Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Risi í járnrúmi - lítið sýnishorn úr skrítinni veröld.

Heimur Biblíunnar var skemmtilegur og stór undarlegur. Hér er örlítið sýnishorn:

- Guð verður þreyttur og hvílir sig á 7 degi sköpunarsögunnar. Seinna gengur hann um í kvöldsvalanum í aldingarðinum, og leitar að Adam og Evu.

- Höggormur talaði við Evu. (1. Mós 3)

- Guð bölvar höggorminum, og skipar honum að skríða um á maganum og borða mold framvegis.  

- Menn urðu allt að tæplega þúsund ára gamlir, og auðveldlega mörg hundruð ára. (1. Mós 5 t.d.)

- Synir Guðs tóku sér fagrar dætur mannanna, höfðu við þær samfarir og eignuðust börn. Börnin urðu risar og hetjur, sem bættust í hóp risa sem voru fyrir á jörðinni. (1. Mós 6)

- Flóð hylur alla jörðina og drepur alla menn og öll dýr, nema þau sem lifa af um borð í stórri tré örk. (1. Mós 7 og 8)

- Guð steig niður af himni til að skoða borg og turn sem mennirnir höfðu gert. Í framhaldinu ruglar Guð tungumálum mannanna og dreifir þeim um jörðina. (1. Mós 11)

- Kona Lots leit um öxl og breyttist í saltstólpa. (1. Mós 19:26)

- Með því að skafa af trjágreinum börkinn, og láta greinarnar svo í vatnsrennur sauðfés, er hægt að láta ær eignast rílótt, sprekklótt og flekkótt lömb. (1. Mós 30:37-19)

- Stafur breytist í eiturslöngu, og svo aftur í staf. (2. Mós 4) Seinna breytast margir stafir í eiturslöngur, en ein þeirra borðaði allar hinar, og breyttist svo aftur í staf. (2. Mós 7:8-13)

- Allar ár og öll vötn í Egyptalandi breyttust í blóð. (2. Mós 7)

- Hérar voru jórturdýr. (3. Mós 6:11)

- Menn færa Guði eldfórnir, sláturfórnir, og brennifórnir. Lyktin stígur upp til Guðs og honum finnst lyktin af fórnunum góð. (Víða í 3. Mós og 4. Mós) Sumstaðar er talað um að menn færi Guði mat. Hvað skyldi Guð þurfa margar hitaeiningar á dag? (3. Mós 21:16-24. " Hafi einhver niðja þinna, nú eða í komandi kynslóðum, lýti á sér, þá skal hann eigi ganga fram til þess að bera fram mat Guðs síns. ...  eigi skal hann koma fram til þess að bera fram mat Guðs síns.")

- Ef að karlmenn grunuðu konur sínar um að hafa haldið fram hjá sér, áttu þær að drekka drullumall af gólfinu, blandað vígðu vatni. Guð sá svo til þess að gera þær veikar, ef þær voru sekar. Ef þær voru hins vegar saklausar, varð þeim ekki meint af kokteilnum. Þannig var hægt að eyða óvissu eiginmannsins, og sekar konur fengu sanngjarna refsingu. (4. Mós 5:11-31)

- Jörðin opnaðist og gleypti ákveðið fólk sem var í uppreisn gegn Móse. Fólkið hrapaði lifandi niður til heljar, ásamt öllum sínum eignum og húsum. (4. Mós 16:31)

- Asni talaði við mann sem hét Bíleam og spyr afhverju Bíleam berji sig. Í stað þess að verða forviða af undrun yfir hinum talandi asna, svarar Bíleam spurningu asnans eins og ekkert óðeðlilegt hafi gerst og segir: „Þú gerir gys að mér. Hefði ég sverð í hendi mundi ég drepa þig“, og asninn svarar auðvitað fyrir sig: „Er ég ekki þín asna sem þú hefur riðið alla ævi þar til nú? Hef ég haft það fyrir vana að fara þannig með þig?“ (4.Mós 22:28-30)

- Konungur nokkur að nafni Óg var risastór, enda kominn af risum. Rúm hans var úr járni, 4,5 metrar að lengd, og tveir metrar að breidd. (5. Mós 3:11)

- Guð kastar sjálfur stórum steinum af himni ofan niður á óvini Hebreanna (Jós 10:11. Þetta sést því miður ekki mjög vel í 1981 þýðingunni, en er skýrt í hebreska textanum, nýju þýðingunni, og þeim erlendu þýðingum sem ég hef skoðað.)

- Sólin stöðvaðist á ferð sinni yfir himininn, og stóð kyrr fyrir ofan stað sem hét Gíbeon, til þess að Hebrear fengju næga birtu til að slátra óvinum sínum. (Jós 10:13 – skemmtilegt er að hafa pistilinn minn „Ó þú flata jörð“ í huga varðandi þessar sögur í 10 kafla Jósúabókar.)

- Drottinn var með Júdamönnum og hjálpaði þeim að berjast til sigurs gegn óvinum sínum. Það dugði þó ekki til gegn íbúum sléttlendisins, þar sem þeir áttu járnvagna. (Dóm 1:19)

- „Jael, kona Hebers, þreif tjaldhæl og tók hamar í hönd sér og gekk hljóðlega inn til Sísera sem fallinn var í fastasvefn því að hann var þreyttur. Hún rak hælinn gegnum gagnauga hans svo að hann gekk í jörð niður. Varð þetta hans bani.“ (Dóm 4:17) Eitthvað þekkir maður þennann stíl úr Íslendingasögunum.

- Maður drap þúsund manns með einn asnakjálka (bein) að vopni. (Dóm 15:15-17)

- Guð berst við eldspúandi sæskrímsli (Job 41)

- Maður er gleyptur af stórum fiski, og er í maga hans í þrjá daga og þrjár nætur, en lifir það af, og kemur sprelllifandi og hress úr maganum. (Jónas 2)

- Axarhöfuð flaut á vatni. (1. Kon 6)

- Salómon átti 700 eiginkonur (allar konungbornar), og 300 hjákonur. Ef að konurnar hans Salómons hefðu komið í þáttinn hans Dr. Phil, hefði Phil spurt: „Can y‘all get him to do anything?“ (1. Kon 11:3)

- Golíat var fjórir metrar að hæð, og hefði smell passað í rúm Ógs frænda síns. (1. Sam 17:4)

- Maður að nafni Absolon var myndarlegasti maður í Ísrael, og lét reglulega raka af sér hárið. Ekki veitti af, því það gat vegið allt að 2,5 kíló og verið honum til trafala. (2. Sam 14:25-26)

- Maðurinn Gat var risastór, og af risa ættum. Hann hafði 12 fingur og tólf tær. (2. Sam 21:20) Bróðir minn fæddist með 11 fingur, þannig að ef ég væri ekki fremur lágvaxinn, myndi ég ætla að ég væri eitthvað skyldur þessum Gat   Smile 

- Guð, eða Djöfullinn, fær Davíð til að taka manntal. Guð drepur svo 70.000 gyðinga í refsingarskyni fyrir manntalið, þar sem það var synd að telja fólk. Einhverjir myndu halda að Guð hafi með þessu brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna. (2. Sam 24. 1. Kron 21)

- Guð berst við sæskrímsli sem heitir Levjatan. (Sálmur 74:13-14)

- Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna. (Sálmur 82:1) 

- Guð blístrar á flugur, og rakar bæði höfuðhár, skaphár og skegg, með leigðum rakhníf. (Jes 7:18,20) - (Þetta er eitthvað táknmál hjá Jesaja spámanni)

- Sólin bakkaði afturábak á ferð sinni yfir himininn. (Jes 38:8)

- Guð banar skrímsli og dreka. (Jesaja 51:9)

- Þegar Guð úthellti sinni brennandi reiði yfir Síon suðu konur sín eigin börn sér til matar. (Harm 4:10-11)

- Guð gaf lýðnum óholl boðorð og lög sem leiddu til ólífis og lét fólk brenna frumburði sína í eldi. Þetta gerði hann til þess að fólki mætti ofbjóða og gera sér grein fyrir því að Guð sé Drottinn. (Es 20:25-26)

- Dalbotn nokkur var þakinn dauðra manna beinum, sem Guð þakti holdi og reisti upp frá dauðum og úr varð geysifjölmennur her. (Es 37:1-10)

- Guð fer í vont skap og segir prestunum að ef þeir hlýði ekki, muni hann strá saur framan í þá, og höggva af þeim höndina. (Mal 2:3) Þetta er kannski ekki svo skrítið. Það er vel þekkt að prestar eru oft til vandræða.

- Stjarna á himnum getur vísað mönnum veginn að ákveðnu þorpi, og leitt menn að ákveðnu húsi. (Jólaguðspajllið)

- Fjöldi löngu dáinna manna reis upp frá dauðum í Jerúsalem, og örkuðu um götur bæjarins og birtust mörgum.  (Matt 27:50-53) 

Já, veröldin nú orðið er eitthvað hálf lítilfjörleg, grá og hversdagsleg, samanborið við heim Biblíunnar. Wink 


 


Snilld í Jobsbók

Mikið er um ljóð í hebresku Biblíunni og ég hef séð því haldið fram að um þriðjungur hennar sé í bundnu máli. Hebresk ljóðagerð var mjög ólík þeirri ljóðagerð sem við þekkjum best í dag. Hebrear beittu t.d. mikið „parallellisma", en ég veit ekki hvernig best er að þýða það hugtak yfir á íslensku. Þetta felur í sér að eitthvað er í raun sagt tvisvar. Það sem er sagt er speglað aftur með öðrum orðum, ef svo má segja. Hér kemur dæmi, þar sem „speglunin" er höfð skáletruð. Þetta er úr 1. Mósebók 4:23. Nauðsynlegt er að hafa í huga að Ada og Silla voru konur Lameks:

„Ada og Silla, heyrið orð mín, konur Lameks, gefið gaum ræðu minni! Mann drep ég fyrir hvert mitt sár og ungmenni fyrir hverja þá skeinu, sem ég fæ."

Hér er annað dæmi úr Orðskvið 3:1 þar sem um augljósa „speglun" er að ræða:

„Son minn, gleym eigi kenning minni, og hjarta þitt varðveiti boðorð mín,"

Oft fara fín atriði framhjá fólki sem ekki áttar sig á þessari ljóðatækni hebreanna. Skoðum t.d. Sálm 40:9:

„Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér"

Hér er um speglun að ræða. Lögmál Guðs er innra með sálmaskáldinu, og þess vegna er það yndi hans að gera vilja Guðs. Þetta er eitt og hið sama. Það að hafa yndi af því að gjöra vilja Guðs og hafa lögmálið innra með sér er sami hluturinn.

En þetta var eiginlega ekki það sem ég ætlaði að tala um í þessari færslu. Mig langaði að benda á afar áhugaverð vers sem eru í Jobsbók. Forn-hebrearnir notuðu ekki rím í ljóðum sínum, en það var ekki þekkt ljóðlistar form á þeirra stað og stund. Höfundur Jobsbókar var frjór og snjall höfundur og honum datt þrátt fyrir allt í hug að nota rím í 10. kafla Jobsbókar. Í Job 10:8-11 stendur eftirfarandi:

„Hendur þínar hafa skapað mig og myndað mig, allan í krók og kring, og samt ætlar þú að tortíma mér? Minnstu þó þess, að þú myndaðir mig sem leir, og nú vilt þú aftur gjöra mig að dufti. Hefir þú ekki hellt mér sem mjólk og hleypt mig sem ost? Hörundi og holdi klæddir þú mig og ófst mig saman úr beinum og sinum."

En hvernig skildi þetta hljóma á hebresku? Það er ekki hægt að hljóðrita þetta vel með íslenskum stöfum, en ég myndi slumpa á það einhverveginn svona:

Jadekha ítsvaúní, vajaasúní

Jahad savív, vatevaleeiní

Tsekhor-na kí-khakhómer asítaní

Ve-el afar teshíveiní

Haló khehalav thatíkheiní

Ve khagevínah takpíeiní

Ór úvasar talbísheiní

Úvatsamót vegídím teshókhekheiní

Margt í þessari hljóðritun er ónákvæmt. Einkum „kh" hljóðin sem eru borin fram talsvert mikið öðruvísi en íslensku stafirnir gefa til kynna, en mér datt ekkert betra í hug. Þess ber þó að geta að enginn veit nákvæmlega hvernig hebreska var borin fram á þessum tíma. Rímið er hins vegar augljóst samt sem áður! Höfundur Jobsbókar var að mínu mati mikill snillingur og listamaður.


Allir geta gert mannleg mistök

Allir geta gert mannleg mistök. Meira að segja Jesús gat gert þau, ef marka má frásögn Markúsarguðspjalls af lífi hans! Í 2. kafla Markúsarguðspjalls segir meðal annars frá því þegar Jesús og menn hans tíndu kornöx á hvíldardegi. Farísearnir gagnrýndu Jesú fyrir að brjóta hvíldardagsboðorðið, og Jesús svaraði með þessum orðum:

"Hafið þér aldrei lesið, hvað Davíð gjörði, er honum lá á, þegar hann hungraði og menn hans? Hann fór inn í Guðs hús, þegar Abíatar var æðsti prestur, og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum."

Hérna er Jesús (eða öllu heldur höfundur Markúsarguðspjalls) eitthvað að ruglast. Hann er að vísa til sögu sem er í 21. kafla Samúelsbókar (1. Sam 21:1-10). Í þeirri sögu þáði Davíð skoðunarbrauðin af Ahímelek æðstapresti, er Davíð og menn hans voru á flótta undan Sál. Ahímelek var æðstiprestur, en ekki Abíatar. Hér ruglar Jesús (höfundur Markúsarguðspjalls) saman nöfnum. Abíatar varð æðstiprestur síðar, og Davíð þurfti ekki að þyggja neitt brauð af honum. Davíð og menn hans átu engin skoðunarbrauð þegar Abíatar var æðsti prestur. 

Þetta eru léttvæg mistök sem skipta engu máli, nema fyrir þá sem vilja halda því fram að Biblían sé óskeikul. Það er auðvelt að sýna fram á að Biblían sé skeikul. Þrátt fyrir það leggur fjöldi kristinna manna á sig ómælt erfiði til þess eins að verja auðhrekjanlega kenningu um að Biblían sé óskeikul.

Ef að ég væri kristinn, og ætlaði að stunda einhverja trúvörn, þá myndi ég nálgast málin öðruvísi. Ég myndi segja að það væri ónauðsynlegt fyrir kristindóm að hafa óskeikul trúarrit, og þanning myndi ég losna undan þeirri byrði að verja ýmsar óverjanlegar dogmatískar kenningar. Ég myndi benda á að frumkirkjan hafði fyrst í stað engar af bókum Nýja testamenntisins en dafnaði væntanlega alveg ágætlega engu að síður. Það skipti hana því varla nokkru máli hvort að bækur Nýja testamenntisins væru óskeikular eða skeikular, þær voru einfaldlega ekki til. Jóhannesarguðspjall varð t.d. ekki til fyrr en kirkjan hafði starfað í marga áratugi. Þetta er sú nálgun sem t.d. Craig A. Evans tekur í trúvarnarbók sinni "Fabricating Jesus".

Í skrifum krikjufeðranna er fyrst mögulega minnst á guðspjöllin á annarri öld, þegar að kirkjufaðirinn Justin Martyr talar um "endurminningar postulanna". Margir telja að hér sé Martyr að tala um guðspjöllin fjögur í Nýja testamenntinu. Það er t.d. fullyrt í hinni frægu bók "Case for Christ" eftir Lee Strobel. Ég er ekki viss um að Martyr sé að tala um hin fjögur guðspjöll sem rötuðu inn í Nýja testamenntið, þar sem t.d. hvorki Lúkas né Markús voru postular. En hver veit? Til eru tilvitnanir í Papías kirkjufaðir og biskup sem sagði í kringum árið 125 að ekki væri alveg hægt að treysta rituðum heimildum um Jesú, betra væri að taka munnmæla sögur trúanlegar. Papías átti ekki eitt einasta guðspjall sjálfur þó að fjórðungur væri liðinn af annarri öld eftir krist. Kenningin um óskeikulleika guðspjallanna (eða annarra bóka Nýja testamenntisins), getur því ekki hafa skipt kirkjuna miklu máli í árdaga. Ef ég væri trúvarnar maður myndi ég benda á þessa staðreynd, og hætta með öllu að reyna að sína fram á óskeikulleika Biblíunnar. 

Margir kristnir menn líta Biblíuna raunsærri augum en "óskeikulleikasinnarnir". Þeir segja að hún sé að einhverju leyti innblásinn vitnisburður um Guð og Jesú, o.s.fr.v, en viðurkenna einnig samtímis að hún sé mannleg og skeikul. Menn geta svo deilt um það hvort þeir hafi rétt eða rangt fyrir sér hvað varðar innblásturinn, en þeir hafa amk alveg örugglega rétt fyrir sér hvað varðar síðari þáttinn. Biblían er mannleg og skeikul.


Af bókstafstrúarmönnum og fundamentalistum

Oft er enska orðið fundamentalist þýtt sem „bókstafstrúarmaður“. Hinir upprunalegu fundamentalistar voru hins vegar ekki bókstafstrúarmenn. Orðið var fyrst notað sem einskonar heiti eða gælunafn yfir ákveðinn hóp manna á þriðja áratug 20. aldarinnar. Orðið var nánar tiltekið notað um þá höfunda sem komu að útgáfu ritraðar eða bókar í 12. bindum sem hét The Fundamentals. Tilgangur hópsins var að verja klassíkan evangelískan kristindóm gegn frjálslyndari guðfræði stefnum sem þá voru í uppgangi. Þeir vildu verja 5 grundvallar kenningar (ss enska heitið fundamentals).

Þær voru:

 1. Biblían er innblásin og villulaus

2. Meyfæðingin

3. Að Jesús hefði dáið fórnardauða fyrir syndir mannanna

4. Líkamleg upprisa Jesú Krists

5. Jesús gerði yfirnáttúruleg kraftaverk í þjónustu sinni

Þrátt fyrir að fundamentalistarnir hafi talið að Biblían væri villulaus, voru þeir ekki þeirra skoðunar að hana ætti alltaf að lesa bókstaflega. T.d. bendir ekkert til þess að neinn af upprunalegu fundamentalistunum hafi aðhyllst „ungjarðar sköpunarhyggju“. Ritstjórarar The Fundamentals voru þeir R. A. Torrey og A. C. Dixon.  Torrey sagði m.a. að sá sem tryði því að jörðin hefði verið sköpuð bókstaflega á sex dögum væri haldinn vonlausir vanþekkingu (hopless ignorance“). A. C. Dixon talaði gegn blindri tilviljunarkenndri þróun, en gat samþykkt darwíniska þróun með þeim fyrirvara að Guð hefði stýrt henni, eða svo ég vitni í æfisögu hans:

Dixon upheld the possibility that Darwinian evolution could find a place in the Bible, with God as the Evolver and evolution as his method of creation

 

Einhvertímann eftir daga Torreys og Dixons urðu arftakar þeirra fyrir áhrfium frá skrifum Aðventista um að jörðin væri ung og sköpunarsaga Biblíunnar „bókstafleg sagnfræði“ ef svo má segja. Rekja má þessar skoðanir Aðventista meðal annars til sýna og vitranna sem Guð á að hafa sýnt Ellen G. White spákonu Aðventista varðandi sköpunarsöguna. Í dag aðhyllast flestir fundamentalistar, sem rekja rætur sínar til hinna upprunalega fundamentalista, ung jarðar sköpunarhyggju, en samkvæmt henni var Jörðin sköpuð á 6 dögum, fyrir innan við 10.000 árum. Þeir hafa gleymt að gömlu hetjurnar þeirra voru ekki „sanntrúaðir“ sköpunarsinnar.

Um þetta allt saman má lesa í 7. kafla í trúvarnarbók sem ég las fyrir tæpum tveimur árum. Kaflinn heitir Genesis Through History, og bókin heitir Reason, Science and Faith. Hægt er að lesa hana á netinu, en hún nýtur sérstakra meðmæla Nicky Gumble, sem skrifaði Alfabækurnar og er höfundur og upphafsmaður Alfa námskeiðanna frægu. Höfundarnir eru í raun að mörgu leyti fundamentalistar af gamla skólanum. Einnig lifa þeir báðir í fullri sátt og friði við bæði 4,5 billjón ára jörð og þróunarkenninguna.

Bókin er hér: http://www.ivycottage.org/group/group.aspx?id=6826

 

Í dag hlustaði ég á upplestur úr bók eftir áðurnefndan R. A. Torrey á Lindinni. Bókin hefur verið þýdd yfir á íslensku af bókaforlaginu Vakningu og heitir „Að biðja sem mér bæri“. Hún fjallar einungis um bænina en ekkert um hluti á borð við aldur jarðar. Sumir hlustendur Lindarinnar yrðu eflaust hissa ef þeir vissu hvað Torrey hafði að segja um þá sem trúa á „Biblíulega sköpun“. Bókaforlagið Vakning sem þýddi bókina hefur gefið út smárit þar sem því er haldið fram að jörðin sé innan við 10.000 ára,  sköpuð bókstaflega á sex dögum, og að menn og risaeðlur hafi lifað samtímis. Ef Torrey hafði rétt fyrir sér varðandi sköpun jarðarinnar, eru þeir í Vakningu haldnir vonlausri vanþekkingu.


Sá yðar sem syndlaus er...

Ein al flottasta sagan í Nýja testamenntinu (og Biblíunni í heild), er saga sem birtist í Jóhannesi 7:53-8:11. Þar koma farísearnir og fræðimennirnir með konu til Jesú, sem staðin hafði verið að verki við það að drýgja hór. Þeir spyrja hvort það eigi að grýta hana, eins og lögmálið segi. Þetta er til að leiða Jesú í gildru. Jesús er hins vegar bæði snjall og djúpvitur, og kemst hjá því að þurfa annaðhvort að sýna af sér harðneskjulekt miskunarleysi, eða ella brjóta lögmál Móse. Hann svaraði: „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum." Fræðimennirnir og farísearnir sáu auðvitað í hendi sér að þeir væru ekki syndlausir, og hurfu því á brott einn af öðrum.

Þessi saga, eins og hún er nú góð, var hins vegar nánast alveg örugglega ekki upprunalega í Jóhannesarguðspjalli. Henni var bætt við það einhvertímann talsvert löngu eftir að guðspjallið var komið í almenna umferð. Ástæðurnar eru eftirfarandi:

  • - Þessi saga er aldrei í elstu og bestu handritum okkar af Jóhannesarguðspjalli.
  • - Sagan er skrifuð á ólíkri grísku, með ólíkum orðaforað, og ólíkum stíl, en annað í Jóhannesargupspjalli.

Þó að sagan sé ekki í neinum af elstu og bestu handritunum byrjar hún að birtast hér og þar eftir að tíminn leið (byrjar að koma inn á miðöldum), en ekki alltaf á sama stað. Stundum var hún t.d. sett á eftir versi 25 í 21. kafla Jóhannesarguðspjalls, og stundum fyrir aftan 38 versið í 21. kafla í Lúkasarguðspjalls.

Erasmus sá um að gefa út fyrsta prentaða eintakið af Nýja testamenntinu á grísku. Hann byggði að mestu á handriti sem hann fann í Basel, og var frá 12. öld. Erasmus virtist ekki hafa vitað að grísk handrit af bókum Nýja testamenntisins eru mjög misjöfn, og það þarf að bera þau vel saman til þess að vega og meta hvað í þeim eru viðbætur og breytingar, og hvað ekki. Aðeins þannig er hægt að komast nálægt því að vita hvað var upprunalega skrifað í bækur Nýja testamenntisins. Það eru til um 5700 grísk handrit af bókum Nýja testamenntisins, og það eru á milli 200.000 - 300.000 tilfelli þar sem þeim greinir á, þó að ágreiningurinn sé næstum alltaf smávægilegur eins og t.d. mismunandi orðaröð. Stundum er þó verulegur munur á innihaldi og merkingu í handritunum.

Handritið sem Erasmus byggði á innihélt ýmislegt sem fræðimenn í dag vita með talsverðri vissu að hafi ekki verið upprunalega í bókum Nýja testamenntisins.

Þegar King James Biblían var gefin út árið 1611, var byggt á gríska textanum hans Erasmus, sem þá hafði verið aðeins lítillega lagaður. Þannig komst meðal annars þessi saga af konunni sem staðin var að verki við að drýgja hór, og ýmis önnur vers sem ekki voru upprunalega í bókum Biblíunnar, inn í King James Biblíuna. King James Biblían hefur síðan haft mikil áhrif á aðrar Biblíu þýðingar.  Þó að söguna um konuna sem staðin var að verki við að drýgja hór vanti í elstu og bestu grísku handritin, þá var hún í 12. aldar handritinu hans Erasmus.  


Ó, þú flata jörð!

 

 

Ó, þú flata jörð!

Ég ætla hér að fjalla örlítið um heimsmynd Gamla testamentisins, og merkingu tveggja hebreskra orða: rakía (festingin) og tehóm (undirdjúpið). Höfundar Biblíunnar héldu að himininn (rakía) væri gerður úr föstu efni, og væri ofan á flatri jörðinni, eins og skál á hvolfi. Einnig töldu þeir að jörðin væri staðsett ofan á stóru djúpu hafi, sem hét tehóm á hebresku. Ég byggi að miklum hluta á greinum eftir Paul H. Seely sem ég vísa til neðst. Tvær þeirra birtust í hinu fremur íhaldssama kristna guðfræðiriti Westminster Theological Journal. Þessari umfjöllun er ekki ætlað að vera ítarleg eða nákvæm. Einungis er um smá kynningu á heimsmynd Biblíunnar að ræða.

 

Rakía

Í sköpunarsögu 1. kafla 1. Mósebókar, segir frá sköpun festingarinnar. Í versum 6 og 7 segir:

6Guð sagði: "Verði festing milli vatnanna, og hún greini vötn frá vötnum." 7Þá gjörði Guð festinguna og greindi vötnin, sem voru undir festingunni, frá þeim vötnum, sem voru yfir henni. Og það varð svo.

Og í 8. versi stendur: "Og Guð kallaði festinguna himin". 

Hebreska orðið rakía er hér þýtt sem festing. Samkvæmt hebreskum orðabókum er þetta orð notað yfir himin úr föstu efni, sem var talinn vera ofan á jörðinni (sem var flöt) eins og skál á hvolfi sem huldi jörðina eins og stór hvelfing, sem haldið var uppi með stoðum (Job 26:11 nefnir t.d. stoðir himins). Til eru heimildir um vangaveltur gyðinga um það úr hvaða efni himna festingin væri nákvæmlega gerð, og voru þá einkum þrjú efni sem menn nefndu sem möguleg byggingarefni himinsins: kopar, járn eða leir. Hin náskylda sögn „raka" er notuð í 2. Mósebók 39:3 um það að berja gull í þunnar plötur, og gefur til kynna að rakía merki eitthvað sem hefur verið mótað og barið til.

E. J. Young, sem var að mörgu leyti framúrskarandi guðfræðingur, og íhaldssamur trúmaður sem taldi Biblíuna óskeikula, skilgreindi rakía svo í bók sinni "Studies in Genesis One": "That which is hammered, beaten out"

Í ljósi þess að við vitum nú hvernig Hebrearnir sáu fyrir sér himininn, er athyglisvert að skoða ýmis vers, og hér nefni ég aðeins örfá af mörgum áhugaverðum:

Í 1. Mósebók 1:14-17 festir Guð stjörnurnar, tunglið og sólina í festinguna (rakía).

Í 1. Mósebók 1:20 sést að fuglarnir fljúga undir himninum. Það ætti að gefa auga leið. Þeir geta auðvitað ekki flogið í himninum sjálfum, þar sem hann er úr föstu efni.

Í 1. Mós 7:11 sést svo hvernig guð opnaði flóðgáttir himinsins, til að vatnið sem var ofan á himninum gæti fallið niður á jörðina í Nóaflóðinu. Hægt er að sjá fyrir sér að hann opni flóðgáttirnar líkt og glugga. Við þurfum svo að muna að samkvæmt 1. Mós 1:7 var mikið vatn ofan á festingunni. Að auki segir Sálmur 148:4: „Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum." Í 1. Mós 8:2 er svo flógáttunum lokað, og þá hættir að rigna.

Í Jobsbók 37:18 stendur að himininn sé fastur eins og steyptur spegill.

Í Amos 9:2 segir: „þótt þeir stígi upp til himins, þá skal ég steypa þeim ofan þaðan." Hér kemur fram sú hugsun að himininn sé ofan á jörðinni - og hugsanlega geti menn komist þangað upp - það var reyndar trú fólks um allan heim áður en raunvísindin komu mönnum í skilning um hið raunverulega eðli „himinsins" að menn gætu klifrað uppá himnahveflinguna. Seely rekur þetta atriði í einni af greinunum sem ég vísa í hér neðst.

Einnig verða vers eins og Jesaja 40:22 skemmtileg þegar maður hefur heimsmynd Hebreanna í huga: „Það er hann, sem situr hátt yfir jarðarkringlunni, og þeir, sem á henni búa, eru sem engisprettur. Það er hann, sem þenur út himininn eins og þunna voð og slær honum sundur eins og tjaldi til þess að búa í."

Að lokum skulum við kíkja á Orðskvið 8:27-28, en þar er líka talað um hafdjúpið, sem er viðfangsefni seinni hluta þessa pistils: „Þegar hann gjörði himininn, þá var ég þar, þegar hann setti hvelfinguna yfir hafdjúpið, þegar hann festi skýin uppi, þegar uppsprettur hafdjúpsins komust í skorður"

Tehóm

Þá er komið að umfjölluninni um tehóm. Hér byrjum við í 1. Mósebók 1:2, en þar segir: „Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum."

Hebreska orðið theóm er hér þýtt sem „djúpið". Hebrearnir trúðu því að jörðin (sem var talin flöt) væri staðsett ofan á djúpu hafi, sem var bæði undir henni, og í kringum hana. Hún var svo studd með stöplum til þess að hún sykki ekki. Djúpa hafið undir jörðinni hét tehóm. Nánari vitneskju um orðið er hægt að finna í greininni sem ég vísa til hér að neðan um það efni.

Við skulum bara vinda okkar beint í það hvernig þessi hugmynd birtist víða í Biblíunni.

Í Nóaflóðinu þá opnaði Guð uppsprettur hins mikla undirdjúps (theóm), og flæddi þaðan vatnið upp á jörðina - og ekki hætti flóðið fyrr en Guð hafði lokað uppsprettunum sjá, 1. Mós 7:11 og 8:2.

Í Sálmi 24:1-2 stendur: "Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa. Því að hann hefir grundvallað hana á hafinu og fest hana á vötnunum."

Í Sálmi 136:6 er Guði sem „breiddi jörðina út á vötnunum" sungið lof.

Í 1. Mós 49:24-25 stendur: „Sá styrkur kom frá Jakobs Volduga, frá Hirðinum, Hellubjargi Ísraels, frá Guði föður þíns, sem mun hjálpa þér, frá Almáttugum Guði, sem mun blessa þig með blessun himinsins að ofan, með blessun djúpsins (tehóm), er undir hvílir, með blessun brjósta og móðurlífs."

5. Mós 33:11: „Um Jósef sagði hann: Blessað af Drottni er land hans með himinsins dýrmætustu gjöf, dögginni, og með djúpinu (tehóm), er undir hvílir"

Einhver fleiri dæmi er hægt að týna til, en ég læt þetta duga í bili.

Lokaorð

Margar heimildir sýna að fólk um allan heim taldi himininn vera úr föstu efni, þar til vísindum fór að fleyta fram. Afskekktir þjóðflokkar sem enn eru ekki undir áhrifum nútíma raunvísinda eru enn þessarar skoðunar. Þetta rekur Paul H. Seely ítarlega í greinunum sem ég styðst við.

Hebrear höfðu sömu sín á heiminn og samtímamenn þeirra. Hvernig áttu þeir að vita betur en aðrir? Ekkert bendir til þess að þeir hafi verið afburðamenn í raunvísindum, þó að þeir hafi vissulega verið framúrskarandi bókmenntaþjóð.

Það er í sjálfu sér engin ástæða til að gerast trúleysingi af þeim sökum einum að Biblían segi að jörðin sé flöt, og sé staðsett ofan á djúpu hafi, og himinin sé hvelfing úr föstu efni. Margir mjög trúaðir menn úr röðum gyðinga og kristinna manna, gera sér vel grein fyrir þessu. Það er hins vegar alveg ljóst að Biblíuna ber ekki að nota sem raunvísinda kennslubók. Andstaða við viðteknar staðreyndir á sviðum líffræði og jarðfræði, á grundvelli þess sem Biblían kann að virðast segja um þau mál, er fráleit.

 

---- 

Hér er hægt að finna greinarnar, en þar er miklu ítarlegri og betri umfjöllun:

The Geographical meaning of "earth and "seas" in Genesis 1:10 http://faculty.gordon.edu/hu/bi/Ted_Hildebrandt/OTeSources/01-Genesis/Text/Articles-Books/Seely_EarthSeas_WTJ.pdf

The Firmament and the water above http://faculty.gordon.edu/hu/bi/Ted_Hildebrandt/OTeSources/01-Genesis/Text/Articles-Books/Seely-Firmament-WTJ.pdf

The Firmament and the water above part II (Þessi grein fjallar sérstaklega um kenningar sköpunarvísindamanna um þetta efni). http://www.thedivinecouncil.com/seelypt2.pdf

 

 


Lýst er eftir týndum Biblíuversum

Matteus 27:9 segir: „Þá rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns: "Þeir tóku silfurpeningana þrjátíu, það verð, sem sá var metinn á, er til verðs var lagður af Ísraels sonum"

- Hvar stendur þetta í spádómsbók Jeremía? Svar: hvergi. Höfundur Matteusarguðspjalls er eitthvað að ruglast. Nánar tiltekið ruglar hann saman Jeremía og Sakaría, þar sem Sakaría 11:12-13 segir eitthvað í líkingu við það sem höfundur Matteusar segir að Jeremía hafi sagt.

 

Matteus 2:23 segir: „Þar settist hann að í borg, sem heitir Nasaret, en það átti að rætast, sem sagt var fyrir munn spámannanna: "Nasarei skal hann kallast."“

- Hvar er þennan spádóm spámannanna sem Matteus er að vísa til að finna? Svar: hvergi. Höfundur Matteusarguðspjalls er eitthvað að steypa.

 

Markús 1:2 segir: "Svo er ritað hjá Jesaja spámanni: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er  greiða mun veg þinn."

- Hvar stendur þetta hjá Jesaja spámanni? Svar: hvergi. Höfundur Markúsarguðspjalls hefur eitthvað fipast. Hann ruglar saman Jesaja og Malakí, sjá Malkí 3:1

 

Þetta er eitthvað dularfullt Wink

Höfundar guðspjallanna rugluðust oft þegar þeir vitnuðu í spámennina, fundu stundum upp spádómana jafn óðum og þeir þurftu á þeim að halda, og stundum beittu þeir afar frjálslegri og samhengislausri túlkun, auk þess sem Biblía þeirra var allt öðruvísi en "Gamla testamenntið" okkar.

Sem dæmi um samhengislausa og "frjálsa" túlkun höfundar Matteusarguðspjalls, er þegar hann vísar til spádóms í 7 kafla Jesajabókar um Immanúel, og segir að um sé að ræða spádóm um fæðingu Jesú Krists. Spádómnum er beint til Akasar, þáverandi Júda konungs, og honum sagt að þegar Immanúel fæðist, þá sé það til marks um að bráðum verði lönd tveggja óvina hans að auðn, eða áður en Immanúel yrði nógu gamall til að þekkja muninn á góðu og illu. Akasa óttaðist einmitt innrás þessara tveggja óvina sinna í Jerúsalem. Immanúel hefur ekki mikið með Jesú að gera.


Skítugu stelpurnar

Samkvæmt 3. Mósebók 12:1-5 verða konur sem fæða börn andlega óhreinar og mega ekki koma í musteri Drottins. 

Nýfæddar stúlkur eru augljóslega mun sóðalegri en drengir. Kona sem eignast dreng, telst óhrein í viku, og má ekkert heilagt snerta eða inn í helgidóminn koma fyrr en eftir 33 hreinsunardaga. Kona sem eignast stúlku telst hinsvegar óhrein í hálfan mánuð, og þarf 66 hreinsunardaga.

Svo mörg voru þau orð. Ég skrifa eitthvað meira seinna.


« Fyrri síða

Um bloggið

Sindri Guðjónsson

Höfundur

Sindri Guðjónsson
Sindri Guðjónsson

Ég heiti Sindri! Ég er trúlaus, og blogga hér aðallega um Biblíuna. (Ég er að vísu sem betur fer hættur þessu stússi)

 

Þú getur haft samband: sindri79(a)gmail.com

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • ...itvig
  • ...ysyvq
  • ...100_2438

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband