að eignast blönduð börn, og að ýmsar þjóðir eigi sér enga von og séu illar og vondar sbr t.d. Harper's Bible Commentary, 1962, bls. 321. Rut er megin söguhetja bókarinnar. Hún var eins og áður segir Móabíti, en samt dyggðuð, og mjög trú eiginkona gyðings, og trú Guði gyðinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sindri.

Ég hef alltaf jafn gaman af skrifunum þínum, það veist þú. Þú hefur mikla reynslu og ert mjög fróður um ritninguna, það skín í gegn.

En það sem ég skil ekki er drifkraftur þinn og tilgangur skrifa þinna? Hver er hugsunin bakvið rauðan þráð af færslum sem að virðast undirstrika fjarlægð ritningarinnar frá þeim raunveruleika sem við búum við í dag?

Bestu Kveðjur,

Jakob 

Jakob (IP-tala skráð) 6.6.2008 kl. 23:29

2 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Tilgangurinn er eiginlega sá að deila með fólki sem hefur áhuga því sem ég hef lært eftir margra ára grúsk. Menn finna líka oft þörf hjá sér til að skrifa um þau málefni sem þeir eru að hugsa um, og þetta eru allt hlutir sem ég hef hugsað mikið um.

Annars er í undirbúningi hjá mér færsla sem fjallar um gervifræði sem grasserar meðal trúlausra, bæði hérlendis og erlendis, þegar þeir bera Jesú saman við heiðin goð eins og Míþras, Ósíris og fleiri, og segja Jesús keim likan þeim. Þá beita þeir oft fyrir sig hæpnum fræðum, slíta hluti úr samhengi og setja hluti fram í vanþekkingu. T.d. er sagt að Jesús og goðið x eigi það sameiginlegt að hafa fæðst án kynferðislegs samræðis. Þegar að er gáð er það rétt. Hins vegar "fæddist" goðið x með þeim hætti að það spratt fram úr steini, svo að fátt er líkt með fæðingu þess og fæðingar Jesú. Einnig eru menn að vinna með margar sögur af einhverju goði, og taka eina setningu út úr sögu A, sem líkist einhverju í guðspjöllunum, og aðra setningu út úr sögu B, o.s.frv. Svo setja þeir þessar völdu setningar saman í eina sögu. Sá sem les svo samanburðinn þeirra áttar sig svo ekki á því að hinar ýmsu sögur um goðið eru ekkert líkar sögunni af Jesúsi.

Sindri Guðjónsson, 7.6.2008 kl. 00:05

3 identicon

Sæll aftur.

Ég er alls ekki að vanvirða rétt þinn til að tjá þig eða efa þann hóp sem getur haft bæði gagn og gaman af því sem þú skrifar, heldur er ég að hugsa út í ákveðinn rauðan þráð sem virðist spinnast í gegnum færslurnar þínar. Virkar eins og heildarþema´ið sé að reyna að sína ritninguna í sínu "kjánalegasta" ljósi, ef þannig má að orði komast. Ég er aðalega að hugsa út í drifkraftinn bakvið þá vinnu.

Annars er ég mjög feginn að þú sérst að taka þessi ómerku líkindafræði að þér. Ég fjallaði um þau og lélegar pop-kúltúrs sögufalsanir þeirra í myndinni Zeitgeizt á öðrum vettvangi fyrir svolitu síðan. Það er vissulega þörf á!

Bestu kveðjur,

Jakob 

Jakob (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 00:17

4 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Ég hef nú látið ýmisleg jákvæð orð falla um Biblíuna hér og þar. Svo skrifaði ég t.d. færsluna Snilld í Jobsbók. Ég reyndar var að skoða ritskýringarrit (commentaries) um Jobsbók á Þjóðarbókhölðunni um daginn, og sá aldrei neinn fjalla um þetta rím ljóð. Skyldi ég vera eitthvað að steypa í þessari Jobsbókar færslu? Ætlaði alltaf að bera þetta undir einhvern sem hefur alvöru vit á þessum  hlutum, t.d. einhvern kennara í G.T. fræðum eða hebresku í H.Í.

Mér finnst færslur eins og t.d. "Ó þú flata jörð", alls ekki neikvæð í garð Biblíunnar. Mér finnst ekkert að því að fornir Hebrear hafi haldið að jörðin væri flöt ofan á hafi, með himin úr föstu efni. Mér finnst það bara áhugavert. Ég var búinn að gera mér grein fyrir þessu löngu áður en ég hætti að trúa. Mér fannst (og finnst) þetta bara flott saga.

Sumir setja Biblíuna upp á ofur háan stall - telja hana óskeikula með öllu. Hér á ég við fólk sem kemur úr þeim söfnuðum sem ég var í sjálfur. Ætli mig langi ekki svolítið að sýna mönnum fram á hversu hæpið þetta viðhorf þeirra sé. Margar kristinir menn hafa miklu raunhæfara viðhorf til Biblíunnar, og mér finnst t.d. nokkuð mikið koma til Rob Bell og Brian D McLaren, sem eru bandarískir predikara sem eru að reyna að afneita ekki alveg skynseminni en halda samt í Biblíuna sem heilaga, en þó mannlega og skeikula bók. Þeir t.d. viðurkenna að ýmsir atburðir G.T. séu skáldsögur, en heilagar sögur samt sem áður, t.d. um brottförina úr Egyptalandi, sögurnar um ættfeðurna, Nóaflóðið og sköpunarsögurnar o.s.frv. Það eigi ss ekki að líta á Biblíuna sem Vestræna sagnfræði bók í anda upplýsingarinnar. (Auðvitað hafa íslenskir þjóðkirkjuprestar þetta viðhorf líka)

Sindri Guðjónsson, 7.6.2008 kl. 00:33

5 Smámynd: Sigurður Rósant

Ég er þér Sindri þakklátur mjög fyrir að halda áfram að dunda við þetta grúsk. Ég hef að hluta til stigið í þann forarpytt trúleysingja sem dregur dám af uppdiktuðum kenningum um Ósíris og Ísis. Skoðaði sjálfur aðrar heimildir og fann ekki þennan meinta skyldleika nema að litlu leyti. Tek alltaf mark á mönnum, er þeir setja ofan í við mig. Endurskoða þá afstöðu mína.

Með þakklæti hins trúfrjálsa

Sigurður Rósant, 15.6.2008 kl. 11:45

6 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Mín er ánægjan Sigurður. Mér fannst mjög áhugavert að sjá hversu líkur Jesús var öllum þessum heiðnu guðum, þangað til ég fór upp á Amtsbókasafn, og las sögurnar um mörg af þeim goðum sem notuð eru til samanburðar. Komst ég þá fyrst að því hversu döpur vinnubrögð voru á ferð. 

Síðan las ég aðeins meira um þessi mál í framhaldinu. Sem betur fer eru fjölda margir trúleysingja að skrifa um það á hversu veikum forsendum þessi samanburður er gerður. 

Ég er annars í fríi á höfuðborgarsvæðinu núna, og ekki með tölvuna með mér.

kv

Sindri

Sindri Guðjónsson, 16.6.2008 kl. 10:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sindri Guðjónsson

Höfundur

Sindri Guðjónsson
Sindri Guðjónsson

Ég heiti Sindri! Ég er trúlaus, og blogga hér aðallega um Biblíuna. (Ég er að vísu sem betur fer hættur þessu stússi)

 

Þú getur haft samband: sindri79(a)gmail.com

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...itvig
  • ...ysyvq
  • ...100_2438

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 2701

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband