Ljóðræn og hispurslaus

Það sem mér finnst skemmtilegast við hebresku Biblíuna (Gamla testamenntið er ónefni), er hversu ljóðræn og hispurslaus hún er.

Vesturlandabúum finnst oft eitthvað göfugt við það að taka hlutunum með "stóískri ró". Hebrearnir voru hins vegar óhræddir við tilfinningar sínar, og voru oft mjög dramatískir í lýsingum sínum. Ekki einu sinni Guð er látinn taka hlutunum með "stóískri ró". Hann hafði skap. Biblían skefur ekkert undan:

"Viðkvæmar konur suðu með eigin höndum börnin sín, þau voru þeim til næringar, þá er dóttir þjóðar minnar var eydd. Drottinn tæmdi heift sína, úthellti sinni brennandi reiði og kveikti eld í Síon, er eyddi henni til grunna." Harmljóðin 4:10-11

"Hefir hann ekki sent mig til þeirra manna, sem þar sitja uppá borgarveggnum og eiga þann kost fyrir höndum ásamt með yður að eta sinn eigin saur og drekka þvag sitt?" Jesaja 36:12

Það er svo auðvitað þekkt hvernig Hebrearnir rifu klæði sín, iðruðust í sekk og ösku, þegar Davíð konungur dansaði nakinn gleðidans frammi fyrir Guði, o.s.frv. Þeir höfðu tilfinningar og tjáðu þær. Biblían lýsir lystilega vel bæði gleði og sorgum Hebreanna. Arabarnir eru svipaðir hvað þetta varðar, og mig grunar að Kóraninn beri þess merki.

Ég hef áður fjallað eitthvað um ljóðin í hebresku Biblíunni. Mig langar að bæta við öðrum dæmum um ljóðræn skrif. Hér kemur "hljóðrituð" útgáfa af Jesaja 28:10 (ég nota "z" þegar hún nær því betur að lýsa hljóðinu sem notað er, frekar en íslenskt "s")

Tzav latzav, tzav latzav

Kav lakav, kav lakav

Ze'er sham, ze'er sham

Því miður skilar þetta sér einungis þokkalega í þýðingum. "Alltaf að skipa og skipa, skipa og skipa, skamma og skamma, skamma og skamma, ýmist þetta, ýmist hitt."

Þess má geta að aðal stafirnir sem eru notaðir í Jesaja 28:10, birtast í sömu röð í hebreska stafrófinu.

Hebreska "stuðlunin" kemur auðvitað ekki oft fram í þýðingum, en þeir léku sér oft lystilega vel með hljóð. (ekki að það sé neitt hebreskt einsdæmi). "Huggið, huggið lýð minn," (Jesaja 40:1), er t.d. Nahamu, nahamu, ammí á hebresku, sem mér finnst hljóma mjög fallega. "Þá hlumdu hófarnir, af reiðinni, reið kappanna", (Dómarabókin 5:22), er t.d. Daharot, daharot, abbirav, sem er enn eitt dæmið um mjög fallegt hljómfall á hebreskunni. Hægt er að taka óendanlega mörg dæmi. Mörg góð dæmi væri hægt að taka úr sköpunarsögunni í fyrstu Mósebók. "Jörðin var þá auð og tóm", er t.d. tóhú, va vóhú á hebreskunni. "Í upphafi skapaði" er Bereishít bara, "það var kvöld og það var morgun", sem er síendurtekið í allri frásögninni, er vahíerev vahívóker. Eftir að ég lærði smávegis í hebresku lifnaði Biblían við, og ég byrjaði að lesa mun meira en áður. Ég mæli með því að allir áhugamenn um Biblíuna reyni að læra amk að lesa hebreskuna.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalbjörn Leifsson

Sæll Sindri Guðsmaður! Hvar lærðir þú hebreskuna? Og gætir þú verið svo vingjarnlegur að láta mig og aðra vita hvar það er hægt. Guð blessi þig og þína í Jesú nafni Amen.

Aðalbjörn Leifsson, 2.8.2008 kl. 20:11

2 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Sæll. Ég byrjaði að læra hebresku fyrir þremur árum, eða eitthvað svoleiðis, og var gersamlega á kafi í henni á tímabili, þar sem ég gerði ekkert annað í frímínótum í skólanum (og í tímum), en að leysa hebresku verkefni, auk þess sem allur vinnudagurinn fór meira og minna í þetta, þegar ég sat í rólegheitunum í hliðvörslu fyrir austan. Ég var alltaf með hebresku spólur í bílnum líka, í c.a. hálft ár hlustaði ég ekki á annað meðan ég keyrði. Ég vandi mig líka á að lesa alltaf hebreska textann samsíðis, þegar ég las Biblíuna, sem þýddi að ég las slatta í hebresku á hverjum degi. Ég skráði mig í hebresku í fjarnámi hjá Guðfræðiháskóla sem Assemblies of God eru með í Brussel, og las allt það námsefni og hlustaði á hljóðsnældur o.s.frv, og hélt svo áfram og keypti allskonar diska og tölvuforrit o.þ.h. Þú getur talað við Lilju Óskarsdóttur sem sér um Guðfræðiskólann til að skrá þig í fjarnám og fá bækur. Ég þreytti reyndar aldrei prófið. Ég held að sú staðreynd að ég var orðinn trúleysingi áður en ég kláraði námsefnið hafi latt mig til að taka próf í kristilegum skóla. Mér fannst tilhugsunin óþægileg, þar sem tilgangur skólans er að þjálfa fólk upp til að gegna kristinni þjónustu. Mér hefði liðið eins og boðflenna.

Þú getur byrjað strax að læra að lesa hebresku stafinu á Anceint Hebrew Research Center, en þeir eru með frábærar síður til lestrar kennslu.

Sindri Guðjónsson, 2.8.2008 kl. 21:22

3 identicon

Hvað varð til þess að þú varðst trúfrjáls Sindri?

DoctorE (IP-tala skráð) 3.8.2008 kl. 21:44

4 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Í stuttu máli er svarið við þessari spurningu: Biblíulestur. Því meira sem ég las og velti Biblíunni fyrir mér (oftast biðjandi Guð um að uppljúka henni fyrir mér, "gefa mér anda speki og opinberunnar svo ég gæti þekkt hann betur" Efesus 1:17), því meir fjaraði undan trú minni.

Sindri Guðjónsson, 17.8.2008 kl. 22:35

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Skyldi hrynjandinn, hljómfallið og formið yfirleitt hafa ráðið orðnotkuninni? Skyldi vera að margt í bilíunni sé misskilið eða jafnvel merkingarlaust, vegna þess að formið var framar merkingunni? Þetta er þekkt í ljóðagerð og sum ljóð byggjast nánast eingöngu á hljómfalli án þess að merkingin sé mikilvæg eða nokkur í sumum tilfellum. Einskonar sefjun, mantra eða aðferð til aðkomast í höfugt ástand og stöðva hringrás veraldlegra hugsana. Þetta er oft mikilvægari þáttur í trúariðkun en heimsspekin eða gnostíkin. Oft er talað um huldar meiningar, sem þarf að ráða til að öðlast vakningu og frelsun. Getur verið að það sé einskonar afsökun þeirra, sem ekki skildu torræða eða jafnvel merkingalausa texta.  Margt eignaJesú í ´Tómasarguðspjalli virðist þessari náttúru gætt og ég ímynda mér að Jóhannesarguðspjall sé jafnvel litað af þessu.

Kannski var til Hebreskur, Arameískur, koptískur og Grískur Æri Tobbi...

Jón Steinar Ragnarsson, 17.8.2008 kl. 23:44

6 identicon

Sæll Sindri minn.

Ég er nú bara í fyrsta skipti á síðunni þinni og veit ekki hvenær ég kíki aftur. En til hamingju með nýjasta afkomandann. Megi þeir verða sem flestir... 

Það er tvennt sem ég velti fyrir mér þegar ég renni yfir færslurnar þínar:

1. Margir þeirra sem missa trúna hætta að hafa áhuga á henni yfirleitt. Þú rífur hana hins vegar niður. Rétt eins og maður sem hættir að æfa handbolta snúi sér að því að vinna gegn honum í stað þess að snúa sér bara að einhverju öðru.

2. Einhvers staðar á trúargöngunni týndirðu heilögum anda. Þú getur vitað ýmislegt um hann, en án nærveru hans dags daglega verður trúin snauð.

Með það í huga skil ég afstöðu þína ágætlega. En ég vil ekki skipta.

Vertu góður við Petru. Bið að heilsa.

Dögg Harðardóttir

Dögg Harðar (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 21:34

7 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Sæl Dögg Harðardóttir.

Ég missti ekki trúna. Ég hætti að trúa.  (Enginn missir hér á ferð)

Það eru margir sem hætta að trúa, sem halda áfram að hafa áhuga á trúmálum. Að hvaða leyti ríf í trúna niður?

Ég týndi aldrei Heilögum anda. Ég var alltaf í ljómandi góðu sambandi við hann að ég hélt, og talaði í tungum í klukkustund á dag, og oft meira, og hlustað á Heilagan anda tala við mig, og lofaði Guð, oft afar hrærður yfir nærveru Heilags anda, alveg þar til ég áttað mig á því að Guð væri líklega ekki til. Trúarlíf mitt snérist að mjög miklu leyti um nærveru Guðs, sem ég taldi mig oft skynja mjög sterkt, og var mitt megin haldreipi, meðan það var að fjara undan trúnni. Sérstaklega undri lokin, þegar Biblían var orðinn hálf ónýtur grundvöllur fyrir trúna frá mínum bæjardyrum séð, þó að ég hafi reynt að halda dauða haldi í hana.

Vertu góð við Fjalar.  

Sindri Guðjónsson, 4.9.2008 kl. 10:00

8 identicon

Sæll aftur.

Páll postuli fór hina leiðina. Hann þekkti ritningarnar, en ekki Krist. En þegar hann fékk að snerta hann, ef svo má að orði komast, þá tók hann trú. Það var vissulega viljaákvörðun. Byggð á svipaðri rökhyggju og þú beitir. Bara í hina áttina.

En ég skal vera góð við Fjalar

Dögg

Dögg (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 22:37

9 identicon

Þú segist hafa talað tungum. Þú taldir þig trúaðan en varst það ekki. Hvaðan kom þetta tungutal? Kom þetta bara ósjálfrátt eða varstu meðvitaður um að þú værir að feika þetta? Eru flestir sem tala tungum þá bara að ímynda sér að heilagur andi sé innra með þeim. Spyr sá sem ekki veit.

Ein Fávís (IP-tala skráð) 6.9.2008 kl. 02:32

10 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Sæl vertu Fávís. Ég var trúaður, ég taldi mig ekki bara trúaðan. Ég var (amk oftasta) eins viss um að Guð, og Jesús og Heilagur Andi væru til, og að ég hefði samfélag við Guð, eins og ég er viss um að ég sit á sófanum sem ég sit á núna. Tungutalið kemur "ósjálfrátt". Maður tekur ekki meðvitaðar ákvarðanir um hvað maður segir með sama hætti og þegar maður talar venjulega, en þetta er samt eitthvað sem allir geta lært að gera. Það er meðal annars vegna þess að maður hugsar ekkert endilega um hvað það er sem maður er að segja, að margir sí endurtaka sömu atkvæðin reglulega. Ég var ekki beint að feika þetta.

Fólk upplifir sterkar tilfinningar í tengslum við trúna í þessum tungutalandi söfnuðum. Oft hlustar það á "lofgjörðartónlist", sem er falleg tónlist um það hvað Guð er mikill Guð, eða um það hvað hann er góður, og hvað hann hefur gert. Þetta snertir við fólkinu, og það upplifir ýmsar tilfinningar, og halda að það finni fyrir "smurningu" Heilags anda. Þetta gerist líka oft bara heima, þegar maður er að biðja eða hugleiða. Maður túlkar eitthvað sem bærist innra með manni sem Heilagan anda. Manni dettur eitthvað sniðugt í hug, og telur að Heilagur andi hafi verið að tala við sig, o.s.frv.

Sindri Guðjónsson, 6.9.2008 kl. 07:04

11 Smámynd: Sindri Guðjónsson

ég skrifaði "ég var ekki beint að feika þetta". Réttara væri að segja: "ég var ekki að feika tungutalið". Tungutalið er bara ekki yfirnáttúrulegt.

Sindri Guðjónsson, 6.9.2008 kl. 07:07

12 identicon

Ég heyrði einu sinni gamla konu í Fíladelfíu biðja á sænsku. Þegar hún lauk bæninni spurði ég hana hvar hún hefði lært sænsku. Hún horfði á mig steinhissa og sagðist aldrei hafa lært önnur tungumál en íslensku.

Tungutalið ER yfirnáttúrulegt.

Dögg (IP-tala skráð) 6.9.2008 kl. 10:36

13 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Ég heyrði einu sinni tvo Pólverja tala saman á frönsku um það hvað maturinn í mötuneytinu á Reyðarfirði þar sem ég er að vinna væri vondur. Ég sagði þeim á frönsku að mér þætti bara allt í lagi með matinn. Þá kom á daginn að þeir skyldu alls ekki frönsku, og mér hafði einfaldlega misheyrst. (Sum orðin þeirra voru kannski lík frönsku orðunum sem ég þekkti, og svo hefur ef til vill heilinn í mér fyllt í eyðurnar með frönskum orðum.)

Sindri Guðjónsson, 6.9.2008 kl. 15:56

14 Smámynd: Sindri Guðjónsson

ég var að vinna á Reyðarfriði, en er ekki að vinna þar.

Sindri Guðjónsson, 6.9.2008 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sindri Guðjónsson

Höfundur

Sindri Guðjónsson
Sindri Guðjónsson

Ég heiti Sindri! Ég er trúlaus, og blogga hér aðallega um Biblíuna. (Ég er að vísu sem betur fer hættur þessu stússi)

 

Þú getur haft samband: sindri79(a)gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...itvig
  • ...ysyvq
  • ...100_2438

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband