Nytsöm til fræðslu

Þegar ég var trúaður var eitt af fjöldamörgum uppáhalds Biblíuversum mínum að finna í öðru Tímóteusarbréfi, 3. kafla, og versi 16. Þar segir að sérhver ritning sé innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, umvöndunar og leiðréttingar og menntunar í réttlæti.

Ég taldi að það sem átt væri við með orðunum "sérhver ritning" væri "öll Biblían". Ég las Biblíuna mikið, og minnti mig stöðugt á það að allt það sem ég var að lesa væri innblásið af Guði, og nytsamt til fræðslu.

Ég velti oft fyrir mér undarlegum köflum í Biblíunni og reyndi, með hjálp Guðs, að draga lærdóm af öllu sem ég las (og næra minn innri mann, 1. Tím 4:6 og Matt 4:4).

En hvaða nytsama lærdóm gat ég dregið t.d. af eftirfarandi ellefu atriðum?

--- 

1. Guð vitjar misgjörða feðranna á börnunum. (2. Mós 2:20 og 4. Mós 4:18)

2. Ekki skal refsa þrælahaldara sem lemur þræla sínu svo illa að þeir deyji af sárum sínum, nema þeir deyi á aðeins einum eða tveimur dögum. Þrælarnir eru nefnilega eign húsbónda sinna, verði keyptir. (2. Mós 21:20-21)

3. Ef einhver náinn fjölskyldumeðlimur (dóttir, sonur, eiginkona, bróðir...), eða vinur sem þú elskar eins og lífið í brjósti þínu, reynir að fá þig til að trúa á annan Guð en Jahve, þá ber þér persónulega að hefjast handa við að drepa hann, og síðan allur lýðurinn. (5. Mós 13:6-9)

4. Heill þeim sem slær ungbörnum Babýloníumanna við stein. (Sálm137:9)

5. Sá sem lastmælir Drottni skal vægðarlaust grýttur. (3. Mós 24:16)

6. Drottinn skipaði sinni útvöldu þjóð nokkrum sinnum að þurrka út og gereyða öðrum þjóðum. Til dæmis í 1. Sam 15, þar sem útvöldu þjóðinni bar að drepa alla karla, konur, börn og brjóstmylkinga, naut og sauðfé, úlfalda og asna Amalekíta.

7. Að hafa samfarir við konu á blæðingum er dauðasök, bæði fyrir karlinn og konuna. (3. Mós 20:18)

8. Stúlka sem ekki er hrein mey á brúðkaupsnóttinni skal lamin til bana með grjóti við húsdyr föður síns. (5. Mós 22:13-14;20-21)

9. „Enginn Ammóníti eða Móabíti má vera í söfnuði Drottins. Jafnvel ekki tíundi maður frá þeim má vera í söfnuði Drottins að eilífu“. (5. Mós 23:3). Það kemur líka fram í Nehemía 13:1-3 að enginn Ammóníti eða Móabíti megi vera í söfnuði Drottins að eilífu. Í Ezra, 10 kafla, segir frá því að margir höfðu drýgt þá synd að giftast konum af erlendum uppruna. Þeir ákváðu, samkvæmt fyrirskipun Guðs, að reka þessar konur, og börn sem þeir höfðu eignast með þeim, frá sér. (Þetta er auðvitað allt í hrópandi mótsögn við efni Rutarbókar, sem var reyndar að mati margra beinlínis skirfuð til að leiðrétta þessar kenningar.)

10. Líf karla og drengja er tæplega tvöfallt verðmætara en líf kvenna og stúlkna (3. Mós 27). Sjá einnig þetta hér.

11. Ísraelsmenn máttu kaupa kanversk börn og leggja þau í þrældóm ævilangt. Þrælana mátti svo láta ganga í arf til ísraelskra barna. Bannað var að beita Ísraelsmenn valdi. (3. Mós 25:45-46)

---

Ég dró þann lærdóm af þessum dæmum, og ótal mörgum fleirum, að Biblían innihéli ekki aðeins forna og úrelta (en áhugaverða) heimsmynd, heldur líka siðferðisskoðnir sem væru úreltar (einfaldlega siðferði fornrar þjóðar). Mér þótti afar erfitt að horfast í augu við þessa augljósu staðreynd.

Áherslur Guðs þóttu mér skrítnar þegar ég fór að hugsa málið. Guð átti að hafa gefið gyðingum lögmál með 613 boðorðum (orðið Tóra er reyndar betur þýtt sem "leiðsögn" en "lögmál" að mínu mati). Meðal þeirra voru boð um að ekki megi skaða ávaxtatré með öxi meðan setið er um borgir (5. Mós 21:19), ekki bjóða Ammonítum og Móabítum frið (5. Mós 23:7), alls ekki gleyma hvað Ameliketar voru vondir og grimmir við Ísraelsmenn er þeir voru á leiðinni frá Egyptalandi (5. Mós 25:19), þurrka út afkomendur Amaleks (5. Mós 25:19), eyða hinum sjö kanverku þjóðum (5. Mós 20:17), æðstiprestur má ekki saurga sig með því að dvelja undir sama þaki og lík (3. Mós 21:11), bannað er að lána og fá lánað með vöxtum (3. Mós 25:37 og 5. Mós 23:20), en það má lána útlendingum með vöxtum (5. Mós 23:21), ekki má sjóða kiðling í mjólk móður sinnar (2. Mós 23:19) o.s.frv.

Þrátt fyrir að ég hafði gefið mér það, að öll þessi boðorð væru alveg bráð nauðsynleg, þá skildi ég ekki hvers vegna Guð gat ekki komið nokkrum orðum að ýmsum öðrum lífsreglum sem einhverveginn virtust meira áríðandi. Hvað með t.d. nokkur orð um að ekki megi meiða eða særa börn? Fyrir utan öll skrítnu boðorðin, sá Guð sér fært að eyða plássi til að segja að börn mættu alls ekki veitast að foreldrum sínum, og að grýta ætti óþekka og þrjóska stráka til dauða, ef þeir hlýddu ekki hlýddu mömmu og pabba þrátt fyrir að reynt hafi verið að berja þá til hlýðni (5. Mós 21:18-21), og að drepa ætti alla sem bölva föður sínum eða móður sinni (3. Mós 20:9). Guð vildi heldur ekki eyða púðri í að kenna mannkyni um tjáningar og skoðannafrelsi og annað sem mér virtist örlítið nauðsynlegra en að forðast að sjóða kiðlinga upp úr mjólk móður sinnar, eða að æðstipresturinn mætti ekki undir nokkrum kringumstæðum vera undir sama þaki og lík liðins manns. Var þetta spekin sem skapari himins og jarðar þótti nauðsynlegast að kenna okkur? Mannkynið hafði verið á jörðinni í yfir 100.000 ár án þess að eiga innblásna bók frá Guði. Loksins blés hann mönnum í brjóst að rita skilaboð að ofan, og þetta voru skilaboðin??

Mér varð ljóst að lögmálið innihéldi siðareglur fornrar þjóðar (en ekki stórasannleik að ofan). Flestar siðareglurnar eru góðar og gildar, en aðrar úreltar. Áherslurnar eru skiljanlega ólíkar þeim sem við myndum hafa, þar sem aðstæður, hugmyndir og skoðanir fólksins sem skrifuðu lögmálið voru ólíkar því sem gerist í okkar samtíma.

Maður þarf ekki að setja sig á háan hest og fordæma Biblíuna. Jefta er ein af trúarhetjunum í 11. kafla Hebreabréfsins sem kristnir eiga að hafa til fyrirmyndar. Í 11. kafla Dómarabókar segir frá því þegar Jefta fórnaði dóttur sinni sem brennifórn til þess að bera sigur á Ammónítum. Og Drottinn gaf Ammónítana í hendurnar á hans. Er þetta eitthvað verra en það sem við lesum í grískum sögum á borð við það þegar Agamennon fórnaði dóttur sinni til síns guðs, til þess að vinna að launum sigur yfir borginni Tróju? Svona skrif ættu ekki að koma neinum upplýstum manni á óvart, þar sem þau endurspegla einfaldlega samtíma sinn. Hann var grimmur og harður. Hlutirnir voru öðruvísi. Í Rómarveldi máttu heimilisfeður hafna börnum sínum og láta bera þau út, ef þau þóttu ekki nægilega efnileg til uppeldis. Rómversku 12 töflu lögin lýsa því hvernig aðstandendur barnanna máttu hýða þau, loka þau inni, og jafnvel drepa þau. Samkvæmt Lex Julia de adulteriis mátti faðir drepa gifta dóttur sína, ef hún var staðinn að verki við að drýgja hór. Þegar haft er í huga að forn lög voru oft verulega siðlaus í augum nútímamanna, verður boðorðið um að grýta óþekka syni, eða um að stúlkur sem ekki eru hreinar meyjar eigi að vera grýttar, og ýmis önnur lög í hebresku Biblíunni, ekki eins ill skiljanleg. Boðorðin eru ekki nein eilíf og heilög sannindi. Þau endurspegla fornan hugsunarhátt Hebrea, sem voru ekkert verri en aðrir.

Í Biblíunni (eins og í Hómerskviðum og ýmsu öðru gömlu og góðu) er líka að finna mikla snilld, vísdóm, og góða leiðsögn. Ég neita því ekki. T.d. átti blökkumaðurinn Marteinn Lúter King Jr. ekki í vandræðum með að finna góðan innblástur úr Biblíunni. Það eru mörg góð boðorð í lögmálinu. Svo dæmi sé tekið þá eru býsna góð boðorð um réttarfar og störf dómara meðal hinna 613 boðorða lögmálsins.

Þó að ég taki ekki lengur undir það með 2. Tím 3:16 að Biblían sé innblásin af Guði, þá tel ég að hún sé að mörgu leyti nytsöm til fræðslu. Einnig tel ég að þeir sem hafa verið "Biblíukristnir" lengi, og eru vel læsir, en hafa samt ekki enn lesið Biblíuna frá upphafi til enda, eða einungis fáa valda kafla, hafi sýnt það í verki, að þeir hafa minna álit á Biblíunni en ég. Hvers vegna lesa þeir ekki Biblíuna, ef hún er ómengað og myndugt, lifandi og kröftugt, orð Guðs?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

...það er eimmitt vísun í svona boð og bönn sem er rót nafns hljómsveitar minnar 'The Stoned Harlots' (sem er líka vísun í þátt úr American Dad seríunni).

Góð skrif. 

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 25.2.2008 kl. 09:53

2 identicon

Þetta er einmitt kerfislega uppsett og betur orðuð gagnrýni á lögmálið heldur en ég hef getað komið frá mér hingað til. Flott grein!

Jakob (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 14:02

3 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Takk Einar og Jakob.

Jakob, er þetta kannski "hlutlaus trúleysis nálgun"?  

Sindri Guðjónsson, 25.2.2008 kl. 15:00

4 identicon

Köllum þetta hlutlaus 1+1´ismi.

En ég stend við skilgreiningar mínar á nálgunum óhikað. 

Jakob (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 15:09

5 identicon

Sindri þú segir:

Einnig tel ég að þeir sem hafa verið "Biblíukristnir" lengi, og eru vel læsir, en hafa samt ekki enn lesið Biblíuna frá upphafi til enda, eða einungis fáa valda kafla, hafi sýnt það í verki, að þeir hafa minna álit á Biblíunni en ég. Hvers vegna lesa þeir ekki Biblíuna, ef hún er ómengað og myndugt, lifandi og kröftugt, orð Guðs?

Ég held þetta sé rétt hjá þér. Kristnir lesa Biblíuna oft ekki í heild enda eru þetta 66 bækur safnað saman í eitt rit. Menn lesa mest þau rit sem eru uppbyggjandi og skiljanlegri en þau sem þú varst að vísa í. Eftir að hafa lesið Biblíuna í heild er erfitt að vera bókstafstrúar í þeirri merkingu að hvert einasta orð og setning í Biblíunni sé orð Guðs til okkar og beint inn í okkar kringumstæður í dag. Eins og t.d. að við eigum að grýta þá sem ekki trúa eða þá sem drýgja hór.

En þetta er alltaf útskýrt svo af Biblíufróðum mönnum að hinn nýi sáttmáli sem Guð gerði við okkur í Kristi boði náð og fyrirgefningu en ekki grýtingu. En það svarar samt ekki þeirri spurningu af hverju algóður Guð boðaði svona harðar aðgerðir á þeim tíma.

En ef það er rétt hjá þér að heimurinn hafi almennt séð verið grimmari og harðari á árum áður og að siðaboðskapur þeirra tíma sanni það. Hvað varð þá til þess að við urðum kærleiksríkari og miskunnsamari í okkar siðferði. Gæti verið að þar hafi kristinn siðaboðskapur spilað eitthvert hlutverk?

Ég ætla að fylgjast með þessari umræðu áfram og ég vona að hér komi einhver sem geti komið með svör fyrir bókstafstrúaða menn.

Annars hef ég tekið eftir því að í okkar ''kristna'' þjóðfélagi í dag þá þarf ekki mikið til að fá á sig neikvæðan bókstaftrúar stimpil. Í okkar þjóðfélagi í dag þarf maður ekki annað en að játa trú á Jesú Krist og krossdauða hans og að Guð standi að baki sköpuninni á einn eða annan hátt til að vera kallaður bókstafstrúar og það er víst voða neikvætt. Maður virðist mega trúa og trúa ekki öllu sköpuðu öðru án þess að fá neikvæðan stimpil.

En þetta eru góðar og gagnlegar pælingar hjá þér. Við sem enn trúum höfum gott af því að fá gagnrýni því hún hvetur okkur til að leita svara og kannski hugsa hlutina upp á nýtt, þar sem þess gerist þörf.

Heiðrún (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 15:11

6 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Hæ Heiðrún, og takk fyrir innlitið og jákvæð orð. Ég held að okkar þjóðfélag sé ekkert sérstaklega kristið. Vestur Evrópa er að mestu „post-Christian“. Hún var kristin.

Það er nú umdeilanlegt hvort að Biblían séu 66 rit. Réttrúaðir, Kaþólikkar og Mómælendur deila um þetta. Í upphafi notað kirkjan grísku sjötíumannaþýðinguna sem innihélt bækur sem ekki eru í Biblíum Mótmælenda í dag. (Páll postuli vitanði t.d. yfirleitt í hana)

En alla veganna, flestar þessar 66 eru stuttar og fljótlesnar.

Ég er ekki samála því að staðirnir sem ég vísaði í séu erfiðari að skilja heldur en annað í Biblíunni. (Þó að þeir séu ekki eins uppbyggilegir og margt það besta sem er í henni, og eins og þú bendir á, þá er skiljanlegt að uppbyggilegu staðirnir séu lestnir oftar). Versin sem ég vitnaði í eru flest einföld og auðskiljanleg. Það er bara óþægilegar fyrir fólk sem hefur rangar hugmyndir um það hvað Biblían er í raun og veru að lesa þessi vers heldur en t.d. Jóhannesarguðspjall. Eina ástæðan fyrir því að eitthvað sem ég vísaði í er „ill skiljanlegt“ fyrir suma trúaða, er vegna þess að það rýmar ekki við hugmyndir þeirra um Biblíuna.

Davíð talaði líka um að versin sem ég vitnaði í færslunni „Risi í járnrúmi“ væru eitthvað sem hann skildi ekki alveg. Hvað er svona flókið við að skilja þau?

Ég held að guðfræðingurinn Pinnock hafi haft rétt fyrir sér þegar hann sagði: "The fundamentalists don't like the Bible they've got!". Fyrir utan að lesa og predika valda kafla, þá eyða þeir miklu púðri í að útskýra hvers vegna Biblían segi ekki þetta og hitt sem hún þó virðist segja, og hvers vegna ýmislegt sem viðrist vera í mótsögn, sé ekki í raun og veru í mótsögn, o.s.frv. Menn lesa mannakorna öskjur og valdar bækur. Ef menn skoðuðu Biblíuna í heild kæmust margir að því að hún er öðruvísi bók en þeir hafa talið sér trú um. Er ekki mikilvægt að hafa heildarsýn yfir trúarbók kristinna manna? – þ.e.a.s. ef maður er kristinn. Og er ekki „sérhver ritning“ nytsöm til fræðslu og innblásin af Guði? Er ekki allt orð Guðs lifandi og kröftugt? (Ætti ekki allt sem Guð blés mönnum í brjóst að skrifa að vera afburðargott og skemmtilegt í alla staði?)

Varðandi það hvort að kristni hafi átt þátt í því að siðferði manna hefur skánað, þá getur það vel verið. Hún hefur örugglega átt einhvern þátt. Hins vegar hafa kristnir stundum streist á móti siðferðislegri framför. Það voru m.a. sérstaklega kristnir menn, endurfæddir og niðurdýfingaskýrðir, sem börðust gegn afnámi þrælahalds, og vitnuðu í 3-4 ritningastaði í Nýja Testamenntinu sér til stuðnings. (Sama er að gerast núna varðandi réttindi samkynhneigðra). Margir kristnir hafa barist gegn sjálfsögðum kvennréttindum, og vísa t.d. í 1. Kor 11:3, 1. Kor 11:7-9, 1. Kor 14:33-35, Efesus 5:21-24, 1. Tím 2:11-15, Títus 2:3-5 og 1. Pet 3:1-2, svo dæmi séu tekin.

Það var svo á afhelgunartímum, eins og á Upplýsingunni, sem mestar framfarir urðu. Siðfræðingar fóru að vinna í því að útskýra hvers vegna hegðun væri góð eða ill, rétt eða röng, án þess að vísa til Guðs sér til stuðnings, eða segja að eitthvað væri gott, eða illt, af því að Guð hafi sagt það, eða kirkjan.

Svo er eitt annað. Nýja Testamenntið talar um það hvað menn verða rosalega vondir á síðustu tímum. Kannski lifum við á síðustu tímum og erum svo rosalega siðpillt að við skiljum ekki að t.d. þrælahald sé gott. Reyndar held ég nú að höfundar Nýja Testamenntisins hafi haldið að þeir sjálfir lifðu á síðustu tímum, væru seinasta kynslóðin, og þegar þeir skrifuðu um hversu eigingjarnir og vondir menn yrðu á síðustu tímum, voru þeir að gagnrýna sína eigin samtímamenn. 

Sindri Guðjónsson, 25.2.2008 kl. 19:42

7 Smámynd: Árni þór

Ég trúi að sérhver ritning sé innblásin af Guði...
vegna þess hversu Guð er stór og við anar smá þá getum við ekki til fulls skilið allt í ritningunni eingöngu vegna þess hver höfundurinn er, en ég hef lært að hægt er að skilja meira með að eiga samfélag við höfundinn sem opinberar þeim meira af sér sem eru heilshugar við hann, þegar blind augu manns opnast áttar maður sig meira á því hversu maður veit lítið miðað við Guð. Margt er skrifað sem er dulið hyggindamönnum þessa heims en í Kristi Jesú hverfur þessi hula, aðeins í samfélaginu við hann því hann er hið ritaða orð.

Árni þór, 25.2.2008 kl. 19:50

8 identicon

Góð grein og þörf lokaorð. Fátt leiðinlegra en menn sem telja sig kristna en hafa oft ekki græna glóru um innihald Biblíunnar. Stundum í umræðum um trúmál þá er maður jafnvel sakaður um að ljúga þegar minnst er á þær Biblíusögur sem ekki var talað um í sunnudagaskólanum, t.d. um Elísa og börnin 42 eða þegar Jesús drap fíkjutréð með bölbænum.

Að lesa Biblíuna vandlega er góð leið til að losa sig undan trúarkreddunum, a.m.k. þeim kristnu . Rétt að taka það fram að ég er enn ekki búinn með hana sjálfur, þyrfti að taka mig á þeim efnum.

Lárus Viðar Lárusson (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 20:21

9 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Seinasta málsgreinin í athugasemd númer 6 átti ekkert að vera skáletruð. Veit ekki hvað gerðist.

Hæ Árni og Lárus! Ég mæli með að Árni lesa umræðurnar sem fylgu eftir færslunni minni "Allir geta gert mannleg mistök". Takk fyrir hrósið Lárus.

Sindri Guðjónsson, 25.2.2008 kl. 20:32

10 identicon

Hæ aftur. Það sem ég meinti með að sum ritanna væru skiljanlegri en önnur, var sem sagt ekki að menn skilji ekki einfaldar setningar eins og : "þá skal fara með stúlkuna að húsdyrum föður hennar og borgarmenn skulu lemja hana grjóti til bana". Menn skilja einmitt ekki útfrá sinni bókstafstrú af hverju algóður, kærleiksríkur og miskunnsamur Guð lagði til slíkar refsingar og menn skilja ekki hvers vegna Guð birtist á svo ólíkan hátt í Gt. miðað við Nt. Og menn stinga gjarnan höfðinu í sandinn eins og þú segir og reyna ekki að lesa sér til né reyna þeir að skilja hlutina. Þeir segja einmitt eins og einn hér fyrir ofan að Guð er stór og ef það er eitthvað sem ég skil ekki í Biblíunni þá er það allt í lagi. Guð veit af hverju og ég treysti honum. En ef Biblían er orð Guðs og er sönn þá á að vera hægt að lesa hana og útskýra þessa hluti. Guð skapaði okkur með rökhugsun og skynsemi.

Í sambandi við kristinn siðaboðskap þá stendur hann fyrir sínu þrátt fyrir að kristnir menn fari ekki alltaf eftir honum.

Ef við pælum aðeins í kvenréttindum í Biblíunni,  þá er það greinilegt að hún er auðvitað skrifuð af körlum og í algjöru karlasamfélagi. Jesús kom til jarðarinnar sem karl enda hefði samtími hans annars ekki hlustað á hann. Köllun hans var ekki endilega að boða kvenréttindi. Hún var sú að sýna okkur konum og körlum hver Guð er og að frelsa heiminn. En ég trúi því samt að boðskapur hans hafi verið byltingarkenndur á þeim tímum þegar kom að kvennréttindum. Og að þrátt fyrir að það hafi tekið heiminn margar aldir að meðtaka þann boðskap þá var hann samt öflugt sáðkorn sem hafði sín áhrif ásamt mörgum öðrum þáttum að sjálfsögðu. Og orð Páls í Gal. 3:28 þar sem segir m.a. að hér er enginn karl né kona, þér eruð allir eitt í kristi, var einnig byltingarkenndur á þeim tímum.

Heiðrún (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 22:23

11 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Heiðrún skrifaði: "En þetta er alltaf útskýrt svo af Biblíufróðum mönnum að hinn nýi sáttmáli sem Guð gerði við okkur í Kristi boði náð og fyrirgefningu en ekki grýtingu."

Ég held reyndar að það sé skárra að vera grýttur, en að fara í eilífa refsingu í óslökkvandi eldsofn, þar sem ormarnir deyja ekki og eldur slokknar ekki. Á þeim tíma sem lögmálið var skrifað voru þessar hugmyndir um eldsloga helvíti ekki enn orðnar til. Allir fóru til Sheol eftir dauðann (sem er því miður bara þýtt hel, helja, og helvíti, þannig að fólk áttar sig ekki á því að þetta er annar hlutur). Sheol var ekki eins ógnvekjandi staður og helvíti. (btw, þetta er ekkert sérstaklega góð umfjöllun á wikipedíu um sheol... en betra en ekkert. Ég hef ekki tíma til að útskýra þetta nánar í bili, því ég er að pakka og taka til, svo ég geti farið suður.)

Sindri Guðjónsson, 26.2.2008 kl. 12:05

12 identicon

Ég hef einmitt aldrei verið sátt við helvíti eins og flestir. Og þetta er atriði sem mig langar til að stúdera betur. Mér hefur verið sagt að Lúther hafi túlkað helvíti sem slæma samvisku mannsins.

Ég sá einu sinni hryllingsmynd þar sem vondur maður var látinn fara inn í eldsofn og brenna til dauða. Þetta varði í mínútu eða svo og ég ætla aldrei aftur á hryllingsmyndir, er orðin of viðkvæm fyrir svona vitleysu. En þessi maður fékk þó að deyja eftir eina mínútu. Okkur finnst verulega grimmilegt þegar við fáum fréttir af því að verið sé að brenna ekkjur á báli á Indlandi og kristnir kalla þetta villimennsku, sem þetta auðvitað er.

En að hugsa sér að kærleiksríkur Guð hafi búið til svona stað og að hann láti fólk brenna lifandi, ekki bara í mínútu, heldur um alla eilífð er óhugsandi.

Þú þarft ekki að svara þessu, hafið það bara rosalega gott fyrir sunnan

Heiðrún (IP-tala skráð) 26.2.2008 kl. 23:26

13 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Takk fyrir það, og ég hef engu sérstöku að svara varðandi það sem þú varst að segja, er bara sammála þér. Ég veit um nokkra "semi-bókstafstrúarmenn", fólk sem talar í tungum og niðurdýfingarskýrir og allt það, sem eru með athyglisverðar pælingar varðandi helvíti o.þ.h., sem ég held þú gætir haft áhuga á. Ég er ekki í góðu netsambandi (ekki með nettengda tölvu þar sem ég gisti), svo ég fer ekkert nánar út í þá sálma í bili. En þetta eru nauðsynlegar pælingar fyrir þá sem vilja reyna að bjarga kristindómi, og hafa eitthvað smá vit í honum.

Sindri Guðjónsson, 27.2.2008 kl. 11:21

14 Smámynd: Bryndís Böðvarsdóttir

Sæll Sindri.

Kristur er sá túlkunarlykill sem við notum til skilnings á Gamla testamentinu og réttmætum lögmálum og gjörðum þar.  Kristur sýndi að t.d. grýtingar eru ekki vilji Guðs, sbr. Jóh.8:3-7

3 Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra 4og sögðu við hann: ,,Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór. 5 Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?``6 Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina. 7 Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: ,,Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana.

Hann kenndi okkur margt annað og var allt annað en velunnari faríseanna og trúarhöfðingja Gyðinga, eins og sjá má á Jóh. 8:37-59:

37 Ég veit, að þér eruð niðjar Abrahams. Þó leitist þér við að lífláta mig, því að orð mitt fær ekki rúm hjá yður. 38 Ég tala það, sem ég hef séð hjá föður mínum, og þér gjörið það, sem þér hafið heyrt hjá föður yðar.39 Þeir svöruðu honum: ,,Faðir vor er Abraham.`` Jesús segir við þá: ,,Ef þér væruð börn Abrahams, munduð þér vinna verk Abrahams. 40 En nú leitist þér við að lífláta mig, mann sem hefur sagt yður sannleikann, sem ég heyrði hjá Guði. Slíkt gjörði Abraham aldrei. 41 Þér vinnið verk föður yðar.`Þeir sögðu við hann: ,,Vér erum ekki hórgetnir. Einn föður eigum vér, Guð.`` 42 Jesús svaraði: ,,Ef Guð væri faðir yðar, munduð þér elska mig, því frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki er ég sendur af sjálfum mér. Það er hann, sem sendi mig. 43 Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt. 44 Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir. 45 En af því að ég segi sannleikann, trúið þér mér ekki. 46 Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? 47 Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki, vegna þess að þér eruð ekki af Guði.`` 48 Gyðingar svöruðu honum: ,,Er það ekki rétt, sem vér segjum, að þú sért Samverji og hafir illan anda?``49 Jesús ansaði: ,,Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn, en þér smánið mig. 50 Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til, sem leitar hans og dæmir. 51 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja.`` 52 Þá sögðu Gyðingar við hann: ,,Nú vitum vér, að þú hefur illan anda. Abraham dó og spámennirnir, og þú segir, að sá sem varðveitir orð þitt, skuli aldrei að eilífu deyja.
53 Ert þú meiri en faðir vor, Abraham? Hann dó, og spámennirnir dóu. Hver þykist þú vera?``
54 Jesús svaraði: ,,Ef ég vegsama sjálfan mig, er vegsemd mín engin. Faðir minn er sá, sem vegsamar mig, hann sem þér segið vera Guð yðar. 55 Og þér þekkið hann ekki, en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann, væri ég lygari eins og þér. En ég þekki hann og varðveiti orð hans. 56 Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn, og hann sá hann og gladdist.``57 Nú sögðu Gyðingar við hann: ,,Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur, og hefur séð Abraham!`` 58 Jesús sagði við þá: ,,Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist, er ég.``59 Þá tóku þeir upp steina til að grýta Jesú. En hann duldist og fór út úr helgidóminum.
 

Þarna beinlínis segir ávítar hann þá fyrir að vera manndráparar, enda vildu þeir grýta hann.

Af ofangreindu má sjá að Jesú kannast við að einhverjar mannasetningar voru komnar inn í lögmálið. Hann prédikaði t.d. gegn því að nota lögmálið auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. Hann kenndi að við ættum að fyrirgefa náunga okkar... Hann sagði : Leifði börnunum að koma til mín, því að þeirra er  himnaríkið...  o.s.frv.

Kristnir trúa á það sem Kristur boðaði. Sé eitthvað í G.t. sem stangast á við boðun Krists er það skilið sem mannasetningar gyðinga. Þegar maður lærir Sögu og Bókmenntir Hebrea í guðfræði, kemst maður fljótt að því að margt í G.t. má ekki setja á of háan stall. Lúther boðaði að Kristur ætti að vera okkur túlkunarlykill á Ritningunni. Það stemmir við það sem Páll, Pétur og hin fyrsta kirkja boðaði.  

Það er engum holt að vera bókstafstrúar! Túlka verður ritninguna í sínu sögulega samhengi og taka tillit til þeirra aðstæðna sem þær eru ritaðar í.

Bryndís Böðvarsdóttir, 19.3.2008 kl. 21:11

15 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Nýja testamenntið, og Jesús, gera ráð fyrir fullu kennivaldi og innblæstri Gamla testamenntisins.Matteus 23:1-3 segir:

1Þá talaði Jesús til mannfjöldans og lærisveina sinna: 2„Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear. 3Því skuluð þér gera og halda allt sem þeir segja yður.“ (Svo kallar hann fræðimennina og farsíeanna öllum illum nöfun, af því að þeir breyta ekki eftir lögmálinu)

Matteus 5:17-18 segir:

17Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla. 18Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu uns allt er komið fram.

Jóhannes 10:34-35 segir:

34Jesús svaraði þeim: „Er ekki skrifað í lögmáli yðar: Ég hef sagt: Þér eruð guðir? 35– og ritningin verður ekki felld úr gildi.

2. Pét 1:20-21 segir:

20Vitið það umfram allt að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. 21Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.

Í Jóhannesi 8:31-59, kallar Jesús fólkið sem hann er að tala við morðingja af því að þeir séu synir Djöfulsins, sem hata sannleikann og það sem af Guði er komið, og vilja drepa son Guðs (Jesús). Þar með hefur Jesús ekki afnumið öll grýtingarboð Gamla testamenntisins (sem eru komin frá Guði sjálfum!). Ég lærði reyndar Jóhannes 8:31-59 utan að, og predikaði þetta rifrildi Jesú við gyðingana nokkrum sinnum með miklum tilburðum og látbragði í Hvítasunnukirkjunni á Akureyri.

Lögmálið sjálft segir hvað eftir annað að boð þess séu eilíf boð sem aldrei falli úr gildi, og menn eigi að halda að eilfíu. Svo segir í Jósúa 1:8 "Þessi lögbók skal ekki víkja úr munni þínum. Þú skalt hugleiða efni hennar dag og nótt svo að þú getir gætt þess að fylgja nákvæmlega því sem þar er skráð, til þess að ná settu marki og þér farnist vel."

Varðandi fjallræðuna og antíþesurnar (þér hafið heyrt að sagt var... , en ég segir yður... ), þá er best að skilja Jesú þannig að hann sé ekkert að draga úr kennivaldi Gamla testamenntisins, eða segja að þar hafi slæðst inn vitleysur eða mistök. Hann er að útskýra hvernig Gyðingarnir skylja lögmálið vitlaust, og gagnrýna þeirra eigin hefðir, sem ekki byggjast á lögmálinu. T.d. segir Jesús í Matt 5:34 "þér hafði heyrt að sagt var, þú skalt elska náunga þinn, og hata óvin þinn." Það stendur hins vegar hvergi í Gamla testamenntinu, eða lögmálinu, að "þú skalt hata óvin þinn". Hins vegar er þessa hugmynd að finna í handritunum sem fundust í Kumran hellunum t.d.

Jesús er að hvetja menn til að halda lögmálið til hins ýtrasta, og að gera enn betur en þeim ber skylda til skv lögmálinu. Þetta var kallað að byggja varnarmúr umhverfis lögmálið ("hedge around the Torah"), og er og var mjög algengur hugsunarháttur í gyðingdómi. Lögmálið segir ekki drýgja hór = ef þú horfir aldrei í konu í girndarhug, drýgir þú aldrei hór. Lögmáli segir þú skalt ekki myrða = ef þú reiðist aldrei bróður þínum, muntu ekki fremja morð. Lögmálið segir ekki vinna rangan eið = ef þú sverð engan eið, þá vinnur þú aldrei rangan eið. Lögmálið segir auga fyrir auga, tönn fyrir tönn = gefðu frekar upp rétt þinn og vertu barn föður þíns á himnum, (þá ferðu ekki of langt). Þessi hugsunarháttur var mjög algengur í gyðingdómi og gömlum gyðinglegum ritum. T.d. segja gyðingar aldrei nafn Guðs, til að hindra að þeir brjóti lögmálsboðið um að leggja ekki nafn Guðs við hégóma. Ef þú segir aldrei nafn Guðs, er öruggt að þú brýtur aldrei þetta boðroð. (Fullt af svona dæmum í gyðinglegum ritum rabbíana. Kallað "hedge around the Torah", varnarveggur utan um lögmálið, eins og ég sagði áður). Antíþesurnar, eru engar antíþesur þegar að er gáð, heldur varnarveggur utan um lögmálið, og gagnrýni á rangan skilning og óbiblíulegar hefðir samtímamanna Jesúsar. Jesús (öllu heldur höfundur Matteusarguðspjalls, sem setur orðin í munn Jesúsar) hafði ekkert á móti lögmálinu.

Jesús sagði aldrei þau orð sem þú eignar honum úr Jóhannesi 8:3-7. Sagan af konunni sem staðin var að verki við að drýgja hór er seinni tíma viðbót. Ertu ekki byrjuð að læra "textual criticism" (textafræði) í guðfræðinni?

Sindri Guðjónsson, 20.3.2008 kl. 11:09

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú veizt ekkert um þetta, Sindri, þ.e.a.s. hvort Jesús hafi sagt eða ekki sagt þessi orð í Jóh.8. Frásögnin þarf ekki að vera ritstjórnarverk Jóhannesar til að vera sönn. Sjálfstæð, varðveitt heimild kann að standa að baki, sem fengið hefur að falla inn í Jóhannesarguðspjall sem eðlilegur þáttur þar. Menn fyrri tíðar litu ekki á samantektir sínar sem sín eigin höfundarverk, enda settu þeir gjarnan ekki nöfn sín á þær nema einna helzt bréfin. Svo er miklu logið um, að þessi texti sé frá því á 10. öld eða svo, hann er mörgum öldum eldri.

Þar að auki finnst mér býsn að heyra það, að þér þyki það frétt til næsta bæjar, að Gamla testamentið innihaldi ófullkomna hluti. Kom ekki Jesús m.a. til að fullkomna lögmálið? Áttarðu þig ekki á því, að það liggur í sjálfri Biblíunni, að þar er 'prógressíf' opinberun, stig af stigi er Hebreum og Gyðingum opinberað meira og meira af vilja Guðs og um hann sjálfan ... "Guð talaði fyrrum oftsinnis og með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna. En nú í lok þessara daga hefur hann til okkar talað í Syni sínum sem hann setti erfingja allra hluta. Fyrir hann hefur hann líka heimana gert. Hann, sem er ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans og ber allt með orði máttar síns ..." (Hebr.1.1–3). Við leggjum því ekki að jöfnu Gamla testamentið – jafngott og það þó er – og hið Nýja.

Með ósk til þín og þinna um góða íhugunardaga í kyrruviku og um páska, 

Jón Valur Jensson, 20.3.2008 kl. 15:47

17 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Jón Valur, eru boð um að ekki eigi að refsa þeim sem berji þrælana sína, að fólk eigi að drepa sína nánustu og kærsutu ástvini fyrir að boða þeim villutrú, að grýta eigi börn sem ekki hlýða foreldrum sínum, að grýta eigi fólk sem hefur samfarir meðan konan er á blæðingum, að útrýma eigi kanverskum þjóðum, o.s.frv., o.s.frv., bara ófullkomnar opinberanir frá Guði? Guð átti bara eftir að útskýra þetta betur eftir nokkur þúsund ár, þegar hann myndi senda Jesú. Þessar ófullkomnu opinberanir frá Guði gætu hafa verið dýrkeyptar fyrir suma.

Eða skilur þú þetta þannig að þessir ófullkomnu hlutir séu alls ekki frá Guði komnir, en hafi slæðst með, inn í hið opinberaða orð? Ég dreg þá eðlilegu ályktun að bækur sem hafa svona boð að geyma, séu mannlegar frá upphafi til enda, og endurspegli samtíma sinn. Þær eru ekki guðlegar. Fleiri en ég hafa dregið þessa eðlilegu ályktun. (setti hlekk á skemmtilega frásögn manns sem lenti í trúarkrísu einmitt vegna þessara atriði.)

Samkvæmt kristnum skilningi á Gamla testamenntið á það að endurspegla Jesú. Það á að sýna Nýja sáttmálann sem í skuggsjá. Það er ófullkomið að því leyti að Jesús hefur ekki verið opinberaður með sama hætti og í þeim nýja. Ég taldi því að skuggsjáin myndi sýna fallegri mynd af Jesú en raun bar vitni. Það er engin rökrétt ástæða til að telja að boðin sem slík, sem eru í Gamla testamenntinu, séu stundum ill og röng, eins og raun ber vitni, þó að um sé að ræða opinberun á lægra stigi. Mér hugnast ekki heldur trúarbók, sem er þannig gerð, að lesandinn geti valið hvað í henni sé frá Guði. Í "praxís" verða hlutirnir þá þannig, að það sem ekki þóknast lesandanum verður "ófullkomið". Hitt er fullkomið.   

Annars eru bæði Gamla testamenntið og það Nýja eins, hvað það varðar, að þau endurspegla bæði siðferðisskoðanir samtíma síns. Í Nýja testamenntinu er einnig að finna siðferði síns tíma, eins og fordæmingar á samkynhneigð, og kennslu um að konur eigi að vera undirgefnar mönnum sínum. T.d. í 1. Kor 11:3, 1. Kor 11:7-9, 1. Kor 14:33-35, Efesus 5:21-24, 1. Tím 2:11-15, Títus 2:3-5 og 1. Pet 3:1-2, endurspeglast að konur eru annarsflokks, settar skor lægra en karlmenn.

Jón Valur. Ef þú telur að Jesús hafi í raun sagt það sem birtist í sögunni um konuna sem drýgði hór, og að sú saga hafi í raun gerst, þá ert þú að draga mjög einkennilega og óraunhæfar ályktanir af þeim gögnum og heimildum sem fyrir hendi eru. Mætti ég kannski nota orðið "óskhygga"?  En hverju sem því líður, þá er þér auðvitað frjálst að trúa því sem þig listir.

Sindri Guðjónsson, 20.3.2008 kl. 20:08

18 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég benti þér einfaldlega á það, að theoría þín, Sindri, er ekki skotheld. Það er ekkert kennivald NT í hættu – né jafnvel textans í framanverðum 8. kafla Jóhannesarguðspjalls – þótt ályktað yrði í fræðiheiminum, að annað höfundarbragð sé af þeim texta en guðspjallinu að öðru leyti. Kirkjunni var gefið það fyrirheiti Krists, að Andinn Heilagi myndi leiða hana í allan sannleikann (þ.e.a.s. þann sannleika sem hann kom til að flytja), og efastu ekki um mátt Guðs til þess. Líttu frekar á það sem prófraun trúar þinnar (á Jóh.16.13 o.fl.), þegar þú lendir í erfiðum spurningum og jafnvel krísum eins og þessari.

Jón Valur Jensson, 21.3.2008 kl. 01:06

19 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Jón Valur. Það er býsna langt síðan trúarkrísu minni lauk. Það eru, eins og gefur að skilja, ekki nokkur einustu vandræði í trúarlífi mínu lengur. Ég er ekki í krísu.

Meðan ég var enn trúaður, þrátt fyrir að mér sýndust öll rök og öll skynsemi benda til þess að trú mín byggði á brauðfótum, þá reiddi ég mig einmitt á fyrirheiti eins og það sem er að finna í Jóh 16:13. Ég treysti því að Guð myndi leiða mig í allan sannleikann, eins og hann hafði lofað. Ég þakkaði Guði fyrir Anda sannleikans sem myndi leiða mig í allan sannleikann. (Ég er hér að tala um seinustu mánuðina. Megin þorra þess tíma sem ég var Kristinn, var ekki einu sinni veikur efi í huga mínum. Ég var alveg 100% viss, enda taldi ég mig þekkja Guð, og taldi mig upplifa nærveru hans og snertingu margsinnis)

Veistu annars hvers vegna Mormónar vita að Mormónsbók er komin frá Guði? Þeir hafa spurt hann, og hann hefur svarað þeim! Þeir finna fyrir nærveru Guðs staðfesta fyrir þeim sannleika Mormónsbókar. Þeir finna frið hans og finna hann leiða sig í sannleikann. Þeir hafa vitnisburð Andans innra með sér. Þeir finna fyrir eldi Guðs (eins og Krossara gera stundum). Þess vegna skitpa rök sem benda til þess að Mormónsbók sé samin á 19.öld og innihaldi fullt af vitleysu og dellu þá engu máli. Þeir vita að þeir vita að þeir vita að hún er frá Guði. Þeir þekkja Guð. (eða svo halda þeir)

Sindri Guðjónsson, 21.3.2008 kl. 02:46

20 Smámynd: Jón Valur Jensson

Einstaklingum er ekki fyrirheitið að vera leiddir í allan sannleikann, heldur hinu kristna samfélagi, kirkjunni. Það er gríðarlegur munur á þessu.

Jón Valur Jensson, 22.3.2008 kl. 00:08

21 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Þetta er kaþólskur skilningur hjá þér Jón. Mótmælendur telja að Andinn leiði einstaklinginn.

Róm 8:14 segir: "Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn." (hljómar eins og loforð til einstaklingsins)

Í 1. Jóhannesarbréfi 2:27 segir: "Andinn, sem Kristur smurði ykkur með, býr í ykkur og þið þurfið þess ekki að neinn kenni ykkur því andi hans fræðir ykkur um allt". Hljómar eins og loforð til einstaklingsins fyrir mér. Hins verð ég að sitja þann fyrirvara, að farið er fram á að hann sé í samfélagi við Guð og hina trúuðu - 1 Jóh 1:7"En ef við göngum í ljósinu, eins og hann sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd.
 

Ég tel því að það sé eðlilegt að skilja loforð eins í Jóh 14:26 og Jóh 16:13 o.fl. að það séu til allra lærisveina Jesú, enda fer Guð ekki manngreinarálit. Amk eru samhljóma fyrirheiti að finna annarsstaðar.

Sindri Guðjónsson, 22.3.2008 kl. 03:32

22 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Ég er greinilega orðinn alltof sifjaður, eins og sést á villuflóðina hér fyrir ofan.

Sindri Guðjónsson, 22.3.2008 kl. 03:34

23 Smámynd: Jón Valur Jensson

Menn eiga að leiðast af Andanum í lífi sínu, og þeim, sem taka við Syni Guðs, er það fyrirheitið að verða Guðs börn – vissulega veitist þetta einstaklingum. En það er rétt, að það er kaþólskur skilningur, að það er fyrst og fremst kirkjan, samfélagið, heild postulanna og eftirmanna þeirra, hirða kirkjunnar, þeirra sem fara með kennivaldið, þ.e. biskupanna, sem heitið er að vera "leiddir í allan sannleikann", þ.e. óskeikul kristin kenning (að því marki sem hún hefur hverju sinni verið úrskurðuð af kirkjunni sem heild). Það er algerlega ljóst, að það geta ekki verið öll kristin félög né allir kristnir einstaklingar, jafnvel ekki allir þeir sem vilja leiðast af Andanum, því að þvílíkt er ósamræmið í kenningarefnum í hinum kristna heimi.

Einhverjum kann að þykja það hroki af kaþólsku kirkjunni að telja sig þá kirkju sem Kristur sjálfur stofnaði og heitið var leiðsögn Heilags Anda í sannleiks- og kenningarefnum. En ætli það væri ekki meiri hroki af kirkju sem hefði 8% kristinna manna innan sinna vébanda heldur en kaþólsku kirkjunni, sem hefur 51% hinna kristnu sem meðlimi sína, að eigna sér slíkar náðargjafir? Þar að auki eru margar kirkjur stofnaðar löngu eftir Krists daga, flestar á nýöld, svo að það dregur nú úr tilkallinu til að vera stofnaðar af Kristi!

Því til viðbótar vil ég nefna, að kaþólska kirkjan viðurkennir það fúslega, að önnur kirkjusamfélög eigi líka hluttöku í ýmsum eigindum (eða notæ) kirkjunnar og flytja orð Guðs og miðla trúnni og náðargáfum til manna, þótt vitaskuld sé ekki hægt að ábyrgjast, að mörg mannleg trúarfélög hafi öll óskeikula kenningu. Sannleikurinn er ekki sannleikur, ef hann mótstríðir sjálfum sér. Samt er blessunarlega mikil eining meðal kristinna kirkna um mörg meginatriði kenningarinnar, einingu Guðdómsins, Heilaga Þrenningu, Guðs- og mannseðli Jesú Krists, endurlausnarverk hans eins, að hann sé meðalgangarinn eini (í fullkominni og hinni algerlega nauðsynlegu merkingu) milli Guðs og manns og margt fleira. Samkirkjuhreyfingin hefur líka fært kirkjurnar nær hver annarri á 20. öld, en jafnframt eru þó komnar nýjar hræringar, ofurfrjálshyggja í trúarefnum og ásókn veraldarhyggju og annarlegra viðmiða – einnig innan sumra kirkna – sem verka í hina áttina og valda sundrungu kristinna trúarsamfélaga í heiminum, eins og sést á því, sem við gætum kallað 'hómósexúalísku endurskoðunarhyggjuna' meðal sumra kirkjuleiðtoga og presta (einkum í 'established churches' prótestanta sem tengdar hafa verið ríkinu á hverjum stað), en af þeirri andkristnu stefnu, vondu siðfræði og afvegaleiddu Biblíutúlkun er að hljótast klofningur innan Anglíkönsku kirkjunnar og rof þess sambands, sem komizt hafði á með sumum kirkjusamfélögum, t.d. sænsku kirkjunni og þeirri rússnesk-orþódoxu. Á sama tíma hefur myndazt meiri kenningarleg samheldni milli charismatískra mótmælendakirkna (hvítasunnuhreyfingar o.fl.) annars vegar og rómversk-kaþólskrar og orþódoxra kirkna hins vegar. Það er lífið, síður í hinum vanræktu, ríkistengdu, fremur illa sóttu mótmælendakirkjum, sem verða sakir rótleysis og þó róttækni margra nýjabrumspresta svo auðvelt herfang ofur'frjálshyggju', sem jafnvel neitar að taka afstöðu með lífsrétti ófæddra barna.

Jón Valur Jensson, 22.3.2008 kl. 12:28

24 Smámynd: Jón Valur Jensson

Síðasta setningin átti að byrja svona: Þar er lífið, síður í ...

Jón Valur Jensson, 22.3.2008 kl. 16:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sindri Guðjónsson

Höfundur

Sindri Guðjónsson
Sindri Guðjónsson

Ég heiti Sindri! Ég er trúlaus, og blogga hér aðallega um Biblíuna. (Ég er að vísu sem betur fer hættur þessu stússi)

 

Þú getur haft samband: sindri79(a)gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...itvig
  • ...ysyvq
  • ...100_2438

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 2435

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband