2.2.2008 | 22:15
Risi í járnrúmi - lítið sýnishorn úr skrítinni veröld.
Heimur Biblíunnar var skemmtilegur og stór undarlegur. Hér er örlítið sýnishorn:
- Guð verður þreyttur og hvílir sig á 7 degi sköpunarsögunnar. Seinna gengur hann um í kvöldsvalanum í aldingarðinum, og leitar að Adam og Evu.
- Höggormur talaði við Evu. (1. Mós 3)
- Guð bölvar höggorminum, og skipar honum að skríða um á maganum og borða mold framvegis.
- Menn urðu allt að tæplega þúsund ára gamlir, og auðveldlega mörg hundruð ára. (1. Mós 5 t.d.)
- Synir Guðs tóku sér fagrar dætur mannanna, höfðu við þær samfarir og eignuðust börn. Börnin urðu risar og hetjur, sem bættust í hóp risa sem voru fyrir á jörðinni. (1. Mós 6)
- Flóð hylur alla jörðina og drepur alla menn og öll dýr, nema þau sem lifa af um borð í stórri tré örk. (1. Mós 7 og 8)
- Guð steig niður af himni til að skoða borg og turn sem mennirnir höfðu gert. Í framhaldinu ruglar Guð tungumálum mannanna og dreifir þeim um jörðina. (1. Mós 11)
- Kona Lots leit um öxl og breyttist í saltstólpa. (1. Mós 19:26)
- Með því að skafa af trjágreinum börkinn, og láta greinarnar svo í vatnsrennur sauðfés, er hægt að láta ær eignast rílótt, sprekklótt og flekkótt lömb. (1. Mós 30:37-19)
- Stafur breytist í eiturslöngu, og svo aftur í staf. (2. Mós 4) Seinna breytast margir stafir í eiturslöngur, en ein þeirra borðaði allar hinar, og breyttist svo aftur í staf. (2. Mós 7:8-13)
- Allar ár og öll vötn í Egyptalandi breyttust í blóð. (2. Mós 7)
- Hérar voru jórturdýr. (3. Mós 6:11)
- Menn færa Guði eldfórnir, sláturfórnir, og brennifórnir. Lyktin stígur upp til Guðs og honum finnst lyktin af fórnunum góð. (Víða í 3. Mós og 4. Mós) Sumstaðar er talað um að menn færi Guði mat. Hvað skyldi Guð þurfa margar hitaeiningar á dag? (3. Mós 21:16-24. " Hafi einhver niðja þinna, nú eða í komandi kynslóðum, lýti á sér, þá skal hann eigi ganga fram til þess að bera fram mat Guðs síns. ... eigi skal hann koma fram til þess að bera fram mat Guðs síns.")
- Ef að karlmenn grunuðu konur sínar um að hafa haldið fram hjá sér, áttu þær að drekka drullumall af gólfinu, blandað vígðu vatni. Guð sá svo til þess að gera þær veikar, ef þær voru sekar. Ef þær voru hins vegar saklausar, varð þeim ekki meint af kokteilnum. Þannig var hægt að eyða óvissu eiginmannsins, og sekar konur fengu sanngjarna refsingu. (4. Mós 5:11-31)
- Jörðin opnaðist og gleypti ákveðið fólk sem var í uppreisn gegn Móse. Fólkið hrapaði lifandi niður til heljar, ásamt öllum sínum eignum og húsum. (4. Mós 16:31)
- Asni talaði við mann sem hét Bíleam og spyr afhverju Bíleam berji sig. Í stað þess að verða forviða af undrun yfir hinum talandi asna, svarar Bíleam spurningu asnans eins og ekkert óðeðlilegt hafi gerst og segir: Þú gerir gys að mér. Hefði ég sverð í hendi mundi ég drepa þig, og asninn svarar auðvitað fyrir sig: Er ég ekki þín asna sem þú hefur riðið alla ævi þar til nú? Hef ég haft það fyrir vana að fara þannig með þig? (4.Mós 22:28-30)
- Konungur nokkur að nafni Óg var risastór, enda kominn af risum. Rúm hans var úr járni, 4,5 metrar að lengd, og tveir metrar að breidd. (5. Mós 3:11)
- Guð kastar sjálfur stórum steinum af himni ofan niður á óvini Hebreanna (Jós 10:11. Þetta sést því miður ekki mjög vel í 1981 þýðingunni, en er skýrt í hebreska textanum, nýju þýðingunni, og þeim erlendu þýðingum sem ég hef skoðað.)
- Sólin stöðvaðist á ferð sinni yfir himininn, og stóð kyrr fyrir ofan stað sem hét Gíbeon, til þess að Hebrear fengju næga birtu til að slátra óvinum sínum. (Jós 10:13 skemmtilegt er að hafa pistilinn minn Ó þú flata jörð í huga varðandi þessar sögur í 10 kafla Jósúabókar.)
- Drottinn var með Júdamönnum og hjálpaði þeim að berjast til sigurs gegn óvinum sínum. Það dugði þó ekki til gegn íbúum sléttlendisins, þar sem þeir áttu járnvagna. (Dóm 1:19)
- Jael, kona Hebers, þreif tjaldhæl og tók hamar í hönd sér og gekk hljóðlega inn til Sísera sem fallinn var í fastasvefn því að hann var þreyttur. Hún rak hælinn gegnum gagnauga hans svo að hann gekk í jörð niður. Varð þetta hans bani. (Dóm 4:17) Eitthvað þekkir maður þennann stíl úr Íslendingasögunum.
- Maður drap þúsund manns með einn asnakjálka (bein) að vopni. (Dóm 15:15-17)
- Guð berst við eldspúandi sæskrímsli (Job 41)
- Maður er gleyptur af stórum fiski, og er í maga hans í þrjá daga og þrjár nætur, en lifir það af, og kemur sprelllifandi og hress úr maganum. (Jónas 2)
- Axarhöfuð flaut á vatni. (1. Kon 6)
- Salómon átti 700 eiginkonur (allar konungbornar), og 300 hjákonur. Ef að konurnar hans Salómons hefðu komið í þáttinn hans Dr. Phil, hefði Phil spurt: Can yall get him to do anything? (1. Kon 11:3)
- Golíat var fjórir metrar að hæð, og hefði smell passað í rúm Ógs frænda síns. (1. Sam 17:4)
- Maður að nafni Absolon var myndarlegasti maður í Ísrael, og lét reglulega raka af sér hárið. Ekki veitti af, því það gat vegið allt að 2,5 kíló og verið honum til trafala. (2. Sam 14:25-26)
- Maðurinn Gat var risastór, og af risa ættum. Hann hafði 12 fingur og tólf tær. (2. Sam 21:20) Bróðir minn fæddist með 11 fingur, þannig að ef ég væri ekki fremur lágvaxinn, myndi ég ætla að ég væri eitthvað skyldur þessum Gat
- Guð, eða Djöfullinn, fær Davíð til að taka manntal. Guð drepur svo 70.000 gyðinga í refsingarskyni fyrir manntalið, þar sem það var synd að telja fólk. Einhverjir myndu halda að Guð hafi með þessu brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna. (2. Sam 24. 1. Kron 21)
- Guð berst við sæskrímsli sem heitir Levjatan. (Sálmur 74:13-14)
- Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna. (Sálmur 82:1)
- Guð blístrar á flugur, og rakar bæði höfuðhár, skaphár og skegg, með leigðum rakhníf. (Jes 7:18,20) - (Þetta er eitthvað táknmál hjá Jesaja spámanni)
- Sólin bakkaði afturábak á ferð sinni yfir himininn. (Jes 38:8)
- Guð banar skrímsli og dreka. (Jesaja 51:9)
- Þegar Guð úthellti sinni brennandi reiði yfir Síon suðu konur sín eigin börn sér til matar. (Harm 4:10-11)
- Guð gaf lýðnum óholl boðorð og lög sem leiddu til ólífis og lét fólk brenna frumburði sína í eldi. Þetta gerði hann til þess að fólki mætti ofbjóða og gera sér grein fyrir því að Guð sé Drottinn. (Es 20:25-26)
- Dalbotn nokkur var þakinn dauðra manna beinum, sem Guð þakti holdi og reisti upp frá dauðum og úr varð geysifjölmennur her. (Es 37:1-10)
- Guð fer í vont skap og segir prestunum að ef þeir hlýði ekki, muni hann strá saur framan í þá, og höggva af þeim höndina. (Mal 2:3) Þetta er kannski ekki svo skrítið. Það er vel þekkt að prestar eru oft til vandræða.
- Stjarna á himnum getur vísað mönnum veginn að ákveðnu þorpi, og leitt menn að ákveðnu húsi. (Jólaguðspajllið)
- Fjöldi löngu dáinna manna reis upp frá dauðum í Jerúsalem, og örkuðu um götur bæjarins og birtust mörgum. (Matt 27:50-53)
Já, veröldin nú orðið er eitthvað hálf lítilfjörleg, grá og hversdagsleg, samanborið við heim Biblíunnar.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 22.3.2008 kl. 00:09 | Facebook
Um bloggið
Sindri Guðjónsson
Færsluflokkar
Tenglar
Biblían
Frábær og gagnleg heimasíða. Þarna er hægt að lesa bæði nýju þýðinguna, og hina gömlu góðu 1981 þýðingu.
- Hebrew - English Bible
- Biblían Frábær og gagnleg heimasíða. Þarna er hægt að lesa bæði nýju þýðinguna, og hina gömlu góðu 1981 þýðingu.
Bloggvinir
- lexkg
- andres
- alla
- bjolli
- geiragustsson
- gudnim
- godinn
- hjaltirunar
- jevbmaack
- prakkarinn
- rosaadalsteinsdottir
- sigurgeirorri
- nerdumdigitalis
- truryni
- styrmirh
- svanurmd
- stormsker
- vefritid
- postdoc
- fsfi
- axelpetur
- gattin
- brandarar
- eyglohjaltalin
- hleskogar
- ljonas
- andmenning
- kt
- durban2
- sviss
- hvala
- svenni
- nordurljos1
- vest1
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Já Sindri og öllu þessu trúði þú, hvað gerðist? Hvað varð til þess að þú hættir að trúa?
Aðalbjörn Leifsson, 3.2.2008 kl. 08:34
Sæll Sindri og takk fyrir innlitið hjá mér. Þar skrifaði ég: "Sindri. Ég las nýjasta pistilinn þinn. Þetta voru svo mörg atriði í einu. Ef einhver treystir sér að pæla í öllu þessu þarf viðkomandi bæði að vera vel lesinn eins og þú og eiga góðan tíma í stúderingar. Ég þyrfti örugglega viku." Kannski meira. Shalom kæri Sindri
Rósa Aðalsteinsdóttir, 3.2.2008 kl. 11:33
Þarna í byrjun átti Adam aðra konu, sem var líka búin til úr drulluköku. Hún hét Lilith. Sú vildi ekki þýðast honum og því fékk hann nýja. Af hverju vantar ekki eitt rifbein í karlkynið? Af hverju sýna myndir af Adam, hann með nafla? Skemmtileg yfirferð hjá þér, alveg drepfyndin. Meðalhófsreglan er til allrar hamingju mannanna verk. Ekki vildi ég búa við hið geistlega meðalhóf.
Hér eru skemmtilegar myndir um þær bækur, sem ekki fengu að vera með í bókinni. Sería 1. Sería 2, (1. af 12) Svona biblíuskóli fyrir Rósu og Alla.
Jón Steinar Ragnarsson, 3.2.2008 kl. 11:43
Sælir. Já við Sindri eigum alveg örugglega eftir að hittast og eiga góðar stundir saman ásamt fjölskyldum okkar og þá getum við Sindri örugglega rætt málin.
Ég myndi sleppa því að vera á ferðalagi á milli Ak og Vf núna nema ég þyrfti þess nauðsynlega en með hækkandi sól geta gerst undur og stórmerki.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 3.2.2008 kl. 13:38
Já Aðalbjörn, ég hlýt bara að hafa dottið á höfuðið, ég meina hver trúir ekki á bók með talandi dýrum og prik-eiturslöngum og eldspúandi drekum, og konum sem verða að saltstöplum. Ég held að það sé meira að segja hægt að sanna að þetta allt hafi gerst!
Jón Steinar takk kærlega fyrir að fíla LÖGFRÆÐINGA brandarann minn!
Við erum allaveganna búin að fá eitthvað af bókunum sem ekki fengu að vera með inn í Biblíuna aftur (mál sem ég ætla að skrifa um einhvertímann)
Hæ Rósa. Þetta er nú aðallega tekið saman svona til gamans. Engar djúpar pælingar. Ég ætla einhverntímann seinna að skrifa um alvarlegri vangaveltur mínar um sum þessi vers (t.d. söguna af Nóaflóðinu, sem er snilldar flott saga, búin til úr tveimur sögum).
Sindri Guðjónsson, 3.2.2008 kl. 14:11
Ég hef heyrt og séð talandi páfagauka!!
Jón Steinar sagan af Lillit hefur varðveist og þróast í meira en 2500 ár. Hún Lilit hefur birst sem "demón" barnamorðingi, fyrsta eiginkona Adams, ástkona lostafullra anda, brúður"demónakonungsins" Samaels, verið hetja femínista osfrv. Gaman væri að heyra meira af "Idoli" þínu Jón Steinar.
Sindri við erum að tala um hálfan annan áratug hvað gerðist????
Aðalbjörn Leifsson, 3.2.2008 kl. 16:21
Ég er búinn að segja þér það.
Sometimes when I provide reasons for my doubts, the interrogator will summarily dismiss them and ask, "So what's the real reason you left Christianity?" - Ken Daniels
Sindri Guðjónsson, 3.2.2008 kl. 17:59
Alli: Fyrst var Lilith kona Adams, en féll svo úr náðinni og gerðist ill. Þetta eru ekki sögur héðan og þaðan, sem þú nefnir, þetta er algerlega samkvæmt sögunni. Það er vert að nefna að öll Biblían hefur verið að þróast í 2500 - 3000 ár og eru þessar sögur ekkert undan eða eftir í tíma þar. Ritmál Hebrea var ekki mótað fyrr en um 8-900 fyrir Kr. og líklegast voru þessi rit ekki samantekin fyrr en 500 árum fyrir kr. Það er því víst að allt þetta er byggt á munnmælum í gegnum þúsundir ára, fyrir utan það sem hefur breyst í afritun. Svo er ljótt að ljúga Alli minn: Lilith er ekki Idol hjá mér. Ég hef ekkert slíkt gefið í skyn. Nú mun skrattinn heimsækja þig fyrir vikið og nokkrir dagar bæst við hreinsunareldinn.
Jón Steinar Ragnarsson, 5.2.2008 kl. 10:31
Vildi ég hefði tíma til að pósta inn flottum svörum hér ;) Spennandi umræða hjá ykkur góða fólk.
Hebrar voru skrifandi þegar þeir voru í ánauð í Egyptalandi. Það hefur fundist veggjakrot eftir hebrea ;)
Samkvæmt sögunni Jón Steinar eru þetta ekki kenningar Gnosta? Þeir áttu sín eigin rit notuðust afar takmarkað við þær bækur sem við köllum í dag Biblíu.
Sindri ég ætla að segjast skilja allt enda er ég ekkert afburðarvelgefinn. Ég er ekki að segja að ég skilji allt eða fatti í sambandi við ritninguna.
Þessu trúi ég samt af einlægni að Biblían er fyrir Heilagan Anda lifandi orð sem ár erindi við fólk í dag. Hún varð ekki til á einum degi hefur verið í mótun í langan tíma. Það er í samræmi við hvernig Drottinnn vinnur í öllu sem við kemur manninum hann mótar. Ekki í einni svipan heldur í gegnum langan tíma.
Mannlega hefði maður viljað fá gulltöflur af himnum færðar af engli og skapaðann mann sem hefði ekki val.
Eitt langar mig að vita Sindri svona fyrir forvitni. Hvar er í dag Heilagur Andi fyrir þér? Tungutalið, bænasvörin og snerting Guðs?
Set þetta fram af einskærri forvitni ekki til þess að vera leiðinlegur.
Eins langar mig að hrósa Sindra og Rósu fyrir hvað þau eru grandvör og prúð í framkomu sinni við þá sem heimsækja blogginn þeirra.
Þið eruð frábær krakkar (ekki ílla meint sem krakkar ;) )
kveðja Davíð.
Davíð (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 11:13
Davíð, ég tala nú enn í tungum... svona stundum. Ekki af því að ég haldi að eitthvað yfirnáttúrulegt sé að gerast, bara að halda hæfileikanum við. Snerting Guðs er bara sálfræðileg áhrif sem trúin hefur á heilann. Bænasvörin koma líka oft til þeirra sem ekki biðja, og oft eru engin bænasvör, eins og allir vita.
Davíð þessi upptalning snýst ekki um að skilja eða ekki skilja eitt eða neitt - bara gaman að skoða hvað heimur Biblíunnar er allt öðruvísi en heimurinn í dag.´(þetta snýst reyndar aðallega um það að ég hafði gaman af því að taka þetta saman! ) Ég meina, þekkir þú einhvern sem er með 2,5 kíló af hári á hausnum? Hefur þú séð risa hersveitir dauðra beina? eða fólk breytast í saltstólpa? Hefur þú séð 4 metra háan risa? Þyrfti sá maður ekki að vera afkomandi Nóa? Hefur þú séð Sólina bakka? Hvernig bakkar sólin? Gæti verið að íslensk erfðagreining hefði áhuga á því að skoða sauðfjárræktar tækni Jakobs? ... Ég held að kristnir menn verði að sætta sig við það að Biblían þeirra endurspeglar hugmyndir fornmanna (flestir kristnir menn hafa gert það fyrir löngu). Ef þeir vilja skilja þetta allt sem raunverulega sanna sögulega atburðalýsing, þá ættu þeir að njóta þess að hugsa um hvað allt var skrítið í gamladaga. (Leifa huganum að reika um risana og eiturslöngu-prikin). Þeir sem vilja trúa því, er það alveg velkomið.
Sindri Guðjónsson, 5.2.2008 kl. 13:41
Hmm....hvers vegna koma færslur frá þér ekki á yfirlit trúarbragðabloggfærslna?
Þú áttir þig vonandi á því að sagan af brottförinni úr Egyptalandi er þjóðsaga?
Hjalti Rúnar Ómarsson, 6.2.2008 kl. 01:25
Hef ekki hugmynd, og ég var einmitt að velta því fyrir mér...
Sindri Guðjónsson, 6.2.2008 kl. 07:51
Búinn að fatta þetta. Vissi ekki að þetta væri stillingar atriði! Framvegir ættu þá færslurnar að koma á yfirlit trúarbragðabloggfærslna. Hund fúll að hafa ekki fattað þetta fyrr.
Sindri Guðjónsson, 6.2.2008 kl. 07:58
Haha þessi færsla er bara snilld.....
Dögg (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 12:09
Skemmtileg færsla hjá þér Sindri.
Þú sýnir að það er hægt að fjalla um sögur úr Biblíunni án þess að vera með reiði eða ergelsi í garð trúaðra. Ég kann vel að meta þannig stíl. Margir fara inn á þá braut að kasta fúkyrðum, meiðandi athugasemdum og niðurlægjandi glósum í garð þeirra trúuðu og öfugt.
Við hjálpumst að við að gefa trúuðum tækifæri til að átta sig á hinu sanna.
Með kveðju
Sigurður Rósant
Sigurður Rósant, 6.2.2008 kl. 13:49
Sigurður, hvað er „hið sanna"?
Þú lumar greinilega á einhverju sem þú telur hið eina sanna þannig að ég skora á þig að deila því með okkur trúuðum.
Gisli Freyr Valdórsson (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 01:44
Það ber ekki öllum fræðimönnum saman um það Hjalti til eru dæmi um að margir telji Rauðhafið hafi verið Sefhafið og ég veit ekki hvað og hvað. Margir vilja meina að Ísraelsmenn hafi ekki verið þrælar í Egyptalandi. Það er alla vega vitað að einn var það sá sem skildi eftir sig nafn (veggjakrot) Sá þetta í heimildarþætti á Fjölvarpinu og þetta greyptist í minni mitt. Skilaboðin hans voru nú bara þau að hann hafi verið þarna. En það merkilega er að þetta var hebreska rituð áður en hebrear voru skrifandi.
Davíð (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 05:56
Davíð, þú mættir reyna að finna heimildir fyrir þessu veggjakroti. Ég á bók sem heitir "on the reliabilty of the old testament" sem er trúvarnarbók eftir K.A. Kitchen, sem er "frelsaður" Egyptalandsfræðingur, og reynir að gera það líklegt eða mögulegt að Hebrear hafi í raun verið í Egyptalandi og flúið. Ég man ekki eftir því að hann hafi talað neitt um þetta.
Ég á líka bók sem heitir the Bible Unearthed, eftir tvo fornleifafræðinga. Þeir minnast aldrei á neitt þessu líkt og fullyrða að það séu engar leifar sem staðfesta veru Hebrea í Egyptalandi.
Svo byrja oft hebreskubækur með smá kafla um sögu hebreskunnar. Ég á t.d. hebresku bók eftir gyðing sem heitr Moshe Greenberg, sem byrjar á smá kafla um sögu málsins, og þróun frá eldri kanverskum málum. Hann minnist ekki á þetta veggjakrot, né heldur kannast hann við að hebreska hafi verið rituð áður en Hebrea voru skrifandi.
Sindri Guðjónsson, 7.2.2008 kl. 08:50
Gísli Freyr.
Þú tókst því sem ég skrifaði sem "hið eina sanna" en ég skrifaði aðeins "hið sanna".
Smá merkingarmunur en ég held ég skilji spurningu þína.
Með orðunum "hið sanna" á ég við, það sem sannara reynist "þegar öll kurl eru til grafar" komin. Við erum endalaust að leita að skýringa á t.d. dauða risaeðlanna. Hingað til hefur því verið haldið fram að risaeðlurnar hafi dáið út þegar risastór loftsteinn lenti á jörðunni fyrir 65 milljónum ára úti fyrir Mexíkó flóa og um leið 70% alls lífs á jörðunni dó út við sömu aðstæður. Nú er hins vegar nýrri kenning komin fram sem segir að sjálf eyðileggingin af falli loftsteinsins hafi ekki verið aðal ástæðan, heldur súrt regn sem féll á yfirborð jarðar í kjölfar þessara hamfara.
Þannig uppgötvum við ávallt betur og betur "hið sanna" í hverju vafamáli fyrir sig. En alls ekki "hið eina sanna".
Vona að þessi skýring nægi til að valda ekki misskilningi um þetta orðaval frekar.
Sigurður Rósant, 7.2.2008 kl. 22:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.