28.1.2008 | 20:42
Snilld í Jobsbók
Mikið er um ljóð í hebresku Biblíunni og ég hef séð því haldið fram að um þriðjungur hennar sé í bundnu máli. Hebresk ljóðagerð var mjög ólík þeirri ljóðagerð sem við þekkjum best í dag. Hebrear beittu t.d. mikið parallellisma", en ég veit ekki hvernig best er að þýða það hugtak yfir á íslensku. Þetta felur í sér að eitthvað er í raun sagt tvisvar. Það sem er sagt er speglað aftur með öðrum orðum, ef svo má segja. Hér kemur dæmi, þar sem speglunin" er höfð skáletruð. Þetta er úr 1. Mósebók 4:23. Nauðsynlegt er að hafa í huga að Ada og Silla voru konur Lameks:
Ada og Silla, heyrið orð mín, konur Lameks, gefið gaum ræðu minni! Mann drep ég fyrir hvert mitt sár og ungmenni fyrir hverja þá skeinu, sem ég fæ."
Hér er annað dæmi úr Orðskvið 3:1 þar sem um augljósa speglun" er að ræða:
Son minn, gleym eigi kenning minni, og hjarta þitt varðveiti boðorð mín,"
Oft fara fín atriði framhjá fólki sem ekki áttar sig á þessari ljóðatækni hebreanna. Skoðum t.d. Sálm 40:9:
Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér"
Hér er um speglun að ræða. Lögmál Guðs er innra með sálmaskáldinu, og þess vegna er það yndi hans að gera vilja Guðs. Þetta er eitt og hið sama. Það að hafa yndi af því að gjöra vilja Guðs og hafa lögmálið innra með sér er sami hluturinn.
En þetta var eiginlega ekki það sem ég ætlaði að tala um í þessari færslu. Mig langaði að benda á afar áhugaverð vers sem eru í Jobsbók. Forn-hebrearnir notuðu ekki rím í ljóðum sínum, en það var ekki þekkt ljóðlistar form á þeirra stað og stund. Höfundur Jobsbókar var frjór og snjall höfundur og honum datt þrátt fyrir allt í hug að nota rím í 10. kafla Jobsbókar. Í Job 10:8-11 stendur eftirfarandi:
Hendur þínar hafa skapað mig og myndað mig, allan í krók og kring, og samt ætlar þú að tortíma mér? Minnstu þó þess, að þú myndaðir mig sem leir, og nú vilt þú aftur gjöra mig að dufti. Hefir þú ekki hellt mér sem mjólk og hleypt mig sem ost? Hörundi og holdi klæddir þú mig og ófst mig saman úr beinum og sinum."
En hvernig skildi þetta hljóma á hebresku? Það er ekki hægt að hljóðrita þetta vel með íslenskum stöfum, en ég myndi slumpa á það einhverveginn svona:
Jadekha ítsvaúní, vajaasúní
Jahad savív, vatevaleeiní
Tsekhor-na kí-khakhómer asítaní
Ve-el afar teshíveiní
Haló khehalav thatíkheiní
Ve khagevínah takpíeiní
Ór úvasar talbísheiní
Úvatsamót vegídím teshókhekheiní
Margt í þessari hljóðritun er ónákvæmt. Einkum kh" hljóðin sem eru borin fram talsvert mikið öðruvísi en íslensku stafirnir gefa til kynna, en mér datt ekkert betra í hug. Þess ber þó að geta að enginn veit nákvæmlega hvernig hebreska var borin fram á þessum tíma. Rímið er hins vegar augljóst samt sem áður! Höfundur Jobsbókar var að mínu mati mikill snillingur og listamaður.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 29.1.2008 kl. 12:50 | Facebook
Um bloggið
Sindri Guðjónsson
Færsluflokkar
Tenglar
Biblían
Frábær og gagnleg heimasíða. Þarna er hægt að lesa bæði nýju þýðinguna, og hina gömlu góðu 1981 þýðingu.
- Hebrew - English Bible
- Biblían Frábær og gagnleg heimasíða. Þarna er hægt að lesa bæði nýju þýðinguna, og hina gömlu góðu 1981 þýðingu.
Bloggvinir
- lexkg
- andres
- alla
- bjolli
- geiragustsson
- gudnim
- godinn
- hjaltirunar
- jevbmaack
- prakkarinn
- rosaadalsteinsdottir
- sigurgeirorri
- nerdumdigitalis
- truryni
- styrmirh
- svanurmd
- stormsker
- vefritid
- postdoc
- fsfi
- axelpetur
- gattin
- brandarar
- eyglohjaltalin
- hleskogar
- ljonas
- andmenning
- kt
- durban2
- sviss
- hvala
- svenni
- nordurljos1
- vest1
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Fróðleg lesning. Nú er það spurning hvort maðurinn var innblásinn af Guði? Jobsbók er ekki ólík Píslarsögu Jóns Magnússonar þumals að innihaldi. Það rit er annars varnarrit, eftir að Þuríður dóttir og systir brenndra feðga, lögsótti Jón fyrir ofsóknir. Jón var augljóslega með einhverskonar bipolar disorder og fenómenal dramadrottning og sjálfsvorkunnarpúki.
Annars hef ég ekkert vit á Hebreskri skáldskaparhefð og þakka þér þessa litlu bragarbót.
Jón Steinar Ragnarsson, 29.1.2008 kl. 01:00
Já, ég gleymdi einu. Kannastu við þessa atburði og hugsanlega tengingu þeirra við söguna um flóttann frá Egyptalandi?
Jón Steinar Ragnarsson, 29.1.2008 kl. 01:04
Í Biblíunni er sumstaðar að finna mikla snilld. Snilldin er hins vegar, líkt og annað gott sem við finnum í öðrum bókum, mannleg snilld frá upphafi til enda. Svo eru gamlar goðsögur, og siðferðisskoðanir og heimsmynd liðinna kynslóða í henni líka, og stöku kaflar sem eru drepleiðinlegir og ljótir, og allt þar á milli.
Smekkur manna er áunninn held ég. T.d. finnst mér kók gott, af því að ég hef vanið mig á það. Ef ég hefði aldrei smakkað það, og tæki minn fyrsta sopa núna, er óvíst að mér myndi líka bragðið. Ég er búinn að venja mig á Biblíuna á mörgum árum. Mér finnst hún skemmtileg, og það hefur ekkert dvínað með breyttri afstöðu til trúmála.
Ég kannast ekki við þessa atburði í tengslum við flóttann frá Egyptalandi. Mig minnir að þetta hafi t.d. ekkert verið rætt í bókinni "The Bible Unearthed" (Finkelstein og Silberman) í tengslum við hann.
Sindri Guðjónsson, 29.1.2008 kl. 09:05
Kæri Sindri. Þakka þér fyrir frábæran og fallegan pistil. Pistillinn sem ég setti inn í gær er örugglega fín lesning fyrir þig vegna fjölskyldutengsla okkar. Shalom
Rósa Aðalsteinsdóttir, 29.1.2008 kl. 10:57
Shalom. Takk fyrir það Rósa. Ég mun kíkja á pistilinn þinn.
Sindri Guðjónsson, 29.1.2008 kl. 17:44
Menn hafa deilt um þessi eldsubrot í tengslum við exodus. Lýsingin á plágunum stemmir ágætlega við áhrif þessa mesta eldgoss sem þekkist í sögunni. Eyjan (Santorini eða Thera (Thira)) Sprakk í loft upp eftir langvarandi öskugos og var sprengingin 4-6 sinnum voldugri en Krakatau. Þetta reiknast mönnum vera á sama tíma og atburðir Mósebóka lýsa og stendur þrætan helst um 150 ár, sem ber á milli hinna sögulegu upplýsinga og jarfræðilegu. Það eru samt ótrúleg líkindi. Það má nefna að þessar bækur eru skrifaðar um 500 fyrir krist að því að talið er og því 1100 árum eftir þetta. Tanak ritsafnið eða GT er ekki safnað saman í heild fyrr en um 100 fyrir krist. Það getur því Ímislegt hafa skolast til.
Nefna má að eldur á himnum er nefndur (öskufall). Myrkur á degi.(öskuský) Blóðlituð Níl (Járnoxíð) Uppskerubrestur, og skordýraplágur. (eðlilegur fylgifiskur) Dauði búfénaðar og fólks) Kýlapestir (brunasár og ígerðir) Allt heimfæranleg einkenni. Móse fylgir síðan teikni drottins á leiðinni, sem er reyksúla að degi og eldsúla að nóttu. (ekki þarf að skýra það) Á flóttanum sleppa þau til hæða en flóð gleypir egypta. (Gífurleg flóðbylgja fylgdi sprengingunni (tsunami))
Egyptafræðngurinn Graham Philips (The Moses Legacy) skrifaði bók um þetta ásam mörgum fleiri, sem fjallað hafa um þetta og virðist eðlilega lítill vilji til að halda þessum kenningum á lofti og hafa apologistar ráðist hatrammlega gegn þessu og reynt að afsanna. Philips nefnir meira að segja egypskan prins til sögunnar, sem til var á þessum tíma að nafni Tutmoses og telur hann vera Moses og leiðir að því ágæt rök. Það er ævintýrir líkast að lesa um þetta í samhengi við þessa hluti. Gyðingar eru í raun Írakar eða þrælar frá Mesopotamíu í ríki Egypta, sem brjótast úr ánauð eftir gífurlegar náttúruhamfarir og neyð, leiddir af Egypskum prinsi. Þessi leiðtogi hefur skiljanlega reynt að treysta handleiðslu sína með geistlegri tengingu, eins og títt var á hans heimahögum. Þetta var sundurleitur hópur og erfiður í taumi, svo hindurvitni og hjátrú hafa komið að góðum notum þar eins og á öllum tímum. Náttúruhamfarir hafa ekki spillt fyrir í því og má finna slíkt víðar. Á tímum þekkingaleysis var nærtækast að tengja hamfarir við eitthvað geistlegt. Það má jafnvel ætla að fleiri umbrot hafi orðið á þessum slóðum bæði fyrir og eftir. Sögur Gilgamesh af flóðum geta verið adapteraðar í þessar bókmenntir. Sódoma og Gómorra geta einnig sprottið úr slíku. Dauðahafið er einnig skemmtileg ráðgáta. Saltsjór inni í miðju landi, sem gæti hafa myndast við slíka flóðbylgju.
Þetta er sannarlega vert hugleiðingar og bendir til náttúrlegrar kveikju þessara þjóðbundnu trúarsetninga, sem eingöngu hafa lifað fyrir sagnarit, sem safnað var saman og eru raunar til fyrir varðveislu Kristinna manna að einhverju leyti. Án þessara rita, segði fátt af þessum átrúnaði.
Annað, sem ég vil benda á vegna Gyðinglegar flökkuþjóðar og ofsókna á hendur henni í gegnum tíðina. Það á sér mest grunn í kristilegum skrifum og voru kirkjufeður margir og guðspekingar miklir gyðingahatarar. Justin Martyr, Tertullian Origien og fleiri ólu kyrfilega á þessu, svo ergelsi Gyðinga út í Kaþólskuna er skiljanlegt. Þetta er ávöxtur trúarinnar. Þeir sem t.d. þræta fyrir tengsl Pápískunnar við ríki Hitlers og Mussolini eru hreinlega í blatant afneitun á staðreyndir. (Á beltissylgjum þýska hersins stóð Got mit uns. T.d.) Ég tek þessu nú fram vegna áróðurs Kistinna um að þessir höfðingjar hafi verið Atheistar. Það er hinsvegar önnur saga og merkileg.
Jón Steinar Ragnarsson, 29.1.2008 kl. 18:28
Sæll Sindri,ekki skal ég deila við þig um trú þína eður trúleysi sjálfur hef ég farið marga leiðina í leit minni að sannleik sem getur staðið samvisku mína og siðferði.Ég hef mikið rínt í orðið og sé að eins er með þig.
En í dag er ég ekkert mikið að velta mér uppúr ritningunni og hvað sé af mönnum og hvað af guði,ég valdi þá leið að gefa hjarta mitt mínum guði og treysta honum fyrir velferð minni og minna,það var þá sem ég fyrst fékk einhver svör um mig og hvaðan ég kem,og kannski hversvegna.Ég ætla mér ekkert að halda neinn lestur hér yfir einum eða neinum,ég leytaði lengi að trú og ég fann,því að trú og treysta er ekki alltaf það sama ég trúi helling á ýmislegt sem ég ekki skil,og ég þarf ekkert að skilja allt.En í örvæntingu minni fann ég einn sem mér gat hjálpað og það var guð og ég lagði loks traust á hann,því eitt veit ég að guð vill mér vel.
Gangi þér allt í haginn í leit þinni kveðja Úlli.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 30.1.2008 kl. 21:48
Jón Steinar, takk fyrir þetta innlegg. Ég er að fara í próf á föstudag, og skoða þetta allt saman betur seinna.
Úlafar, ég held að það sé einmitt oft örvænting, en ekki skynsemi og rökrétt hugsun, sem knýr fólk til að trúa á ósýnilegan guð. Ef að þú eða aðrir sem lesa þetta blogg vilja trúa, þá er það algerlega velkomið og frjálst fyrir mér. Mér sjálfum finnst það órökrétt.
The invisible and the non-existent look very much alike. – Delos McKown
Sindri Guðjónsson, 30.1.2008 kl. 23:51
"I'm not an Atheist. How can one not believe in something that has never existed.? (Varð að sletta þessu skemmtilega kvóti. Man ekki alveg hver á það.)
Gangi þér vel í prófunum.
Jón Steinar Ragnarsson, 31.1.2008 kl. 01:04
Kæri Sindri minn.
Ég er ekki sammála þessu: "Úlfar, ég held að það sé einmitt oft örvænting, en ekki skynsemi og rökrétt hugsun, sem knýr fólk til að trúa á ósýnilegan Guð."
Guð blessi þig og varðveiti. Shalom
Rósa Aðalsteinsdóttir, 31.1.2008 kl. 02:04
Úlfar fann amk sinn guð í örvæntingu sinni.
Sindri Guðjónsson, 31.1.2008 kl. 07:59
Sæll og blessaður kæri Sindri . Ekki sammála því ég þekki Úlla. Guð veri með þér kæri nýi vinur minn
Rósa Aðalsteinsdóttir, 31.1.2008 kl. 08:22
"En í örvæntingu minni fann ég einn sem mér gat hjálpað og það var guð og ég lagði loks traust á hann"
- Úlli.
Sindri Guðjónsson, 31.1.2008 kl. 08:36
Sindi varðandi örvæntingu mína,þá hafði ég leitað svara sem enginn maður gat með góðu móti svarað og þessvegna leitaði ég guðs um svör mín.Ég hef gengið um æfina til sálfræðinga Geðlækna og allskonar liðs sem mest hefur bara viljað dæla í mig lyfjum sem síðan bara blokka filterinn minn meir af skít en ég hreinlega kæri mig um.Í dag gengur mér ljómandi vel í lífinu er í góðu starfi ættartengls mín eru góð og ég á 2 yndisleg börn og fjárhagslega hef ég það bara ágætt.Ég tel mig vegna vel því ég er tengdur við almættið mitt ekki egóið og sjálfið sem svo oft hefur leitt mig af leið.Guð veri með ykkur kveðja Úlli.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 31.1.2008 kl. 20:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.