Vantrú í eyðimörkinni

Í 2. Mósebók (og reyndar víðar) segir frá því þegar Guð leiddi Ísraelsmenn út úr Egyptalandi. Við getum vitað hvenær þeir atburðir sem Biblían segir frá, varðandi eyðimerkurgöngu Ísraelsmanna, áttu að eiga sér stað, þar sem Konungabók segir að brottforin hafi verið 480 árum áður en bygging musterisins í Jerúsalem hófst, sem var á 4 ári í tíð Salómóns konungs.

Samkvæmt Biblíunni fæddist ísraelska þjóðin í Egyptalandi ef svo má segja, en Ísraelsmenn voru afkomendur 12 bræðra sem þangað höfðu flutt, og bjó öll þjóðin fyrstu árhundruðin í Egyptalandi. Samt eru hér um bil engin áhrif frá fornu tungumáli og ritmáli Egypta í hebresku. Merkilegt.

Á ákveðnum tímapunkti, eftir 400 ára þrældóm, leiddi Guð Ísraelsmenn út úr Egyptalandi, eftir að hafa sent stórmagnaðar plágur yfir Egypta. Sú síðasta fólst í því að Guð drap alla frumburði Egyptalands. Það sem er einna merkilegast við þá sögu, er sú staðreynd að Faraó var tilbúinn til að leyfa Ísraelsmönnum að fara, en Guð herti hjarta hans, til þess að þessi síðasta plága mætti ganga yfir landið. Ísraelsmenn smurðu dyr sínar blóði páskalambsins, en þetta voru fyrstu páskarnir. Hverju ísraelsku heimili var sagt að fórna lambi í þessum tilgangi, og borða það eftir kúnstarinnar reglum. Þeirra frumburðum var þar með hlíft. Blóð páskalambsins frelsaði þá. (Kristnir menn tala um Jesú sem páskalambið, og að blóðið hans frelsi einnig. Þetta var sem sagt tákn mynd af Nýja sáttmálnum.)

Eftir fyrstu páskana, þegar Egyptaland var í sárum eftir að Guð hafði drepið alla frumburði landsins, leyfði Faraó Ísraelum að fara.

Guð gekk á undan Ísraelum í skýstólpa á daginn, og eldstólpa á næturna. Eldstólpinn og skýstólpinn véku aldrei úr augsýn fólksins. Guð leiddi svo Ísraelsmenn að Sefhafinu/Rauðahafinu, og narraði Faraó til að láta her sinn elta, með því að herða hjarta Faraós enn á ný. Guð opnaði svo Rauðahafið, og gengu Ísraelsmenn yfir það þurrum fótum. Það hefur verið vægt til orða tekið merkileg lífsreynsla, enda tæki það marga daga að ganga yfir Rauðahafið. Skyldu Ísraelsmenn hafa tjaldað á hafsbotni, undir háum vatnsveggjum? Her Faraós var svo drekkt í hafinu, en þannig vildi Guð sýna dýrð sína í verki, eins og segir í bókinni. 

Rammt vatn sem Ísraelsmenn ætluðu að drekka, breyttist í ferskt vatn, þegar Móses kastaði tré í það. Er Ísraelsmenn voru á ferð sinni í eyðimörkinni, lét Guð rigna yfir þá mat. Bæði manna og lynghænum. Ísraelsmenn fengu manna af himnum dagalega í 40 ár!

En þrátt fyrir að hafa upplifað plágurnar og fyrstu páskana. Gengið í gegnum Rauðahafið þurrum fótum í marga daga. Horft daglega á skýstólpa og eldstólpa. Fengið daglega lynghænur sem féllu af himni ofan í matinn, drukkið kraftaverkavatn, og upplifað ýmislegt annað sem ætti heima í færslunni "Risi í járnrúmi", þá trúðu Ísraelsmenn ekki, og voru Guði óhlýðnir og uppreisnargjarnir. Það út af fyrir sig, er það ÓTRÚLEGTASTA við þessa frásögn alla. Ísraelsmenn ráfuðu um eyðimörkina í 40 ár, þrátt fyrir að ferðin þyrfti ekki einu sinni að taka einn mánuð. Ástæðan var ekki sú að Guð væri svo slakur leiðsögumaður, heldur vantrú Ísraelsmanna.

Þegar Ísraelsmenn lögðu af stað, voru um 600.000 karlemnn í hópnum, auk kvenna og barna. Því má áætla að ferðalangarnir hafi verið 2 milljónir manna. Ýmsir fornleifafræðingar hafa bent á það hversu einkennilegt það sé, að stór þjóð, sem bjó í lítilli eyðimörk í 40 ár, hafi ekki skilið eftir sig nein ummerki. (kannski enn eitt kraftaverkið?!) Annað kraftaverk er sú staðreynd að Ísraelsmenn urðu aldrei varir við allar egypsku herstöðvarnar og eftirlitsstöðvarnar, sem fornleifafræðingar hafa fundið í eyðimörkinni frá þeim tíma sem um ræðir. Eyðimörkin var þétt setin af Egyptum allan tímann, nema ef fornleifafræðingum skjátlast.

Líklegasta skýringin á því að ferðin hafi tekið 40 ár, en ekki t.d. 28 ár, eða 2 mánuði, er hvorki trúleysi, né slæm farastjórn Guðs, heldur sú að höfundur sögunnar hafi verið talsvert skotinn í tölunni 40. Það sést, sé Biblían skoðuð, að sú tala var í tísku hjá sumum hebreskum rithöfundum: Það ringdi í 40 daga í Nóaflóðinu. Flóðið var í 40 daga. 40 sökklar úr silfri voru undir borðunum í tjaldbúðinni. 40 ára friður ríkti í Ísrael í kjölfar dómaranna sem Guð setti yfir þá. Einn dómarinn átti 40 syni. Guð gaf Ísrael í hendur Fílistum í 40 ár. Ísak var 40 ára þegar hann giftist Rebekku. Móses var í 40 daga á fjallinu með Guði. Njósnararnir sem njósnuðu um fyrirheitnalandið gerðu það í 40 daga. Elí var prestur í 40 ár. Davíð ríki í 40 ár. Sál ríkti í 40 ár. Salómon ríkti í 40 ár. Elí var í 40 daga í eyðimörkinni. Jónas gekk um Nínevu í 40 daga. Musterissalurinn var 40 álnir að lengd, og svo framvegis.

Hinni trúlausu 40 ára kraftaverkagöngu lauk á endanum. Ísraelar komust til fyrirheitnalandins Kanan. Ekki segir reyndar frá þeim ferðalokum í 2. Mósebók, heldur annarsstaðar. 

Ísraelsmenn þurftu á leiðarenda að berjast við ýmsar kanverskar þjóðir sem réðu ríkjum í fyrirheitnalandinu áður en þeir gátu sest þar að. Samkvæmt fornleifafræðinni voru það hins vegar Egyptar sem réðu ríkjum í fyrirheitnalandinu góða, en Biblían talar aldrei um bardaga Ísraela við þá. Egypska heimsveldið var gríðarstórt og teygði anga sína víða, og landið helga, var í traustataki Faraós þegar Ísraelsmenn áttu að hafa komið þangað, og í mörg ár á undan og eftir. Fullt af skjölum og göngum og uppgröftum sýna að svo sé. Meintur flótti Ísraelsmanna frá Egyptalandi hefði því einungis leitt þá yfir á annað yfirráðasvæði Egypta. Þeir hefðu aldrei yfirgefið egypska heimsveldið.

Hérna er hægt að horfa á mynd varðandi fornleifafræðina. Það er reyndar fyrst og fremst 2. hluti sem kemur málinu við.

Sagan af eyðimerkurgöngu Ísraelsmanna, og af brottförinni úr Egyptalandi, er stórskemmtileg saga. Þar er að finna frásögnina um gullkálfinn, og boðorðin tíu og margt fleira skemmtilegt, auk þeirra hluta sem áður hafa verið raktir. Það er hins vegar fráleitt að leggja bókstafstrúarskilning á hana.

 


Bloggfærslur 28. mars 2008

Um bloggið

Sindri Guðjónsson

Höfundur

Sindri Guðjónsson
Sindri Guðjónsson

Ég heiti Sindri! Ég er trúlaus, og blogga hér aðallega um Biblíuna. (Ég er að vísu sem betur fer hættur þessu stússi)

 

Þú getur haft samband: sindri79(a)gmail.com

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...itvig
  • ...ysyvq
  • ...100_2438

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband