7.1.2008 | 14:50
Ó, þú flata jörð!
Ó, þú flata jörð!
Ég ætla hér að fjalla örlítið um heimsmynd Gamla testamentisins, og merkingu tveggja hebreskra orða: rakía (festingin) og tehóm (undirdjúpið). Höfundar Biblíunnar héldu að himininn (rakía) væri gerður úr föstu efni, og væri ofan á flatri jörðinni, eins og skál á hvolfi. Einnig töldu þeir að jörðin væri staðsett ofan á stóru djúpu hafi, sem hét tehóm á hebresku. Ég byggi að miklum hluta á greinum eftir Paul H. Seely sem ég vísa til neðst. Tvær þeirra birtust í hinu fremur íhaldssama kristna guðfræðiriti Westminster Theological Journal. Þessari umfjöllun er ekki ætlað að vera ítarleg eða nákvæm. Einungis er um smá kynningu á heimsmynd Biblíunnar að ræða.
Rakía
Í sköpunarsögu 1. kafla 1. Mósebókar, segir frá sköpun festingarinnar. Í versum 6 og 7 segir:
6Guð sagði: "Verði festing milli vatnanna, og hún greini vötn frá vötnum." 7Þá gjörði Guð festinguna og greindi vötnin, sem voru undir festingunni, frá þeim vötnum, sem voru yfir henni. Og það varð svo.
Og í 8. versi stendur: "Og Guð kallaði festinguna himin".
Hebreska orðið rakía er hér þýtt sem festing. Samkvæmt hebreskum orðabókum er þetta orð notað yfir himin úr föstu efni, sem var talinn vera ofan á jörðinni (sem var flöt) eins og skál á hvolfi sem huldi jörðina eins og stór hvelfing, sem haldið var uppi með stoðum (Job 26:11 nefnir t.d. stoðir himins). Til eru heimildir um vangaveltur gyðinga um það úr hvaða efni himna festingin væri nákvæmlega gerð, og voru þá einkum þrjú efni sem menn nefndu sem möguleg byggingarefni himinsins: kopar, járn eða leir. Hin náskylda sögn raka" er notuð í 2. Mósebók 39:3 um það að berja gull í þunnar plötur, og gefur til kynna að rakía merki eitthvað sem hefur verið mótað og barið til.
E. J. Young, sem var að mörgu leyti framúrskarandi guðfræðingur, og íhaldssamur trúmaður sem taldi Biblíuna óskeikula, skilgreindi rakía svo í bók sinni "Studies in Genesis One": "That which is hammered, beaten out"
Í ljósi þess að við vitum nú hvernig Hebrearnir sáu fyrir sér himininn, er athyglisvert að skoða ýmis vers, og hér nefni ég aðeins örfá af mörgum áhugaverðum:
Í 1. Mósebók 1:14-17 festir Guð stjörnurnar, tunglið og sólina í festinguna (rakía).
Í 1. Mósebók 1:20 sést að fuglarnir fljúga undir himninum. Það ætti að gefa auga leið. Þeir geta auðvitað ekki flogið í himninum sjálfum, þar sem hann er úr föstu efni.
Í 1. Mós 7:11 sést svo hvernig guð opnaði flóðgáttir himinsins, til að vatnið sem var ofan á himninum gæti fallið niður á jörðina í Nóaflóðinu. Hægt er að sjá fyrir sér að hann opni flóðgáttirnar líkt og glugga. Við þurfum svo að muna að samkvæmt 1. Mós 1:7 var mikið vatn ofan á festingunni. Að auki segir Sálmur 148:4: Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum." Í 1. Mós 8:2 er svo flógáttunum lokað, og þá hættir að rigna.
Í Jobsbók 37:18 stendur að himininn sé fastur eins og steyptur spegill.
Í Amos 9:2 segir: þótt þeir stígi upp til himins, þá skal ég steypa þeim ofan þaðan." Hér kemur fram sú hugsun að himininn sé ofan á jörðinni - og hugsanlega geti menn komist þangað upp - það var reyndar trú fólks um allan heim áður en raunvísindin komu mönnum í skilning um hið raunverulega eðli himinsins" að menn gætu klifrað uppá himnahveflinguna. Seely rekur þetta atriði í einni af greinunum sem ég vísa í hér neðst.
Einnig verða vers eins og Jesaja 40:22 skemmtileg þegar maður hefur heimsmynd Hebreanna í huga: Það er hann, sem situr hátt yfir jarðarkringlunni, og þeir, sem á henni búa, eru sem engisprettur. Það er hann, sem þenur út himininn eins og þunna voð og slær honum sundur eins og tjaldi til þess að búa í."
Að lokum skulum við kíkja á Orðskvið 8:27-28, en þar er líka talað um hafdjúpið, sem er viðfangsefni seinni hluta þessa pistils: Þegar hann gjörði himininn, þá var ég þar, þegar hann setti hvelfinguna yfir hafdjúpið, þegar hann festi skýin uppi, þegar uppsprettur hafdjúpsins komust í skorður"
Tehóm
Þá er komið að umfjölluninni um tehóm. Hér byrjum við í 1. Mósebók 1:2, en þar segir: Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum."
Hebreska orðið theóm er hér þýtt sem djúpið". Hebrearnir trúðu því að jörðin (sem var talin flöt) væri staðsett ofan á djúpu hafi, sem var bæði undir henni, og í kringum hana. Hún var svo studd með stöplum til þess að hún sykki ekki. Djúpa hafið undir jörðinni hét tehóm. Nánari vitneskju um orðið er hægt að finna í greininni sem ég vísa til hér að neðan um það efni.
Við skulum bara vinda okkar beint í það hvernig þessi hugmynd birtist víða í Biblíunni.
Í Nóaflóðinu þá opnaði Guð uppsprettur hins mikla undirdjúps (theóm), og flæddi þaðan vatnið upp á jörðina - og ekki hætti flóðið fyrr en Guð hafði lokað uppsprettunum sjá, 1. Mós 7:11 og 8:2.
Í Sálmi 24:1-2 stendur: "Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa. Því að hann hefir grundvallað hana á hafinu og fest hana á vötnunum."
Í Sálmi 136:6 er Guði sem breiddi jörðina út á vötnunum" sungið lof.
Í 1. Mós 49:24-25 stendur: Sá styrkur kom frá Jakobs Volduga, frá Hirðinum, Hellubjargi Ísraels, frá Guði föður þíns, sem mun hjálpa þér, frá Almáttugum Guði, sem mun blessa þig með blessun himinsins að ofan, með blessun djúpsins (tehóm), er undir hvílir, með blessun brjósta og móðurlífs."
5. Mós 33:11: Um Jósef sagði hann: Blessað af Drottni er land hans með himinsins dýrmætustu gjöf, dögginni, og með djúpinu (tehóm), er undir hvílir"
Einhver fleiri dæmi er hægt að týna til, en ég læt þetta duga í bili.
Lokaorð
Margar heimildir sýna að fólk um allan heim taldi himininn vera úr föstu efni, þar til vísindum fór að fleyta fram. Afskekktir þjóðflokkar sem enn eru ekki undir áhrifum nútíma raunvísinda eru enn þessarar skoðunar. Þetta rekur Paul H. Seely ítarlega í greinunum sem ég styðst við.
Hebrear höfðu sömu sín á heiminn og samtímamenn þeirra. Hvernig áttu þeir að vita betur en aðrir? Ekkert bendir til þess að þeir hafi verið afburðamenn í raunvísindum, þó að þeir hafi vissulega verið framúrskarandi bókmenntaþjóð.
Það er í sjálfu sér engin ástæða til að gerast trúleysingi af þeim sökum einum að Biblían segi að jörðin sé flöt, og sé staðsett ofan á djúpu hafi, og himinin sé hvelfing úr föstu efni. Margir mjög trúaðir menn úr röðum gyðinga og kristinna manna, gera sér vel grein fyrir þessu. Það er hins vegar alveg ljóst að Biblíuna ber ekki að nota sem raunvísinda kennslubók. Andstaða við viðteknar staðreyndir á sviðum líffræði og jarðfræði, á grundvelli þess sem Biblían kann að virðast segja um þau mál, er fráleit.
----
Hér er hægt að finna greinarnar, en þar er miklu ítarlegri og betri umfjöllun:
The Geographical meaning of "earth and "seas" in Genesis 1:10 http://faculty.gordon.edu/hu/bi/Ted_Hildebrandt/OTeSources/01-Genesis/Text/Articles-Books/Seely_EarthSeas_WTJ.pdf
The Firmament and the water above http://faculty.gordon.edu/hu/bi/Ted_Hildebrandt/OTeSources/01-Genesis/Text/Articles-Books/Seely-Firmament-WTJ.pdf
The Firmament and the water above part II (Þessi grein fjallar sérstaklega um kenningar sköpunarvísindamanna um þetta efni). http://www.thedivinecouncil.com/seelypt2.pdf
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 20.2.2008 kl. 19:05 | Facebook
Um bloggið
Sindri Guðjónsson
Færsluflokkar
Tenglar
Biblían
Frábær og gagnleg heimasíða. Þarna er hægt að lesa bæði nýju þýðinguna, og hina gömlu góðu 1981 þýðingu.
- Hebrew - English Bible
- Biblían Frábær og gagnleg heimasíða. Þarna er hægt að lesa bæði nýju þýðinguna, og hina gömlu góðu 1981 þýðingu.
Bloggvinir
- lexkg
- andres
- alla
- bjolli
- geiragustsson
- gudnim
- godinn
- hjaltirunar
- jevbmaack
- prakkarinn
- rosaadalsteinsdottir
- sigurgeirorri
- nerdumdigitalis
- truryni
- styrmirh
- svanurmd
- stormsker
- vefritid
- postdoc
- fsfi
- axelpetur
- gattin
- brandarar
- eyglohjaltalin
- hleskogar
- ljonas
- andmenning
- kt
- durban2
- sviss
- hvala
- svenni
- nordurljos1
- vest1
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Skemmtileg grein og fróðleg! Biblían er morandi í svona dæmum um flatjarðarhugsun, t.d. fjallið sem Satan og Jesús skruppu upp á og sáu allan heiminn. Einnig er oft vitnað til Predikarans 1:5
Lárus Viðar Lárusson (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 00:06
Takk fyrir það Lárus.
Já nákvæmlega, Biblían er morandi í versum þar sem flatjarðarhugsunin skín í gegn. Ég ætlaði bara að birta nokkur vers sem tala um himnahvelfinguna og djúpa hafið undir jörðinni. Í Daníelsbók, 4. kafla, er talað um tré sem vex á miðju jarðarinnar, svo hátt upp í loft, að það er sýnilegt um alla jörð. Slíkt er auðvitað ógerlegt á hnetti.
Sindri Guðjónsson, 8.1.2008 kl. 13:24
Sæll Sindri
Þú átt nú að vita betur en þetta varðandi geiminn og flata jörð!
Þegar Jesús talar um endurkomu sína þá bendir hann á að menn verða í hvílu(nótt) að mala korn (morgunn) og á akri (að degi) svo hann vissi að jörðin væri á sama tíma með nótt, morgun og dag. Þá gat jörðin í ljósi þessara orða ekki verið flöt .
Annað sem þú átt að þekkja, Sindri, er að Job (ein elsta bókBiblíunnar) segir:
"Hann þenur norðrið út yfir auðninni og lætur jörðina svífa í tómum geimnum, hann bindur vatnið í skýjum sínum..."
"Marklínu hefur hann dregið hringinn í kring á haffletinum þar sem mætast ljós og myrkur."
Hér vísa ég til 26 kafla Jobsbókar svo hver og einn getur fengið að lesa og sannreyna.
En svo er gott fyrir okkur að líta á myndir sem teknar eru úr geimflugi manna eða gervitungla. Sú mynd sem birtist af jörðinni svífa í tómum geimnum sýnir auðvitað flatneskju eða kringlu en ekki kúlu. Okkur finnst ekkert að því í ljósi myndarinnar að segja jörðina eins og pönnuköku. Eða tunglið í fullum skrúða er best að líkja því við pönnuköku, flatneskju eða kúlu?
kær kveðja
Snorri í Betel
Snorri Óskarsson (IP-tala skráð) 10.1.2008 kl. 15:23
Sæll vertu kæri Snorri.
Það að Guð hafi dregið marklínu hringinn í kringum hafflötinn, gefur ekki með neinum hætti til kynna að jörðin sé hnöttur! Hebrearnir trúðu því að hafið væri hringur umhverfis flata jörðina. Hebreska Biblian segir eftirfarandi í Orðskvið 8:27 "when He set a circle upon the face of the deep" http://www.mechon-mamre.org/p/pt/pt2808.htm
Hringur er auðvitað ekki það sama og bolti eða hnöttur. Pönnukaka er hringur, eða kringlótt. Hebreska orðið þarna þýðir ekki hnöttur.
Eftirlíkin var gerð af hafinu til að setja í forgarð mustersins. Sagt er frá því í 1. Konungabók 7:23. Þar var hafið "kringlótt". (Ekki hnöttur, enda var hafið í skál, svo voru einhverjir hnappar sem mynduð hring utan um hafið, v 24)
Af því að það stendur í Job 26:8 að Guð bindi vatnið í skýjunum, þá vil ég benda á að þó að Hebrearnir hafi talið að vatn væri ofan á himnafestingunni, þá þýðir það ekki að þeir hafi ekki talið að það væri líka vatn í skýjunum undir henni.
Seely útskýrir annars vel í greinunum sínum af hverju hinir mörgu kaflar sem endurspegla heimsmynd Hebreanna eru ekki bara myndmál. Þetta var það sem þeir í raun og veru héldu um veröldina. Orði Rakía hefur ákveðna merkingu, sem innifelur að talað er um fast efni. (sbr enska orðið Firmament sem oft er notað til að þýða þetta orð). Orðið Tehóm hefur ákveðna merkingu. Erets (jörð) líka.
Job 26:7 þar sem jörðin svífur um í tómum geimnum er dæmi um Biblíulega mótsögn. Berðu það vers saman við t.d. Samúelsbók 2:8 "Því að Drottni heyra stólpar jarðarinnar, á þá setti hann jarðríkið" (Jarðríkið hvílir á stólpum, en svífur ekki um í geimnum. Hvaða rök eru fyrir því að taka þetta vers ekki bókstaflega, ef þú tekur ljóðið í Job 26 bókstaflega? Fyrir utan þá staðreynd að ljóðið í Job 26 talar t.d. um stópa himinsins. Annað hvort myndmál eða forn hugsunarháttur um heiminn, í nákvæmlega sama ljóði og þú vitnar í)
Taktu einnig eftir Job 9:6 t.d. "hann sem hrærir jörðina úr stað, svo að stoðir hennar leika á reiðiskjálfi". (Ég get bent á fleiri slík vers, eins og þú veist).
Ef til vill er Job að meina í 26:7 að flöt Jörðin, með sínu undirdjúpi (tehóm), og himni úr föstu efni (rakía), svífi um í geimnum. Ef svo væri, þá er ekki um mótsögn að ræða.
Í 26 kafla í Job er talað t.d. um stoðir himins eins og ég hef sagt, og kemur fram í greininni minni. Myndir þú segja að það væri myndmál? Þetta er einungis fjórum versum eftir að Job talar um að jörðin svífi um í geimnum. Er það þá ekki líka myndmál? (þetta er í sama ljóðinu)
Eru öll þau hundruð versa í hebresku biblíunni sem gefa í skyn gamaldags heimsmynd Hebrea myndmál, en eina versið sem er í samræmi við okkar heimsmynd, ekki myndmál eða líking?
Varðandi endurkomu Jesú: Ég sé enga skýra fullyrðingu þess efnis að jörðn sé hnöttur í frásögninni af væntanlegri endurkomu Jesú, þó að einhver verði í hvílu um nótt og annar á akri um dag. Við getum ekki endurritað allt sem stendur í Biblíunni og grundvelli þess sem stendur um endurkomuna í guðspjöllunum. Ef það er rétt að höfundar guðspjallanna meini það að jörðin sé hnöttur, eða að þetta sýni að jörðin sé hnöttur, þá er það bara enn eitt dæmið um mótsötn í Biblíunni. Að auki eru versin sem gæfu hnattlögun jarðar í skyn í miklum minnihluta, og því bæri að túlku þau til samræmis við öll hins versin, en ekki öfugt.
Þú hefur ekki sýnt fram á það, með því einu að benda á frásögnina um endurkomu Jesú, að öll hin fjölmörgu vers sem gefa í skyn að jörðin sé flöt, að hún hafi stöpla, hvíli ofan á hafi, hafi himin úr föstu efni, að vatn sé ofan á himninum o.s.frv. þýði eitthvað allt annað en þau í raun og veru þýða. Að auki þá skrifaði ég efst að þetta væri kynning á heimsmynd Gamla testamenntisins. Einnig má benda á að orðið Hemera orðið sem þýtt er dagur í endurkomu spádómum Jesú í guðspjöllunum) er oft notað á grísku yfir lengra tímabil en 24 klukkutíma.
Snorri, þú verður að elska Biblíuna nógu mikið til að vilja vita hvað stendur í raun og veru í henni. (Og ég veit að þú gerir það, þó að okkur kunni að greina á um innihaldið)
kær kveðja
Sindri
Sindri Guðjónsson, 10.1.2008 kl. 18:33
Hér fyrir neðan er hebreski textinn í Job 26:7 (masoretic textinn, ég kíki á dauðahafs textann seinna). Það er ekkert í honum sem bendir til þess að jörðni "svífi í geimnum". Hér stendur bara "hann hengir jörðina á hvað?". Ég veit ekki betur en að síðasta orðið (mah) þýði bara "hvað". Flestar enskar þýðingar segja: "hann hengir jörðina á ekkert", og mér finnst það vera hálfgert skáldaleyfi að þýða mah/ sem þýðir "hvað", sem "ekkert". Enn þegar menn þýða ljóð, verða menn að vera pínu skáldlegir.
נֹטֶה צָפוֹן עַל-תֹּהוּ; תֹּלֶה אֶרֶץ, עַל-בְּלִי-מָה
Sindri Guðjónsson, 10.1.2008 kl. 19:25
Bara til að bæta við enn fleiri versum.
Míka 6:2
Heyrið kærumál Drottins, þér fjöll, og hlýðið á, þér undirstöður jarðarinnar. Því að Drottinn hefir mál að kæra við þjóð sína og gengur í dóm við Ísrael:Sálmur 75:4
Þótt jörðin skjálfi með öllum þeim, er á henni búa, þá hefi ég samt fest stoðir.
Sálmur 18:2
Þá sá í mararbotn, og undirstöður jarðarinnar urðu berar fyrir ógnun þinni, Drottinn, fyrir andgustinum úr nösum þínum.
Sálmur 82:5
Þeir hafa eigi skyn né skilning, þeir ráfa í myrkri, allar undirstöður jarðarinnar riða.
Sálmur 104:5Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.
Job 38:4-6
Hvar varst þú, þegar ég grundvallaði jörðina? Seg fram, ef þú hefir þekkingu til. ver ákvað mál hennar _ þú veist það! _ eða hver þandi mælivaðinn yfir hana? Á hvað var stólpum hennar hleypt niður, eða hver lagði hornstein hennar,Orðskviðirnir 8:29
þegar hann setti hafinu takmörk, til þess að vötnin færu eigi lengra en hann bauð, þegar hann festi undirstöður jarðar.Og dæmin eru miklu fleiri
Þessi vers á auðvitað ekki að taka bókstaflega, bara Job 26:7?
Sindri Guðjónsson, 10.1.2008 kl. 19:50
Ritningin er aldrei í mótsögn þó að stundum virðist svo heldur er þar falinn sannleikur fyrir hyggindamönnum þessarar veraldar en í Kristi Jesú er hulan tekin í burtu. Ritningin er miklu dýpri í skilning en svo að hægt sé að alhæfa að verið sé að tala um náttúrulega hluti eingöngu, þar sem oftar er um andlega hluti að ræða, sem aðeins er hægt að skilja á andlegan hátt, til dæmis eru stólpar jarðarinnar nafn Drottins sem heldur henni uppi og jörðin hefur 4 horn eins og akur Bóasar þó að þau séu ekki náttúrulega til staðar á jarðarkringlunni, ég er sammála Snorra með jarðarkringlu í Jobsbók sem er talin elsta bók biblíunnar og þetta með dag og nótt á sama tíma.
Tehóme er einnig orðið sem notað er yfir helvíti, undirdjúp sem er staðsett í jörðu.
Hvernig líst ykkur á þessi vers í 2 Pétursbréfi 3 kafla: 3Þetta skuluð þið þá fyrst vita, að á síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum 4og segja með spotti: „Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að síðan feðurnir sofnuðu stendur allt við hið sama eins og frá upphafi veraldar.“ 5Viljandi gleyma þeir því að himnar og jörð voru til forðum. Guð skapaði þá með orði sínu og jörðin reis upp úr vatni og hvíldi á vatni. 6Þess vegna gekk vatnsflóðið yfir þann heim sem þá var svo að hann fórst. 7Eins ætlar Guð með sama orði að eyða með eldi himnunum sem nú eru ásamt jörðinni. Hann mun varðveita þá til þess dags er óguðlegir menn verða dæmdir og tortímast.
8En þetta eitt má ykkur ekki gleymast, þið elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur. 9Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við ykkur þar eð hann vill ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar.
Árni þór, 25.2.2008 kl. 19:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.