Dæmisagan um konunginn

Ég var í mörg ár evangelískur, náðargjafarvakningar, næst um því bókstafstrúarmaður, sem þýðir að ég átti mesta samleið með Hvítasunnukirkjum, og söfnuðum á borð við Veginn, Krossinn og Kærleikann (sem var ekki til þegar ég var trúaður). Eftir nokkur ár, var ég kominn með upp í kok af þessari tegund af kristindómi af ýmsum ástæðum. Það var byrjað að fjara undan trú minni, og ég var farinn að leita í bækur eftir kristna hugsuði úr ýmsum kirkjudeildum, til að athuga hvort einhver þeirra gæti höfðað betur til mín, eða hvort eitthvað frá þeim mætti nota til að betrumbæta þann kristindóm sem ég hafði aðhyllst. Kristindómur gekk alls ekki lengur upp í mínum huga. Eitt af hundruðum atriða sem "bögguðu" mig, var að mér fannst hálf sturlað, ef ég hugsaði aðeins út í það, að Guð hafi sent son sinn, sem var sjálfur pabbi sinn, til að deyja, af því að allir voru syndarar, út af því að kona sem var mynduð af rifi manns síns, át ávöxt af einhverskonar töfra tré, og að þeir sem tryðu þessu myndu öðlast eilíft líf, en þeir sem tryðu þessu ekki, myndu öðlast eilífa refsingu. (Ég taldi lengst af, að eilífa refsingin væru eilífar kvalir í helvíti, en beygði út af í þeim efnum eitthvað áður en ég hætti að trúa.) 

Ein al besta tilraunin sem ég fann til að gera kristindóminn sæmilega aðlaðandi, ósturlaðan og sanngjarnan, kom frá manni sem hét Aþanasíus. Hann lifði á 4. öld, og er mjög mikilvægur guðfræðingur í Réttrúnaðarkirkjunni (sbr. Gríska Réttrúnaðarkirkjan, Rússneska Réttrúnaðarkirkjan, o.s.frv.). Hann setti fagnaðarerindið fram með dæmisögu, sem var einhverveginn svona:

"Einu sinni var góður kóngur, sem átti mikið konungdæmi með mörgum borgum. Í fjarlægri borg nýttu þegnarnir sér það frelsi sem konungurinn hafði gefið þeim til að gera það sem var rangt. Eftir nokkurn tíma fóru þeir að hafa áhyggjur af því að konungurinn myndi refsa þeim. Smám saman byrjuðu þeir að hata konunginn. Þeir urðu sannfærðir um að þeir væru betur settir án konungsins, og lýstu yfir sjálfstæði borgarinnar.

Fljótlega var hver farinn að gera það sem honum sýndist. Hver höndin var uppi á móti annarri í borginni. Ofbeldi, hatur, lygar, morð, nauðganir, þrælahald, ótti. Konungurinn hugsaði með sér: "Hvað á ég til bragðs að taka? Ef ég ræðst inn í borgina með hervaldi, mun fólkið berjast gegn mér, og ég mun þurfa að drepa svo marga, og þeir sem munu ganga ríki mínu á hönd, munu einungis gera það sökum þeirrar ógnunar sem stafar af hervaldi mínu. Þegnarnir munu hata mig meir en áður. Hvað stoðar það fólkið, ef ég drep það, eða fangelsa það, eða geri það reitt við mig? En ef ég læt þau eiga sig, munu þau gera útaf hvert við annað. Það hryggir mig að hugsa til þeirra þjáninga sem fólkið er að valda hvort öðru.

Konungurinn ákvað að lokum að gera nokkuð óvænt. Hann fór úr sínum konunglega skrúða, og klæddi sig í tötra. Hann fór til borgarinnar, og settist þar að í auðu húsi, við hliðina á öskuhaug. Hann hóf rekstur. Hann fór að vinna við að gera við ónýt húsgögn og annað sem þurfti að laga. Góðvild og heiðarleiki konungsins var svo mikill að fólk hændist mjög að honum. Menn fóru að deila með konunginum áhyggjum sínum og öðru sem hvíldi á þeim, og biðja um ráðleggingar. Hann sagði þeim að uppreisnarmennirnir hefðu blekkt borgarbúa, og betra væri að lifa eftir boðum konungsins, líkt og hann sjálfur gerði. Smám saman vann hann marga borgarbúa á sitt band. Þeir höfðu svo áhrif á samborgara sína, þar til á endanum öll borgin sá eftir uppreisninni, og vildi snúa aftur undir verndarvæng konungsins. En borgarbúar skömmuðust sín, og þorðu ekki að fara til konungsins, þar sem þeir töldu að hann myndi örugglega refsa þeim. En konungurinn í dulargervinu sagði þeim þá góðu fréttirnar: Hann var sjálfur konungurinn, og elskaði þá. Hann héldi engu gegn þeim, og bauð þá velkomna aftur í konungsríki sitt."  (A Generous Orthodoxy. Brian D. McLaren. Bls 57-58).

(Meðal vandamála við þessa dæmisögu er það, að ýmislegt í henni er ekki sérlega Biblíulegt, þegar betur er að gáð. Sagan er snjöll, engu að síður.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Persónuleg spurning. Hvað í upphafi olli því að þú varst trúlaus.

Guðrún (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 00:21

2 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Það er ekki skrítið að spyrja persónulegrar spurningar sem svari við svona persónulegri bloggfærslu

Ástæðurnar voru fyrst og fremst þær, að því betur og meir sem ég las Biblíuna, því mannlegri og gallaðri virtist hún mér, og þeim mun erfiðara fannst mér að trúa því að hún væri bók frá Guði. Hvað þá óskeikult og myndugt Orð Guðs. Mér fannst mörg boð hennar fráleit. Mér fannst hún oft boða rangt siðferði. Mér fannst ömurlegt að lesa um þjóðarmorðin sem Guð skipaði Ísraelsmönnum að fremja. Mér fannst ýmsar frásögur, t.d. um upprisuna, algjörlega ósamrýmanlegar, t.d. upprisusögurnar svo að fátt eitt sé nefnt. Bækur Gamla testamenntisins eru oft í hrópandi mótsögn hver við aðra. Mér fannst líka meðferð Guðspjallana á Gamla testamenntinu skrítin (ótrúlegustu hlutir túlkaðir sem spádómar um Jesú). Skrítið að sjá rangar tilvitnanir í Gamla testamenntið, og Jesús fara vitlaust með sögur (og ef ekki Jesú, þá amk þeir sem skrifuðu Guðspjöllin, en það er nóg til að veikja áreiðanleika guðspjallanna). Það skipti líka máli á endanum, þegar ég áttaði mig á því að sumur sögur í Guðspjöllunum, eru ekki í elstu og bestu handritunum, heldur komu inn í miklu seinna. Af ýmsum ástæðum hætti Biblían að vera trúverðug, og kristndómur sem ekki var amk að miklu leyti grundvallaður á Biblíunni, kom ekki til greina hjá mér.

Ég man ennþá þegar ég var að lesa Sakaría 14 eitt sinn, og hugsaði, hvaða steypa er þetta eiginlega? Á þessi spadómur einhverntímann eftir að rætast? Verða hestar með bjöllur í þúsund ára ríkinu, og sérstök refsing fyrir Egypta? (kaflinn er af sumum talinn lýsa þúsund ára ríkinu, en hvort sem það er tilfellið eða ekki, þá trúði ég þessu bara ekki). 

Þannig að svarið er Biblían olli því að ég varð trúlaus.

Sindri Guðjónsson, 22.2.2009 kl. 02:27

3 identicon

En hvernig komstu samt að þeirri niðurstöðu að þá væri bara ekki til Guð eða eitthvað okkur æðra hvað sem við viljum svo sem kalla það?

Biblían er auðvitað bara samansettar gróusögur og oft á köflum hrikaleg lesning, allavega mæli ég ekki með henni fyrir son minn.

En getur ekki samt verið að það sé skapari á bakvið þetta allt saman, að við þurfum bara ekki a vera svona þröngsýn á hlutina. Allt er orka eins og eðlisfræðin hefur sannað, og getur þá ekki verið einhver orka til sem er okkur æðri. Sem við þurfum kannski ekki að hafa neina áhyggjur af eða pæla of mikið í. Mér finnst bara svo þröngsýnt að segja að það sé ekkert æðra eða annað til sem við ekki getum snert á.

Bara pælingar, er að finna þetta út fyrir mig sjálfa...;) Annars finnst mér þetta blogg þitt algjör snilld og mjög nauðsynlegt að tala hátt um það hvað biblían og það að lifa eftir henni sem einhverjum heilögum sannleika er í raun hættulegt svo ekki sé minnst á furðulegt. Greint fólk á að vita betur.

kv Dögg

Dögg (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 14:49

4 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Sæl Dögg. Er búinn að vera smá upptekinn.

Ég veit ekkert um það hvort að það sé kannski einhver skapari á bak við þetta allt saman. Kannski voru það fimm "hlutir" eða "orkur" sem sköpuðu heiminn? Mér finnst kenningin um Guð vera svar við spurningunni, afhverju er eitthvað, frekar en ekkert. Við vitum ekki af hverju. Tilvera okkar er furðuleg, og mér finnst "Guð" ekki vera svar sem útskýrir furðuleg heitin. Hvers vegna er þá til Guð, frekar en enginn Guð? Hvernig varð hann til? Hvernig getur hann alltaf hafa verið til? Hvernig er það hægt? Hvað var Guð lengi það eina sem var til? 

Ég hætti að trúa á Jahve-Jesú guð, og byrjaði ekki að trúa á neinn í staðinn. Þannig að ég trúi ekki á neinn guð, án þess að útiloka að "guðir" séu til. Eftir því sem ég best veit er heimurinn náttúrulegur, og engir galdrar neinstaðar. Mér finnst "the problem of evil", benda til að Guð sé ekki til. Hvaða Guð myndi hanna líf þar sem þjáning er yfirgnæfandi, menn urðu til eftir að milljónir tegundu höfðu dáið út í harðri lífsbaráttu. Hvers eiga mýs að gjalda, að vera skapaðar þannig að kettir leiki sér að því að drepa þær og borða? Af hverju eru ormar sem lifa á því að bora sig í gegnum augun á spendýrum, og geta ekki lifað öðruvísi? Fullt af afrískum börnum þjást út af þessum ormi. Hvers vegna eru grilljónir silljónir kílómetrar af líflausum sólkerfum og vetrarbrautum? En það breytir því ekki að kannski getur einhver "Guð" verið til.

"If you look up 'atheism' in a dictionary, you will probably find it defined as the belief that there is no God. Certainly many people understand atheism in this way. Yet many atheists do not, and this is not what the term means if one consider it from the point of view of its Greek roots. In Greek 'a' means 'without' or 'not' and 'theos' means 'god.' From this standpoint an atheist would simply be someone without a belief in God, not necessarily someone who believes that God does not exist. According to its Greek roots, then, atheism is a negative view, characterized by the absence of belief in God." Michael Martin, Atheism: A Philosophical Justification, (Philadelphia: Temple University Press, 1990), p. 463.

Sindri Guðjónsson, 23.2.2009 kl. 10:06

5 identicon

Hæ hæ,

Ég skil alveg hvað þú ert að meina, guðinn sem biblían boðar er væntanlega ekki til, eða ég trúi því allavega ekki. Það þarf ekki mikið common sense til að átta sig á því.

En ætli mér finnist orðið trúlaus ekki soldið þröngsýnn stimpill. Þrátt fyrir að ég aðhyllist engin trúarbrögð sem maðurinn hefur búið sér til þá veit ég ekkert frekar en næsti maður hvort að einhver orka ólík okkur í formi sé á bakvið þetta allt saman eða hvað gerist eftir dauðann.

Hef svo sem engar áhyggjur af því þannig, eins og ég hef sagt undanfarin ár, ef það það er til einhver guð þá veit hann hvar mig er að finna, ég ætla ekki að eyða ævinni í að leita að honum og hans óskiljanlega vilja. Lífið er of dýrmætt og skemmtilegt til þess :)

En vil bara ekki festast í þröngsýninni og loka hurðinni á allt þó svo ég hafi fattað að biblían er bull ;)

kv Dögg

Dögg (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 11:04

6 Smámynd: Sindri Guðjónsson

En Dögg, kannski er til Guð sem verðlaunar bara þá sem tóku þá skynsamlegu og rökréttu ákvörðun að trúa á engan Guð, en refsar þeim sem trúðu á Guð, jafnvel þó að engar góðar eða nægjanlegar vísbendingar hafi bent til að Guð væri til. Getur þú tekið áhættuna á því að vera ekki trúlaus? Það gæti komið niður á þér eftir dauðann, heldur betur!

Sindri Guðjónsson, 23.2.2009 kl. 11:33

7 identicon

haha já og svona gæti maður haldið áfram endalaust....hvað ef hvað ef hvað ef.......

Ég ætla bara ekki að eyða lífinu í þá vitleysu, ég geri bara það besta úr því sem ég hef og fylgi minni eigin sannfæringu og hugviti....skelli svo smá kæruleysi í þetta og segi bara "þetta reddast"

Ef það væri til guð sem refsaði eða verðlaunaði en væri ekki sanngjarn með val þar á milli þá væri það ansi skítt....ég trúi því bara hreinlega ekki. Held að það sé hvorki refsing né verðlaun nema þau sem við upplifum í þessu lífi. ;)

En haltu áfram að fræða okkur á þessu bloggi, rosalega gaman að lesa færlurnar þínar, maður nýtur góðs af því að þú hafir nennt að liggja yfir þessu fræðum í nokkur ár :)

Bestu kveðjur í kotið þitt

Dögg (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sindri Guðjónsson

Höfundur

Sindri Guðjónsson
Sindri Guðjónsson

Ég heiti Sindri! Ég er trúlaus, og blogga hér aðallega um Biblíuna. (Ég er að vísu sem betur fer hættur þessu stússi)

 

Þú getur haft samband: sindri79(a)gmail.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...itvig
  • ...ysyvq
  • ...100_2438

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband